Beinagrind að Libýuferð - áætlað verð á Libyu og Kákasus.

Var að setja inn á Libýu hlekkinn drög eða beinagrind að ferðaáætlun. Sömuleiðis áætlað verð.

Einnig er komið lauslegt verð á Kákasuslandaferðina. Kíkið á þetta en hafið bak við eyrað að ferðin er 2 dögum lengri en þarna er tekið fram. Ekki alveg á hreinu hvar þeir bætast við.

Mér þætti vænt um að heyra frá ykkur varðandi þessi mál. Eftir öllum sólarmerkjunum að dæma verður Kákasuslandaferðin haustið 2007. Ath. það. Ekki má gleyma að ítreka að margir hafa tjáð áhuga á þeirri reisu og nauðsynlegt að heyra frá ykkur.

Líbýuferðin ári síðar. Þar eru nú þegar skráðir fimmtán áhugasamir.

Vegna þess að nú hækka dollarar og evrur villt og galið er verð með öllum fyrirvara.
Einnig fer það náttúrlega eftir þátttöku.

Ferðafundur í ágúst
Þar sem góð vísa er aldrei of oft kveðin minni ég ykkur á að almennur fundur um ferðalögin 2007 og þau sem hugsanlega verða 2008 - þó færri eins og ég hef tekið fram- verður um miðjan ágúst. Þá vonast ég til að sem flestir streymi þangað.

Nýir félagar- hvernig væri að útvega þá?
Bið ykkur að útvega okkur nýja félaga í VIMA og láta síðuna ganga. Það eru nokkur vanhöld á því sýnist mér.
Hvet einnig fólk sem stefnir á ferðirnar 2007 að bíða ekki þar til fundurinn verður í ágúst heldur hafa samband sem skjótlegast.

Snör svör frá Líbýu - verð á Kákasusferð

Býð ykkur öllum góðan daginn

Eins og ég sagði frá á dögunum fannst mér heillaráð að athuga hvort ferð til Líbýu kynni að vera fýsilegur kostur. Líbýa hefur verið lokað land og þangað hafa ferðamenn ekki flykkst enda Gaddafi ekki beinlínis sótt í að fá þá fyrr en nú nýlega að landið var opnað eftir einhvers konar sættir hans og Bandaríkjastjórnar.

Í Líbýu eru merkilegar rústir frá tímum Grikkja og Rómverja en þar er líka litríkt mannlíf Berba, Túarega og fleiri ættbálka. Víðáttumiklar eyðimerkur og undarleg stöðuvötn, fjöll og gróska. Svo þar ætti að vera nóg að skoða og skilgreina.

Sendi nokkrum ferðaskrifstofum í Líbýu fyrirspurn og hef aldrei fengið eins skjót viðbrögð. Ferðaáætlanir hafa hrannast hér á Drafnó upp og þar á meðal frá einum náunga sem gat þess að vinur sinn væri búsettur hérlendis og ætti íslenska fjölskyldu. Heimurinn er ekki stór.
Nú ætla ég að dunda mér við að skoða þessar áætlanir og mun svo birta þá sem mér sýnist fýsilegust næstu daga. Þegar hafa nokkrir tjáð áhuga sinn á ferðinni og vil ég gjarnan heyra frá fleirum.

Verð á Kákasusferð nálgast óðfluga
Þá liggur loks fyrir fullmótuð Kákasusferðaráætlun og verðhugmyndir. Svo nú bauka ég við að finna hagstætt flug. Býst við að byrjað verði í Armeníu og keyrt yfir til Georgíu og endað í Azerbajdan. Upplýsingar um áformað verð gætu því verið tilbúnar fljótlega.

Á hinn bóginn
bið ég svo Íranfara í ferðinni í mars að láta mig vita fljótlega um vilja til þátttöku. Og ítreka að Ómanfólk ætti að kvaka og það fyrr en síðar. Jemen/Jórdanía um páska er í þann veginn að fyllast. Sýrland að hausti mun trúlega verða með Líbanon að þessu sinni enda allt í friði og spekt þar.

