Enn liggur bloggið í dvala - stórmyndarleg gjöf frá Hjallastefnunni

Bloggið er í kuðli enn, ætla að athuga hvort þetta fer í gegn. Mér skilst að Google hafi keypt þetta og síðan hafi þjónustan snarlega versnað.

Aftur á móti verð ég að láta ykkur vita að Hjallastefnan hefur gefið 100 þúsund krónur í Jemenverkefnið okkar og mikið lof á Margrét Pála frumkvöðull hennar fyrir rausn og velvild.

Finnst ástæða til að þakka virktavel fyrir það.
Vona ég geti látið í mér heyra upp úr helginni á nýrri addressu(fyrir síðuna altso)

Enn verður dráttur á að nýtt heimilisfang fáist

Bara til að segja ykkur það. Því miður virðist bloggið vera í klúðri.
Læt vita strax og lagast. Kákasuslönd eru þó komin inn þó þurfti að laga uppsetningu.

Er að breyta addressu á síðunni

Segi ykkur nýja netfangið seinna í dag, þriðjudag. Gjörið svo vel og láta það ganga sem víðast. Hér ráða tæknilegir örðugleikar, ekki mistök.
Heyrumst og orðsending sem ég vonast til að koma inn síðdegis er verulega áríðandi.
Endurtek áríðandi

Kvaddur góður félagi

Pétur Guðmundsson, elskulegur ferða- og VIMAfélagi er kvaddur í dag í Háteigskirkju en verður jarðsettur í Strandakirkju í Selvogi á morgun.

Pétur var ljúfur maður sem var gott að kynnast og vera með á ferðalögum. Forvitinn, fróður og glettinn. Drengskaparmaður. Þannig kom hann mér fyrir sjónir og þannig minnast þeir hans áreiðanlega sem kynntust honum meira en ég.

Mér þykir ákaflega vænt um að hann og Sveinn, ásamt með Guðmundi föður Péturs voru í fyrstu Íransferðinni í mars s.l. Þeir Sveinn höfðu ákveðið að koma í Sýrlandsferð fyrir tveimur árum en vegna veikinda varð hann að fresta því. Þá ferð fóru þeir svo með mér í apríl s.l. Ég held þeir hafi verið glaðir yfir því og nú við leiðarlok er ég það líka.

Ég er sannfærð um að ferðafélagar Péturs og Sveins og aðrir VIMAfélagar sem kynntust honum taka undir samúðarkveðjur til mannsins hans, foreldra og systkina. Og til allra þeirra mörgu sem þótti vænt um hann.

Ferð til Írans í gærkvöldi

Tókst afskaplega vel myndakvöld Íransfara í september í gærkvöldi, fagnaðarfundir og höfðu menn á orði að þeir hefðu farið ferðina á ný með því að horfa á disk Margrétar og Brynjólfs og kubb verkfræðingsins Guðrúnar Ól. plús albúmsmyndir sem voru meira og minna til fyrirmyndar.
Við borðuðum gómsæta löngu og kaffi og súkkulaðiskeljar í eftirmat. Flestir ferðalangarnir mættu og allir skemmtu sér vel við að rifja upp ferðina til þessa magnaða lands sem margir hafa svo rangar og vitlausar hugmyndir um að engu tali tekur. En hóparnir tveir á árinu eru góðir sendiherrar og kynna efalaust Íran.

Líður senn að því að ég þurfi að senda út vegabréfsnúmer þeirra sem fara í næstu ferð, svo og verð ég að faxa út ljósrit af síðum í vegabréfum og mun ganga eftir þeim innan tíðar. Þarf svo að senda út umsóknir og myndir um miðjan janúar en við hittumst fyrir þann tíma til að ganga frá málunum.

Ég ítrekaði það á fundinum í gær sem ég hef minnst á fyrr að það verður bara EIN ferð til Kákasuslandanna á árinu 2007 svo menn ættu að drífa sig að láta mig vita ef þeir hafa áhuga. Gjöra svo vel og láta það ekki dragast úr hömlu.

