Yfir 30 þúsund manna múrinn - Breytingar til bóta í Jemen/Jórdaníuferðinni og sitthvað dúllerí

Þá er skattadagurinn mikli runninn upp og ég vona að enginn hafi farið verulega á hausinn.

Vek athygli ykkar á því að við höfum rofið 30. þúsund gesta múrinn og samtals hafa um 54 þúsund gestir heimsótt síðuna. Það hlýtur að teljast glæsilegt.

Bendi Jemen/Jórdaníuförum á að ég hef gert lagfæringar á Jórdaníuleggnum í þeirri ferð sem gerir förina ugglaust skemmtilegri. Við dveljum lengur í Petra og gistum í Wadi Rum sem mun áreiðanlega gera lukku hjá hópnum.

Þá leyfi ég mér að minna Íranfólkið mitt á síðustu greiðsluna nú um mánaðarmótin. Þá á sömuleiðis að borga eins manns herbergisgjaldið. Gjöra svo vel og gera það á réttum degi. Borga á ferðareikninginn 1151 15 550908 kt. 1402403979Ítreka þá hvatningu mína að VIMAfélagar safni nýjum í félagið.

Ritnefnd VIMA er að störfum og mun fyrsta fréttabréf vetrarins verða tilbúið um þær sömu mundir og efnt verður til kynningarfundar um miðjan ágúst. Insjallah

Hef fengið nokkrar fyrirspurnir um hvenær eigi að greiða Jemendiskinn og er ekki bara ráð að gera það núna. Greiðist á reikning 1151 15 551130 kt.1402403979. Tvö þúsund og fimm hundruð krónur. Ólafur Singer situr nú við að klára þetta og ég mun svo koma þeim til ykkar.

Enn geta allmargir pantað disk til viðbótar og er doltið hissa hvað vantar nokkuð á að ferðalangar í Jemenferðum hafa gefið sig fram því þetta er upplifun, og hún er ljúf og hrjúf.

Bendi loks á mótmælastöðu við bandaríska sendiráðið vegna atburða í Líbanon og Gaza sem verður kl. 17,30 í dag. Ég er viss um að margir VIMA félagar vilja sýna samstöðu með vinum með því að mæta þar.

Látið frá ykkur heyra!!

Greinin/viðtalið/ljóðið komið inn á línka

Var ekki fyrr búin að senda ykkur öllum bréf að ég sá að tæknisérfræðingi okkar hafði auðvitað tekist að setja þetta allt á sérstaka linka. Það er undir hausnum Andagift.
LjÓð Elísabetar: Líbanon
Viðtalið við Guðrúnu Margréti: Viðbrögð alþjóðasamfélagsins
Grein Jóns Orms:Tilbúin handrit

Ég tel hinn mesta feng að þessu efni á síðuna og hvet ykkur eindregið til að láta í ljós skoðanir ykkar.

Fékk smánótu frá Guðm. Péturssyni sem ég hnýti hér aftan við. Einnig er hægt að fara inn á slóð Amnesty á Íslandi þar sem eru hönnuð bréf sem má senda til hlutaðeigandi.

Kæra Jóhanna.
Hér er hægt að skrifa undir áskorun um vopnahlé í Líbanon:
http://epetitions.net/julywar/index.php

Kveðja.
Guðm. P.

HVET YKKUR TIL AÐ LESA GREIN JÓNS ORMS Í FRÉTTABLAÐINU

Góðan daginn

Hvet ykkur til að lesa grein Jón Orms Halldórssonar á miðopnu Fréttablaðsins í dag. Það er ekki nýtt að greinar hans séu eftirtektarverðar en ég tel að þessi grein eigi sérstakt erindi til okkar með hliðsjón af því sem er að gerast. Látið það því ekki hjá líða.