Árið 2008 verða færri ferðir, því ég hef önnur áform á prjónunum og því hugsanlegt að það árið verði aðeins Libya og skyldu menn hafa það bak við bæði eyru og grípa 2007-ferðir fegins hendi.
Foreldraferð til Jemens 2008 er samt ekki útilokuð.

Sem sagt látið heyra frá ykkur og einnig bið ég ykkur lengstra orða að láta síðuna ganga til ferðakátra félaga ykkar.

Ég hef verið að pæla í hinu og þessu

Góðan daginn
Íransfarar í september hittust á mánudag og fylltu út umsóknir vegna áritunar. Svo þarf ég fljótlega að senda vegabréfin út til íranska sendiráðsins í Noregi og það má reikna með að menn verði vegabréfslausir í 2-3 vikur. ALLT kom þetta fram á plöggum um ferðina. Það er hægt að fá bráðabirgðavegabréf ef mikið liggur við. Athuga það.
Það var nett og létt stemning og menn fengu sér sýrlenskar kökur og jemenskar döðlur og skrafað um fatnað og farið yfir áætlun og fleira. Nokkrir eiga enn eftir að senda mér ljósrit af fyrstu síðum í vegabréfi. Gjörsovel og draga það ekki. Þarf að fá þetta sem fyrst.
Minni svo menn á að næsta greiðsla er 1.júlí. Vinsamlegast borga á réttum degi því ég þarf að senda greiðslur jafnóðum.

Jemen/Jórdanía um næstu páska að fyllast
Mér til óblandinnar gleði er góð aðsókn í páskaferðina til Jemen/Jórdaníu um næstu páska. Það verður að staðfesta þátttöku - ýmsir hafa gert það og þurfa ekki að endurtaka það og ég veit t.d. að María V. og Aðalbjörg láta mig vita jafnskjótt og þær geta. Aðrir sem ég hef ekki heyrt í nokkuð lengi ættu að hafa samband og það fyrr en seinna.

Íranferðin í mars á góðu róli
Þriðja Íransferðin er svo í mars, að líkindum 1.-17. mars eða þar um bil. Hún virðist ætla að pluma sig en endilega látið vita. Það má bæta í hana. Verð hækkar ekki eftir því sem ég best veit.

Og aldrei klikkar Sýrland
Þar sem mönnum þykir einatt sem ég reki of mikið á eftir og vilji svör með löngum fyrirvara er skemmtilegt að menn eru þegar farnir að skrá sig í Sýrlandsferðina haustið 2007. Sýrland virðist alltaf standa fyrir sínu. Gott mál og fagurt í hvívetna

Vangaveltur um peninga eða tíma eða eitthvað Stundum veltir maður ýmsu fyrir sér í sambandi við þessi ferðalög okkar VIMA félaga. Svo sem því að mér er hulin gáta af hverju menn þeysa ekki til Óman í febrúar. Fyrst hún er á dagskrá. Að vísu hef ég fengið frest og aflýsi ferðinni ekki að svo stöddu. Menn vita ekki hvers þeir fara á mis ef þeir láta Óman framhjá sér fara.

Stundum hef ég líka velt fyrir mér og raunar sett upp í skema hvort það sé verðið sem fólk setur fyrir sig. Trúi því naumast ef menn athuga hvað mikið er innifalið. Auk þess er Óman dýrara land en önnur sem við sækjum heim.

Það væri ud for sig hægur vandi að búa til eitthvert dæmi þar sem ferðin kostaði nánast ekki neitt en svo kæmust menn snarlega á snoðir um það að þeir þyrftu einlægt að vera að taka upp budduna, borga fyrir ferðir, borga aðgangseyri, borga fyrir þetta og endalaust hitt og á endanum væri ferðin orðin amk 70% dýrari. Og þá mundi varla ríkja kátína í bæ.
Mér hefur fundist fólk einmitt vera einkar dúst við að ljúka greiðslum á sem allra flestu - nema drykkjum, tipsi og stundum áritunum- og geta síðan bara notið ferðarinnar í ró og mag. ÞAð væri fróðlegt að heyra álit ykkar og mættuð raunar vera duglegri að skrifa inn á ábendingadálkinn.