Þau tíðindi að hafa gerst á heimilinu hér að ég er loksins búin að koma mér upp ADSL tengingu svo nú ætti að vera auðveldara að ná í mig símleiðis þó ég sitji við tölvuna.

Fundur í Borgarnesi góðmennur en færri en á hinum tveimur

Góðan daginn
Eftir að hafa skrönglast um göturnar hér í Vesturbænum á Eyðimerkurljóninu, mínum litla fjallabíl, er ég ringlandi gáttuð yfir þjónustunni: það hefur gleymst að moka af götunum hér á þessu svæði. Eitthvað kraflað í þetta en eiginlega ekki nema hálffært fyrir okkur þessa fáu sem eru ekki á stórbrotnum jeppum. Klén þjónusta.

En hvað um það: Við Ragnheiður Gyða fórum í Borgarnes í gær og héldum kynningarfund. Þar var ívið færra en á hinum fundunum tveimur en góðmennt og fleiri nýir félagar bættust við og auk þess einn styrktarmaður Jemenstúlkna. Það var þakkarvert.
Okkur fannst þetta fyrirtaks fundur og mikið spurt og spjallað. Við fengum salinn í Landnámssetrinu ókeypis og þakka þeim húsráðendum Kjartani og Sigríði Margréti kærlega fyrir það.

Við látum nú staðar numið með ferðir út á land í bili en tökum upp þráðinn eftir áramót og allar leiðbeiningar þar að lútandi vel þegnar.

ÉG VIL ÍTREKA EITT ALVEG SÉRSTAKLEGA:
Þegar menn greiddu inn á ferðir um síðustu mánaðamót varð alls konar misskilningur. Ég bið menn að ganga úr skugga um það við greiðslu að ÞEIRRA EIGIN KENNITÖLUR birtist því annars fer allt í rugl og ég veit ekki hverjir borga. Vinsamlegast hafa þetta bak við bæði eyru við næstu greiðslu.
Muna að leggja greiðslur inn á réttan reikning 1151 15 550908. ALLS EKKI NEINN ANNAN. Þeir sem borga í öðrum bönkum en SPRON verða sérstaklega að hafa þetta hugfast.

Nokkur imeil koma alltaf til baka með villu. M.a imeil Eddu og Stefáns sem eru hjá mér með netfang á Raunvísindastofnun. Bið einnig Valborgu Sigurðard að senda mér nýtt imeil sitt á Spáni.

Hvet ritnefndarkonur til að hafa samband og segja okkur hvort þær eru komnar á skrið með næsta fréttabréf sem þarf að vera tilbúið um áramótin.

Býst ekki við ég þurfi að minna Íransfara í sept á myndakvöldið í kvöld. Geri það samt.

Ætla svo að óska aðaltæknistjóra þessarar síðu Elísabetu Ronaldsdóttur, vinkonu minni og ömmubarnsmóður, til hamingju en tvær myndir sem hún sá um klippingu á Mýrin og blóðbönd voru í sviðsljósi Edduverðlauna um helgina. Húrra fyrir henni.

Fundur Jemen/Jórdaníufélaga í dag, sunnudag. Ath.plássin til Íran

Mikið var gaman að vakna í morgun og vera næstum snjóaður inni. Ófærð og huggulegheit. Eins og á að vera í eðlilegum nóvember.

Fundur með Jemen/Jórdaníuförum var haldinn í dag, að vísu komust ekki allir til fundarins en mun senda upplýsingar til þeirra sem ekki voru þar. Við drukkum mikið af te og kaffi, borðuðum sætabrauð frá Azerbadjan og þjóðlegar piparkökur og rúsínur.
Skrafað um áætlun og ferðina og fínasta stemning þótt þeir væri auðvitað saknað ákaft sem fóru á mis við fundinn.