Spurningalistar skila sér hægt og bítandi

Ég sendi líka spurningalista til Jemen/Jórdaníufara 2005 og 2006 og þeir eru byrjaðir að skila sér. Þar koma fram ýmsar athyglisverðar ábendingar og ég þakka fyrir það.
Howta Palace í Sejun í Jemen virðist ótvíræður "hótelsigurvegari" þeirrar ferðar þó svo að Marriott hótelið við Dauða hafið í Jórdaníu sé á dagskránni.
Mikið þótti mér vænt um það og sýnir mér að ég er með ferðalanga en ekki túrista á ferð. Raunar vissi ég það.
Hef sent fyrirspurn um það til jórdönsku ferðaskrifstofunnar hvort við getum tafið lengur í Petra og Wadi Rum sem virðist vera vilji fyrir. Mundum þá etv gista í tjöldum í Wadi Rum sem væri geggjað.
Bendi á að það eru enn örfá sæti laus (þetta er nú bara ferðaskrifstofuorðalag!!)í Jemen/Jórdaníuferðina en fyrirspurnir hafa borist um bæði svo það verður væntanlega ekki lengi.
Almennar niðurstöður ættu að geta birst fljótlega.

Ómanlistar og umsagnir um Íran
hafa líka dottið inn um lúguna eða á tölvuna. Takk fyrir það. Bið þó menn að taka við sér því ég get ekki birt almennilegar niðurstöður þaðan fyrr en fleiri hafa skilað sér.
Bæði löndin hafa auðheyrilega vakið hrifningu hjá þátttakendum. Gjörið svo vel og munið að þangað komast enn nokkrir til viðbótar.

Azerbadjan, Armenía og Georgía
Eins og fyrr hefur komið fram verður sú ferð sennilega í maí 2007 og hún er fullskipuð ef allir sem hafa tilkynnt áhuga verða með. Gjöra svo vel og ítreka það því hún er eiginlega fullskipaðri en ég get tekið.

Sýrland að hausti 2007
Held mér við það, og ekkert sem bendir til breytinga þar. Mun vitanlega verða að sleppa Líbanon - þökk sé þeim umdeildu friðflytjendum sem nú sprengja landið aftur í aldir - og lemstra líkama og sálir. Mun annað hvort lengja Sýrlandsferðina eða taka Jórdaníu inn í staðinn. Nógur tími til að huga að því.


Ítreka svo enn þetta tvennt: Látið í ykkur heyra! Um hvaðeina. Og lesið grein Jón Orms í Fréttablaðinu

Íransstimpluðum vegabréfum dreift um helgina - áfram heldur hryllingurinn í Líbanon

Sælt veri fólkið
Íranska sendiráðið í Osló með fulltingi þess íslenska voru ekki lengi að því sem lítið er og vegabréfin eru komin stimpluð og fín til baka og verður dreift til þátttakenda í ferðinni um helgina.

Jemendiskurinn sennilega tilbúinn upp úr mánaðamótum og hvet sem flesta til að láta vita ef þeir hafa ágirnd á að kaupa diskinn. 2.500 kr. Muna það.

Mér finnst veruleg tregða í svörum við spurningalistum til Óman og Íranfarþega en skýring gæti verið að fólk sé út og suður. Þakka fyrir þau svör sem þegar eru komin og bið þá sem enn hafa ekki svarað að gera það fyrr en síðar.

Áfram heldur hryllingurinn í Líbanon og er allt það þyngra en tárum taki. Ekki síst þegar maður les um amenið frá stjórn Bandaríkjanna að það sé nánast allt í góðu lagi að sprengja amk fram í næstu viku.
Fólk deyr í hrönnum, landið er í rúst enn á ný og svo tyggur nýi íslenski utanríkisráðherrann upp eftir bandarískum, í viðtali að "Ísraelar hefðu náttúrlega rétt til að verja sig."
Það leyfi virðist ekki eiga við um aðra.

Heyrði í fréttum í gær að Rauði krossinn hefur komið upp fjárhagshjálp til aðþrengdra í Líbanon og hvet VIMA félaga til að leggja eitthvað af mörkum. Það er hægt að hringja í síma Rauða krossins og þá bætist þúsund krónur við símareikninginn. Fæstir láta sig muna um það ætla ég rétt að vona.