Góð tíðindi varðandi Óman - dagsetningar komnar á Jemen

Mikið er gaman að sjá sólina aftur hér í Reykjavík. Maður lyftist af fögnuði og ekki dregur úr ánægjunni að ég hef hér nokkrar góðar fréttir:

Dagsetningar eru klárar á Jemen/Jórdaníuferðina 2007, 27.mars-12.apríl. Þeir sem þegar hafa skráð sig athugi það og einnig geta nokkrir vitaskuld bæst við. Hafa samband, kærurnar mínar. Það er það sem gildir.

Varðandi Óman þá hefur ferðaforstjórinn í Múskat ekki bara gefið mér vikufrest. Heldur fram í miðjan ágúst. Við töluðum saman í gær og mér tókst að sannfæra hann undur blíðlega en af fullri einurð um að það væri upp og ofan hvað fólk gæti ákveðið sig langt fram í tímann og nauðsynlegt að veita því tilfinningalegt (svo maður vitni nú í fyrirmenn) og ekki síður praktískt svigrúm til að ákveða sig.
Það breytir því samt ekki að auðvitað er gott að heyra frá ykkur sem getið sagt til um þetta fyrr en síðar.
Mér fyndist verulegur skaði ef Ómanferðin félli út því farþegarnir í fyrstu ferðinni voru svo dæmalaust ánægðir og Óman er undursamlegt silkiland.

Seinna í dag hittast svo Íranfarar septembers til að fylla út vegabréfsumsóknirnar og þar mæta allir.

Jemen/Jórdaníuferðalangar sl. maí munu halda myndakvöld fyrstu dagana í júlí.

Svo þetta er allt í stíl við veðrið.
Mér þætti vænt um ef hver vildi senda síðuna til svona þriggja eða fjögurra. Við verðum að breiða út upplýsingar á þann eina hátt sem unnt er fyrir utan náttúrlega vona ég - jákvæðar og glaðbeittar umsagnir.

Á mörkunum að Óman 2007 haldist inni

Það er á mörkunum að Óman 2007 haldist inni í áætlun hjá VIMA. Setti hér tilkynningu um daginn þar sem ég bap menn að taka við sér. Sú hefur því miður ekki orðið raunin.
Það er hótelherbergjaskortur í Óman og því nauðsynlegt að tryggja sér allt þar með góðum fyrirvara eins og ég sagði.

Leitt að þurfa að hætta við Óman þó og ætla að reyna að fá stjórann þarna úti til að gefa mér vikufrest. Ef ekki hafa bæst í ferðina nógu margir þá, blæs ég hana af. Læt vita um næstu helgi.

Vona að allir Íransfarar séu tilbúnir fyrir fundinn og komi með myndir og sólskinsskapið með sér

Allir hafa væntanlega átt góða þjóðhátíð.

Einlægt bið ég fólk að hafa samband- og það ber oft árangur, hamdulillah. Athugið að nokkrar myndir eru komnar í Íranlýsingu og Ómanáætlun

Hæ öll

Var að fá imeil frá þeim í Azerbajdan og Georgíu sem ég hef beðið um að senda mér áætlun. Svo barst hún síðla kvölds og mér þótti hún harla girnileg.

Armeníu hef ég heimsótt og veit svona nokkurn veginn hvað okkur mundi hugnast þar en til Azerbajdan og Georgíu hyggst ég fara í október n.k , það er eftir Íranferð, til að renna yfir áætlun.
Sýnist sem flugið gæti orðið nokkuð dýrt og ef við tökum löndin þrjú, sem sagt Armeníu, Georgíu og Azerdajdan mundi það kosta slatta en engan veginn óviðráðanlegt.

Það er samt út í hött að hugsa um þessa ferð fyrr en ég hef farið og rannsakað málið. Hvarflar ekki að mér að halda þangað með VIMA hóp nema vita nokkurn veginn hvað er á boðstólum. En trúlega tekst mér að setja áætlun inn um Kákasuslöndin áður en mjög langt um líður, líklega um 10.júlí. Kannski ekki með fullkomnu og réttu verði en svona hér um bil. Verið samviskusöm og fylgist með því.