Fékk í gær endanlega áætlun til Kákasuslandanna og set hana á sinn stað á næstu dögum. Henni hefur verið breytt, ég ákvað eftir ferðina mína í október að heppilegra væri að byrja í Azerbadjan, síðan Georgía og enda í Armeníu. Auk þess gerði ég nokkrar aðrar breytingar og hugsa að þær séu allar til hins betra.
Það eru pláss í þá ferð og skyldu menn íhuga það. Áritun þarf til allra þriggja landanna og hef samband um það og kannski smáfund í byrjun desember.

Sömuleiðis hef ég betrumbætt smávegis Íranáætlunina og mun einnig setja hana inn áður en langt um líður. Íranfarar fá svo tilkynningu um hvenær við hittumst til að fylla út áritunarumsóknir og þess háttar. Fjögur pláss eru laus í Íranferðina, einkum stafar það af því að fólk hefur ekki látið vita fyrr en seint og um síðir að það á ekki heimangengt. Afleitt það.

Annað kvöld hyggjumst við Ragnheiður Gyða fara með Miðausturlanda og ferðalagskynninguna okkar í Landnámssetrið í Borgarnesi. Svo fremi sem veður og færð leyfi. Bið ykkur að láta það ganga.

Svo ætla Íranfarar frá því í september að hittast á þriðjudagskvöldið kl. 18 og allir með myndir og hlakka til vænti ég.

Arabískukennslan hjá Mími byrjar á miðvikudagskvöldið og þar er orðið fullskipað sýnist mér. Það verður skemmtilegt.

Útrásin gengur takk bærilega

VIÐ VIMA konur vorum með kynninguna okkar í Bókakaffi Bjarna Harðarsonar á Selfossi í gærkvöldi og það var skemmtilegt kvöld.
Þetta er notalegt kaffihús sem er óhætt að mæla með.
Við fengum góða aðsókn og fínar undirtektir og menn fylgdust með fyrirlestri og myndadiski af miklum áhuga. Svo var ferðaáætlunum dreift og fréttabréfi. Elísabet Jökulsdóttir las einnig úr ljóðabókinni Englafriður sem varð til upp úr ferð hennar til Líbanons og Sýrlands með johannatravel fyrir tveimur árum.

Fyrsta kynningin var á mánudagskvöldið í Hótel Varmahlíð í Skagafirði. Veðrið var heldur ólánlegt á leiðinni norður en við komumst á leiðarenda af harðfylgi. Á kynningarfundinn komu um 40 manns og urðu líflegar umræður eftir fyrirlesturinn og var góð stemning.Svanhildur hótelstjóri hafði ljúffengan arabískan mat á boðstólum sem gerði lukku.

Við ætlum svo að vera í Borgarnesi n.k. mánudagskvöld, í Landnámssetri kl. 20,30 og hið ágæta blað Skessuhorn mun birta væna frétt um það og svo höfum við komið þessu áleiðis til nemenda á Bifröst. Ég væri þakklát fyrir ef þið létuð þetta berast til þeirra á svæðinu sem þið kannist við.

Þegar þeirri kynningu er lokið ætlum við að láta staðar numið í bili því nú fara allir að sinna jóla-einhverju. En í janúar - upp úr 10. væri ráð að skreppa til Akureyrar, kannski í Dalina og fleiri staðir eru á döfinni og gaman að heyra frá ykkur t.d. einhverjum sem búa úti á landi og hafa áhuga á að aðstoða okkur við þetta.
Mér finnst hafa sýnt sig á þessum tveimur kynningum sem búnar eru að það er mikill áhugi á Miðausturlöndum víðar en í Reykjavík og næstu grennd.

Minni svo Jemenfarana að láta mig vita um hvort þeir komast á þann fund sem ég hef sent þeim skilaboð um. Einnig eru nokkrir Íranfarar (septhópur) sem hafa ekki látið vita hvort þeir mæta á myndakvöldið. Það er hugsanlegt að beðið verði með fund með Kákassus fólki fram yfir áramót.
Verið svo væn að láta snarlega - og þá meina ég SNARLEGA- í ykkur heyra.