Vegabréf send til stimplunar - hvar eru spurningalistarnir?- Kynning á Akureyri?

Ég skrapp norður á Akureyri í vikunni til að taka þátt í afmælisveislu ömmudrengsins Örnólfs Hrafnssonar. Hafði því miður ekki tök á að hitta nokkra VIMA félaga eins og til stóð því blaðburðarbarnið JK fékk ekki nema eins útburðardags frí. Með í pússi mínu reyndist vera leiðindaveðrið að sunnan en það kom svo aftur með mér á heimleiðinni. Sorrí stína.
Mér hefur hins vegar dottið í hug hvort ekki væri kjörið að við héldum ferðakynningarfund á Akureyri seinna í sumar. Hvað segja menn um það.
Það verður mesti munur að hitta blíðviðrið í Íran í septemberbyrjun.

Vegabréf hafa verið send út í sendiráð Íran í Osló til stimplunar og ég hef samband þegar meira fréttist af því dæmi. Estrid starfskona í íslenska sendiráðinu þar í borg verður okkur innanhandar og ýtir vinsamlega á Írani svo ég vona að allt gangi eins og í sögu.

Auglýsi eftir skoðanakönnunarlistum
Geri mér mæta vel grein fyrir að margir eru í brottu vegna sumarfría en finnst samt að fleiri spurningalistar mættu skila sér. Íranfarar í mars og Ómanfólk í febrúar ætti að drífa sig og senda mér útfyllta lista um hæl.
Vinsamlegast og alúðlegast.

Febrúarlúxus í Óman
Hef tuðað um það allnokkrum sinnum að Ómanferð í febrúar er fáliðuð og hvet ykkur til að athuga það mál. Auðvitað er Óman ekki mikið þekkt hér í landi en þess meiri ástæða til að VIMA félagar kynni sér þetta ævintýraland. Það er sjaldan í fréttum vegna þess að þar er friðsæld og fagureygður soldán sem stýrir málum af festu og mannviti.
Febrúar er undursamlegur tími þar og hollt að komast burtu úr kulda og trekki Íslands um þær mundir.

Ísrael/Palestína/Líbanon
Þar gengur mikið á þessa dagana og engu líkara en einhverjir hafi gengið þar þrælslega af göflunum. Sé hins vegar ekki að þetta breyti neinu fyrir okkar ferðalagaáætlanir en fylgist vitanlega með framvindu mála.

Hún á afmæli í dag
Svo nota ég tækifærið og óska Þóru Jónasdóttur, hugþekkum VIMA félaga og ötulum ferðalangi til hamingju með fimmtugsafmælið í dag.

Og rétt í restina: Hef fengið slatta af pöntunum á Jemenmyndinni en ég er sannfærð um að fleiri vilja eignast hann. Samband! Samband! Það er málið.

Skoðanakönnun send til ferðafélaga- dagsetning á Jemen/Jórdaníu

Sendi um helgina spurningalista til Íranfara í mars og mun senda til Ómanfara í febr sams konar lista. Ekki ólíklegt að Sýrlandsfólk 2005 og 2006 fái slíkt fljótlega líka.
Langar að biðja ykkur að eyða nokkrum mínútum í að svara þessu. Gerði þetta eftir fyrstu þrjár Sýrlandsferðir og voru heimtur til sóma og mér til gagns.

Slíkur spurningalisti er til hjálpar og gott að heyra skoðun félaga þegar stundarkorn er liðið frá ferð og menn búnir að melta hana með sér.
Þegar nægilega margir hafa svarað verða niðurstöður birtar hér á síðunni.

Hér með smáskýrsla um gang mála:

Jemen/Jórdanía dagsetningar
Endurtek þær vegna þess að það virðist hafa farið framhjá einhverjum. Brottför 27.mars og heimkoma 13.apríl. Ferðalýsing á linknum er meira og minna eins og væntanleg páskaferð en reikna með að við verjum þó ögn meiri tíma í heimsókn í YERO miðstöðina.
Bíð eftir staðfestingu frá tveimur, annars er hún setin.