Listaverk frá Íran
barst mér í dag. Hossein vinurinn úr teppabúðinni í Esfahan hafði sagt mér að hann fengist við að gera teikningar og hann langaði þessi ósköp að senda mér sýnishorn af því sem hann væri að stússa við.
Þetta tók ég sem kurteisishjal en fékk í dag mynd frá honum sem ég mun nú ramma inn og setja til prýðis upp á vegg hér á Drafnó. Hann er himinlifandi yfir því að annar íslenskur hópur er væntanlegur í september og lofar afslætti á afslátt ofan fyrir þá sem taka þátt í ferðinni. Gott til þess að vita og marsflokkur gæti þar af leiðandi gert því skóna að þá vænkaðist enn hagurinn.

Þá er þess til ánægju að geta að Pezhman Azizi verður með okkur í sept ferð og einnig í mars 2007. Hann er öndvegis leiðsögumaður og ég er afar glöð yfir því að hann fylgir okkur.

Hvað segja menn um Libyu???? Gjörsovel og skrifa í ábendingar.
Veit vel að góður kjarni traustra hefur myndast í VIMA ferðum og dundaði við það í kvöld eftir góðan slúðurfund með "áskrifendunum" Dagbjörtu og Söru að kanna Libyu ferð árið 2008 og gast að því sem ég sá.
Eftir að Gaddafi sá þann kost vænstan að sættast við Bandaríkjamenn -sem er náttúrlega spurning hvort er jákvætt eða neikvætt- ætla ég að afla mér gagnmerkra upplýsinga um hvort ferð til Libyu kann að vera fýsilegur kostur.

Það verður sjálfsagt einhver bið á að svar berist enda hugsa ég þessa ferð ef af kynni að verða- og læt mér detta í hug 4 daga í Túnis eða Marokkó í bakaleið - sem verkefni til framtíðar.

Fundur í ágúst mánuði miðjum
um það sem gæti verið á dagskránni á árunum 2007 og 2008. Þá vona ég að sem flestir mæti og tjái vilja sinn. En ekki skyldi því gleymt að ferðir ársins 2007 eru afar girnilegar og ég þarf að heyra frá ykkur um þær sérdeilis fljótt.+

Ég bið ekki síst Óman og Íranfara að staðfesta eindreginn vilja. Eins og ég sagði er Royal Jordanian flugfélagið að verða fullt og vel það í kringum páska 2007.

Ferðalangar til Írans hittast í næstu viku - saumamaskínumál og smálegt

Sælir séu nú allir á þessum 13.degi júnímánaðar.

Ferðalangarnir sem halda til Íran í september munu hittast í næstu viku til þess að fylla út vegabréfsumsóknir og ég hef þegar sent þeim bréf þess efnis og vona að allir sjái sér fært að mæta. Þessar umsóknir eru ekki sérlega flóknar en það er betra að gera þetta í sameiningu svo enginn lendi í kuðli út af þessum skriffinnskumálum.

Ég hef tekið eftir því að samkvæmt talningu á Íranssíðunni hafa á sjötta hundrað manns samtals farið inn á síðuna og það er hið fegursta mál. Bendi áhugasömum marsförum til Írans að þeir verða að láta til sín heyra.

Varðandi páskaferðina til Jemens/Jórdaníu
sem hefur ekki fengið endanlega dagsetningu, er líka aðkallandi að Jemen/Jórdaníufarar sem hafa ekki látið til sín heyra, geri það, hátt og snjallt því Royal Jordanian flugfélagið sem við notum á þeirri leið er að verða fullt á þessum árstíma.
Okkur er gjarnt að vilja bara stökkva á síðustu stundu en menn skyldu hafa í huga að þessi lönd sem VIMA félagar sækja heim, kalla öll á ákveðinn undirbúning og hann töluverðan.

Sama máli gegnir um Óman og það má ekki dragast að menn tjái sig. Auk þess eru ákveðin vandkvæði hvað snertir ódýrasta flugið þangað og ég get ekki tryggt það ef menn hika of lengi.