Durrað í Skagafjörðinn -

Góðan mánudaginn

Við Gulla Pé ætlum að durra norður í Skagafjörð og halda VIMA kynningu í Hótel Varmahlíð í kvöld ef guð og veðrið lofa. Á miðvikudag á Selfossi og næsta mánudagskvöld í Landnámssetrinu í Borgarfirði. Vonumst til að fá fleiri félaga og vekja athygli á starfsseminni, svo sem Jemenverkefni, ferðalögunum og þess háttar.

Þá sendi ég á eftir tilkynningu til Íransfara sl. sept vegna myndakvölds okkar og vona að menn sjái sér fært að mæta.

Mér þætti vænt um þið létuð síðuna trítla til trúðverðugra.

Beðið eftir óveðri

Í morgun mátti ég sofa út
hugsaði skríkjandi
kannski vakna ég öðru hverju
og stormurinn og óveður Haraldar
gnauðar á glugganum

kúri mig undir sængina
full tilhlökkunar
bíð eftir að húsið skjálfi
heyri öskutunnurnar fjúka út í buskann
hugsa

eru ekki allir að setja í jólagírinn
á ég að byrja smákökubaksturinn um helgina
fara í Íkea og kaupa eitthvað sem mig vantar ekki
endilega skrifa á jólakortin
þvo gardínurnar
taka til í skápunum
setja nýtt parkett á svefnherbergisgólfið
mála kannski stofuna rétt í leiðinni
skipuleggja jólamatinn
búa til ísinn
eða
tilkynna myndakvöld
undirbúa arabískukennslu
skrifa fyrirlestra
fara yfir kynningar í næstu viku

leit á klukkuna og
beið glaðvakandi eftir hvassviðrinu
hugsaði einbeitt
geri ekkert nema
ég fái þetta lofaða veður

kíkti út
trén bærðust varla
öskutunnur á sínum stað
allt til einskis
við erum veðuraumingjar,
bara hlý nóvembergola úti

fór á fætur
gersamlega buguð af biðinni

sé ekki fram á neitt jólastress
um helgina
létt amstur eins og aðra daga

vonglöð
læt ég þó setja vetrardekk undir bílinn

Leiðrétting á netföngum - dagsetningar á Íran ofl

Setti inn nákvæmar dagsetningar á Íran svo þær eru í lagi. Brottför í Kákasus er 30.apr-20.maí. Nánar um það fljótlega

Erindið er aðallega: Kynningar VIMA úti á landi verða vonandi svona fjórar í nóv.
Sú fyrsta í Hótel Varmahlíð í Skagafirði 13.nóv og sú næsta í Bókakaffi á Selfossi 15.nóv. Verið svo góð að láta þessar upplýsingar ganga. Allir þekkja einhverja á þessum svæðum. Við erum að vonast til að komast til Akureyrar, dagsetning ekki frágengin og helst í Borgarnes. Síðan ætlum við að gera hlé þar til um miðjan janúar. Þá er trúlega skikkanlegur tími, jólin búin, visareikningar ekki komnir og lífið svona og svona þó dag lengi.
Öll hjálp er meira en vel þegin.

Í öðru lagi: Sendi út imeil til þeirra sem styðja og studdu fyrsta hópinn í Jemen. Það barst til mín bréf til þeirra stuðningsmanna og mynd. Aftur á móti bið ég ykkur að senda leiðréttingar á addressum og netföngum. Stundum kvarta menn undan því að fá ekki póst en svo kemur í ljós að ég hef ekki rétt netfang. Vinsamlegast athuga að það er dálítið erfitt að senda á rétt netfang ef ég er ekki með það.