Eru fleiri sem vilja styrkja Jemenstúlkur???
Það skal ítrekað að styrktarmenn Jemenkrakkanna okkar skulu greiða sína 200 dollara um eða upp úr næstu mánaðamótum. Allavega fyrir 10. ágúst.
Erla Adolfsdóttir og Sigríður Einarsd. hafa þegar greitt fyrir sína stúlkur og Þóra Jónasd. að hálfu.
Guðmundur Pétursson og Högni Eyjólfsson hafa einnig borgað fyrir strákana sína.
Þessi greiðsla fer inn á Fatimusjóð 1151 15 551130 og kt. 1402403979. Nokkrir greiða mánaðarlega og ef einhverjir kjósa svo bara láta mig vita.

Svo vonast ég eindregið eftir því að við getum bætt við nokkrum tilbótar. Væri gaman að því ef 10 bættust við. Væri ráð að menn bentu líklegum styrktarmönnum á þetta góða mál.
Minni einnig á Jemenmynd Ólafs S. Hana má panta hjá mér og þegar hafa komið allmargar pantanir og amk. einn ætlar að nota þessa mynd til jólagjafa og það er enda hið mesta þjóðráð.


Íransferðin í mars
Eins og áður hefur komið fram er Íranferðin í mars á góðu róli en þar geta fleiri komist með.
Athuga það endilega. Íran verður efalaust flestum mikið ævintýri og kemur þar fleira á óvart - og það heldur notalega- en menn reikna með.

Azerbajdan, Armenía og Georgía
virðast vekja forvitni hjá mörgum. Hlakka til að fara þangað í haust, að lokinni Íranferð og skoða þar þá staði sem eru á áætlunum sem mér hafa borist.

Óman. Hvað er eiginlega málið?
Það hafa nokkrir bæst þar við en engan veginn nógu margir. Er öldungis ótrúlegt að mínum dómi því stórmikil gleði var með þá reisu. Eggja ykkur lögeggjan.
Í allar ferðir þarf lágmarksþátttakendafjölda eins og mönnum er ljóst. Annars verður ekki af ferð.

Sýrland/Líbanon í september
rúllar glaðbeitt og mun efalaust fyllast ef höfð er hliðsjón af fyrri reynslu.
Margir vilja hitta Gaddafi
Þó svo Líbýa sé ekki á planinu fyrr en eftir ríflega ár sýnist mér augljóst að ýmsir VIMAmenn vilja hitta Gaddafi og þá náunga. Og sjá það leyniland sem virðist hafa upp á margt að bjóða.

Nú væri ráð að koma sér í koju svo ég vakni á réttum tíma í Moggaútburð.
Sæl að sinni.

Ferðin til Jemen- frumsýnd á myndakvöldi

Góðan daginn öll

Jemen/Jórdaníuhópurinn frá því í maí hittist í gærkvöldi heima hjá Helgu Kristjánsdóttur. Við áttum saman einstaklega skemmtilega stund. Við gæddum okkur á afar ljúffengum arabískum mat, skröfuðum og skoðuðum myndir í óðaönn.

Hápúnkturinn var samt þegar frumsýnd var klukkustundarmynd Ólafs S. um ferðina. Ólafur sagði af hógværð að betur mætti gera, og enn væri nokkuð óklippt- en ekki var að orðlengja að hópurinn fór í aðra ferð í gærkvöldi og nú ókeypis.
Okkur fannst hann koma sálinni í Jemen listilega til skila. Ég held að við höfum öll orðið verulega snortin og svo var hlegið dátt inn á milli. Tónlistin sem hann setti inn á myndina magnaði enn áhrifin svo húrrahrópin glumdu í Garðabænum að sýningu lokinni.