Verð á saumamaskínum
í Jemen. Nefndi í pistli nýlega að kannski gætum við aðstoðað YERO varðandi saumavélakaup handa stóru stúlkunum okkar. Nouria Nagi hefur tjáð mér að góðar saumavélar þar kosti um 250 dollara. Það skyldum við hafa bak við eyrað því við þurfum endilega að hjálpa þeim svo sem flestar stúlknanna geti eignast eigin vélar eftir námskeiðið. Því lýkur ekki fyrr en í desember svo tíminn er nægur.
Þá hefur Nouria einnig sagt mér að það væri afar heppilegt ef við sendum greiðslur fyrir "litlu" stelpurnar okkar um miðjan ágúst. Zontaklúbburinn Sunna mun sjá um greiðslu beint en að öðru leyti fer ágætlega á að við sendum þetta og ég vona sum sé að allir haldi tryggð við sínar stúlkur. En það liggur ekki á að borga 200 dollarana - sem er sama upphæð og í fyrrasumar- fyrr en um miðjan ágúst.

Látum þetta duga í bili. Tæknistjórinn er kominn frá útlöndum og ætlar að gera smábreytingar á nokkrum hluta síðunnar á næstunni. Vonandi fljótlega.

Íran og Óman - VIMA býður það sem aðrir gera ekki - til aukins fróðleiks og upplýsinga

Áríðandi orðsending: Var að fá upphringingu frá ferðaskrifstofunni sem sér um VIMAfélaga í Óman. Vegna þess hve hótelpláss er takmarkað í þvísa landi er óskað eftir að staðfest verði fyrr en ella hverjir vilja slást í þá för. Það er því mikilvægt að menn hafi samband nánast um hæl.
Skal tekið fram að þeir sem hafa staðfest við mig þurfa ekki að endurtaka pöntun. Bið þó Maríu Árnadóttur og Þóru Kristínu að láta mig vita hvort þeirra áhugi er enn fyrir hendi.
Vinsamlegast látið þetta berast.


Í gærkvöldi gerði ég ýmsar breytingar og viðbætur á línkum hér á síðunni; bætti inn á flugfélög, hótel og væntanlegar ferðir.
Sömuleiðis lagfærði ég Jemen/Jórdaníuferðina og uppfærði hana, ásamt með Óman og Íran svo þar ættu að vera nýjustu upplýsingarnar.
Hvet ykkur til að rannsaka það.
Egyptalandsferðin er óbreytt að sinni og fáar fyrirspurnir hafa borist um hana svo ég veit ekki hvort af henni verður enda eru ferðaskrifstofurnar alltaf öðru hverju með ferðir þangað og ekki vil ég fara inn á þeirra verksvið.

Sýrlandsferðinni hef ég ekki breytt að sinni þar sem ég er að íhuga að taka Líbanon aftur inn í og ef til vill breyta ferðinni lítillega því ég veit að ýmsir hafa hug á frekari ferðum þangað en vilja gjarnan smátilbreytingu. Tilkynni það þegar þar að kemur. Þið fylgist með.

VIMA gefur kost á ferðum sem aðrir gera ekki.

Undirtektir við Íran og Ómanferðum sem bættust við hjá VIMAfélögum á þessu ári eru afskaplega jákvæðar enda þessar ferðir einstakar að því leyti að ENGIR aðrir bjóða þær.

Þá á ég ekki hvað síst við Íran og er mjög ánægð með hvað ferðin í mars tókst firnavel. Og ferðin í haust verður áreiðanlega ekki síðri og hefur verið lengd um tvo daga eins og fram hefur komið.
Íran býr að langri og merkilegri sögu og nútíma sem er í margra hugum sveipuð dulúð.
Fáir þekkja nútímaríkið Íran en VIMA menn eru forvitnir og skemmtilegir og vilja fræðast og verða ekki fyrir vonbrigðum. Þar er fegurð í landi og fólki
Það hefur verið margra draumur að sækja Íran heim og tækifæri gefst með því að ganga í Vináttu og menningarfélag Miðausturlanda og skrá sig í þær ferðir.