Bið Sigríði Halldórsdóttur á Akureyri að staðfesta netfangið sitt, ég fæ alltaf það fyrra til baka. Sömuleiðis Sigurlaugu M. Jónasd. sem hefur trúlega breytt um netfang.

Ég vil benda áhugasömum um Íranferðina á að eftir 25.nóv. get ég alls ekki bætt við vegna skilyrða sem flugfélagið setur. Þá verð ég að senda nafnalista út og ef einhver bætist við eftir það kemur aukakostnaður

Til stuðningsmanna fullorðnu stúlknanna


Kærlingarnir mínir.
Þetta bréf frá Nouriu Nagi barst í kvöld og ég er ekkert að þýða það. Ásamt tveimur myndum.
Vil taka fram nokkur atriði til viðbótar: Pósta á morgun myndir og plagg um börnin til allra nýrra í hópnum sem bættist við í haust. Það gefst ekki tími til að halda foreldrafund en alltaf má hafa samband ef einhverjar spurningar eru.

Það er athyglisvert að eldri stelpurnar(15-17 ára) senda myndir af sér án andlitsblæju. Þetta er yfirleitt óhugsandi í Jemen og Nouria hefur sjálfsagt þurft að beita fortölum til að þær fengjust til þess.

Vil einnig árétta að ég hef ekki fengið svör frá öllum ferðalöngum, en menn hafa margir verið snöggir að greiða og ég þakka kærlega fyrir og bið þá sem ekki hafa lokið því að gera það hið allra allra allra fyrsta. Því annars erum við í erfiðum málum vegna miða og pantana á hótel.

Ítreka að nokkur pláss til Írans og Kákasus eru laus - en einkum vegna þess að ég hef ekki fengið svör og nenni ekki að bíða eftir þeim endalaust. Þá meina ég frá fólki sem hafði tilkynnt vel og rækilega að það vildi fara í þessar ferðir á þessum tíma. Skrifaði nokkur ábendingarbréf í kvöld og vona að menn svari þeim nú.
Það gengur bara ekki að koma manni í þessi vandræði gagnvart okkar mönnum þarna úti.

Set nákvæmar dagsetningar á Íranferð inn á linkinn þar fljótlega og Kákasus sömuleiðis. Gjöra svo vel og fylgjast með því.

Fundir um allar ferðirnar þrjár verða síðar í þessum mánuði og Íranfarar þurfa að vera með passamyndir og bera slæðu á þeim. Ekki er nauðsynlegt að hylja hár nema að hluta á þessum myndum.
Nánar um það síðar.
Unditektir varðandi fundi úti á landi eru góðar en ég vildi gjarnan heyra frá fleirum, þið hljótið að þekkja einhverja áhugasama sem mundi ljá okkur lið.
Hér kemur svo bréfið frá Nouriu og myndirnar af nokkrum kvennanna á fullorðinsfræðslunámskeiði. Ath. að hún biður um að menn sendi EKKI peninga fyrr en vitað er hverjar ætla að halda áfram eftir jólin.
To all the sponsor’s of the sewing project
We would like to thank you for sponsoring the sewing project at YERO Centre which has started this year, February 2006 and will finishes at the beginning of February 2007. I would like to inform you that we have stopped for a break during the month of Ramadan, and we will restart the project again this week at the same time 3-30 till 5- 30 twice a week and we are going to include with the sewing, Embroidery and making of bags, we already have six sewing machines and we will only take women who has attended the whole time, there for please do not send any money for sponsoring this project for next year until we see who is keen to learn and attend and wants to make a living from this useful project. this year, thanks to all of you we have done all the children school uniform at the Centre by only two good students and their Yemeni teacher, and for the boys we had to get a man tailoring to do their uniforms, that’s way we are going this week to start with small things like bags and other things that can be sold when we have a bazaar, or if there are visitors who might be interested in baying nice things done by our girls and women, so the women can have a little income

Kind Regards,
Ms. Nouria A. Nagi
Director