En ekki nóg með það. Ólafur ætlar nú að klára að snurfussa myndina og síðan lætur hann mig fá slatta af diskum og þá sel ég og allur ágóði vill Ólafur að renni í Fatímusjóð til að styrkja stúlkurnar okkar.
Nefnt var að þá gætum við kannski keypt saumavélar fyrir þær sem eru á hannyrðanámskeiðinu og stakk Guðmundur Kr. upp að hann tæki sér listamannsnafnið Ólafur Singer.

Þeir sem hafa hug á að eignast myndina hafi því samband við mig og diskurinn kostar 2.500 kr. Hvort sem menn hafa komið til Jemen, ætla eða ætla ekki þangað munu allir græða á því að fylgjast með myndinni. Fyrir utan að mér þykir falleg hugsun Ólafs Singer um hvert peningar eiga að renna.

Margir styrktarmenn Jemenstúlkna hafa spurt hvenær þeir eigi að greiða fyrir næsta skólaár og því er til að svara að það gæti orðið um eða upp úr mánaðamótunum næstu.
Mun senda til allra núverandi og vænti þess að þeir hafi aðstöðu til að halda tryggð við sína stúlku. En við þyrftum líka að bæta við, tíu eða fimmtán til viðbótar væri fyrirtak. Segið endilega vinum og félögum frá þessu.
Augljóst er að þetta fyrsta ár hefur gengið vel hjá krökkunum en mér finnst samt rétt að bíða með að þeysa með málið í fjölmiðla. Þetta er ágætt svona og skynsamlegra að fara ekki of geyst. Á þennan hátt er yfirbyggingin engin og hver króna skilar sér á réttan stað.

Líður að því að Íransfarar skili vegabréfum
Upp úr helginni hef ég samband við Íransfarana í september og þarf þá að safna saman vegabréfunum og koma þeim út til sendiráðs Írans í Osló til að fá stimpla og amen.
Menn eru beðnir að fylgjast með.. Hef sent beiðni til sendiráðs Íslands þar í bæ til að ýta á eftir að það gangi vel og þægilega fyrir sig. En tekur að lágmarki tvær vikur. Þegar svona stendur á geta menn fengið bráðabirgðavegabréf útgefið ef þeir þurfa að bregða sér af bæ meðan vegabréfin eru í Noregsferðinni.

Ég hef sagt það áður og endurtek það einn ganginn enn: sendið síðuna til ferðaglaðra kunningja. Þetta er eina leiðin til að koma upplýsingum um ferðirnar á framfæri. Þó margir viti af þeim nú orðið þurfum við að kynna þær betur.

Svo verður náttúrlega ferðafundur í næsta mánuði, um miðjan ágúst eða svo, og elskubestu látið það berast um víðan völl.

Margt skrýtið í kýrhausnum, krakkar mínir.

Mig langar að benda á eftirfarandi staðreyndir.

Íran í sept 2006. Uppseld

Óman í febr. 2007 Laus sæti

Íran í mars 2007 Nokkur laus sæti

Jemen/Jórdanía um páska 2007 er að verða fullskipuð. Get kannski bætt við tveimur

Armenía, Azerbadjan, Georgía(dagsetning ekki ákveðin, sennilega í maí eða okt. 2007) er þéttskipuð og vantar aðeins staðfestingu frá nokkrum.

Sýrland/Líbanon haustið 2007 Sæti laus.

Libya okt. 2008 virðist í þann veginn að fyllast.

Mér finnst þetta skondið af því nú kvarta menn duggulítið undan því að þeir þurfi að ákveða sig með æði löngum fyrirvara. En þessi listi virðist benda til þess að fólk vilji hafa fyrirvara á þessu.
Með þessi nýju lönd okkar er það beinlínis nauðsynlegt. Auðveldara með Sýrland þar sem það er orðið svona annað heimaland VIMA félaga.

En sem sagt. Þið látið í ykkur heyra.
Ferðir ekki fyrirsjáanlegar 2008 nema Líbýa og etv. foreldraferð til Jemens þar sem ég hyggst sinna öðru það árið.
Eða að minnsta kosti hluta úr því.
Insjallah.