Auðvitað á þetta líka við um Sýrland, Líbanon og Jemen enda er fólk komið á bragðið og sækir stíft í þessar ferðir.
Sama máli gegnir um hið athyglisverða leyndarmál sem Óman er. Það er dýrari ferð en Óman er langtum dýrari land en önnur sem við sækjum heim á þessu svæði og verðlagningin hlýtur að draga dám af því. Óman er enn einn heimurinn í Arabalöndunum og að sumu leyti meiri lúxus þó svo þar sé ýmist gist í tjöldum á Wahibasöndum eða á dýrðarhótelum.

Ég vil þó benda á að í þessum ferðum er ekki það plat í gangi að gefa upp verð þar sem fátt er innifalið nema flugferð og gisting. Þá á eftir að borga alla skatta, máltíðir, skoðunarferðir og jafnvel aðgangseyri að skoðunarstöðum. Reynt að hafa sem allra mest inni í heildarupphæðinni svo að menn átti sig á því hvað þetta kostar í alvörunni.

Lýsistöflurnar á leiðarenda
Þá er frá því að segja að lýsistöflurnar okkar hafa náð landi í Jemen og krakkarnir geta farið að gæða sér á þeim. Nú mun vera umboðsmaður fyrir þessar vörur sem hefur Saudi Arabíu og Jemen á sinni könnu en þessi varningur er svo ofboðslega dýr, allavega í Jemen að það fólk sem þyrfti helst á honum að halda hefur ekki nokkur efni á að kaupa hann að staðaldri. Þess vegna er gott til þess að vita að þessi skammtur okkar er til taks og væri kannski ekki úr vegi að reyna að senda þetta reglulega.

Hamslaus kæti, saumavélar og flóttamannabúðir

Góða kvöldið
Er einstaklega kát yfir því að tölvan mín hefur tekið til starfa á ný og mun náttúrlega óspart láta til mín heyra eins og venjulega.

Í dag sendum við í VIMA stjórn þær 30 þúsund sem samþykktar voru á aðalfundi til verkefnisins okkar í Sjabra og Sjatilla flóttamannabúðunum við Beirut í Líbanon. Það kemur ugglaust að notum við framkvæmd verkefnisins sem við styrkjum þar.

Eins og þeir "styrktarforeldrar" hafa tekið eftir sem hafa fengið bréf um sínar fullorðnu stúlkur stendur til að YERO færi þeim saumavélar þegar og ef þær ljúka námskeiðinu sínu um næstu áramót. Bað Nouriu Nagi að segja mér hvað verð er á slíkum maskínum í Jemen og finnst tilvalið að Fatimusjóður taki einhvern þátt í því. Með ykkar hjálp náttúrlega, elskurnar allar. Það liggur ekkert lífið á en væri gaman að hjálpa til við það þegar þar að kemur og þetta verður stúlkunum örugglega hvatning til dáða.

Vegna smámisskilnings vil ég endurtaka enn og aftur að þegar menn borga inn á ferðir skulu þeir leggja inn á ferðareikninginn 1151-15-550908.

Svo bið ég Íransfara í september að setja sig senn í stellingar varðandi passamyndir, tvær.
Allir leggi fram nýjar myndir. Munið að konur skulu bera slæður á myndunum, það má ekki klikka. Læt vita upp úr 20. júní hvenær við hittumst svo til að fylla út umsóknir því ég þarf að senda vegabréf og umsóknir út ekki síðar en um næstu mánaðamót.

Að gefnu tilefni skal líka tekið fram að nú bæti ég ekki við í þá ferð því eftir að ég hafði greint frá því að mögulegt væri að bæta einni konu við gaf sig fram áhugasöm dama.

Aftur á móti ættu Íransfarar sem hugsa sér til hreyfings í mars að gefa frá sér kvak. Það á einnig við um Ómanferðina í febrúar.
Sé ekki betur en páskaferðin til Jemens/Jórdaníu sé langt komin að fyllast ef þeir sem hafa skráð sig ákveða að fara en um að gera að liggja ekki á áhuga sínum. Ekki skyldi svo gleymt Sýrlandsferðinni í september 2007.
Eins og ég hef margsinnis sagt er góður fyrirvari í allar ferðir bráðnauðsynlegur.

Kvikmynd um Sýrlands/Jórdaníuferð - orðsending v/ Kákasuslanda

Góðan daginn
Tölvan mín skilar sér vonandi í dag og ég mun hefja snöfurleg skrif. Vildi aðeins geta um að Sýrlands/Jórdaníufarar í apríl hittust í gærkvöldi á Litlu Brekku og áttu ljúfa og skemmtilega stund. Borðuðum saman og horfðum á hálftíma mynd sem hinn snjalli Högni Eyjólfsson hafði gert um ferðina okkar og fékk hún mikið lof viðstaddra og á Högni heiður skilinn fyrir þetta framtak.

Einnig voru sýnar fleiri fínar myndir, m.a eftir Veru Illugadóttur og Svein Haraldsson og nokkrir komu með myndir á pappír og mæltist þetta prýðilega fyrir og var til fyrirmyndar í alla staði.

Efa ekki að þessi hópur verður duglegur að hittast og ekki síður mæta á fundi hjá VIMA og taka þátt í félagsstarfi.

Til áhugasamra um Kákasuslandaferðina

Verð að láta það koma fram að ferðin til Armenínu, Georgíu og Azerbadjan tefst. Hún verður ekki á dagskrá í maí 2007.
Of mikil vinna er óunnin til að ég telji vitlegt að fara hana að sinni.
Þó eru nú loks að koma tilboð en á eftir að athuga þau og fara í rannsóknarleiðangur til að búa til endanlega áætlun svo ég mundi slá á að hún biði altjent hálft ár og trúlega lengur.

Það ætti varla að skaða að ráði, nóg af ferðum í boði 2007. Ég þarf að biðja fólk að gera upp hug sinn á næstu vikum.
VIMA stefnir að fundi um ferðirnar eigi síðar en um miðjan ágúst og þá þurfa upplýsingar frá ykkur mörgum að liggja fyrir. Greiðslur inn á þær hefjast líka 1.september n.k.

BIÐ YKKUR LENGSTRA ORÐA AÐ GERA VIÐVART. Er komin með drjúgan lista ákveðinna og þeir þurfa ekki að ítreka það. Verið svo væn að láta upplýsingar um ferðir ganga því þetta er eina leiðin til að koma á framfæri upplýsingum um reisurnar. Guðlaug Pé gjaldkeri er að útvega nýja kennitölu og reikningsnúmer á ferðalögin en þær upplýsingar mun ég senda vel og rækilega til allra þegar þar að kemur.

Tölva í bileríi - mun þegja um helgina

Vildi ekki senda ykkur í fullkominni óvissu inn í Hvítasunnuhelgina, pistillaus og allslaus. Ástæðan fyrir þögn er að tölvan mín fór í meðferð í morgun og losnar ekki út fyrr en eftir helgina.

Svo ég er í galókunnri tölvu í augnablikinu og get ekki sent á línuna.

Ætla að fagna því að fólk er þegar farið að greiða fyrir Jemenstúlkurnar sínar og allir hafa fengið sínar umsagnir um þær það best ég veit. Mun senda tilkynningu þegar kemur fram í júní varðandi málið því mér skilst að allir þurfi að hafa greitt fyrir 15.júlí. Vona auðvitað að fleiri glaðir styrktarmenn bætist við.

Þeir sem vilja greiða svo áfram mánaðarlega og allt í sóma með það.

Minni Sýrlands/Jórdaníufara á myndakvöldið.

Einnig eiga tveir Íransfarar eftir að greiða og þar sem ég þurfti að senda út nú um mánaðamót er aðkallandi að ganga frá því.

Svo bendi ég ykkur auðvitað á lesningu í sumarfríinu. Sjá undir linknum Bækur tvær. Á enn slatta af Perlum og steinum og ástinni á rauða ljósinu. Ágóðinn fer í Fatimusjóðinn.

Seinna í dag hittist ný VIMA stjórn til skrafs og ráðagerða og þá ætlar Gulla gjaldkeri m.a. að vera búin að leggja inn 60 þús. krónurnar sem var ákveðið á aðalfundi að við létum af hendi rakna til verkefnisins í Sjabra Sjatilla í Líbanon og til YERO.

Vona að allir hafi það notalegt um hvítasunnuna.