Kvaddur góður félagi

Pétur Guðmundsson, elskulegur ferða- og VIMAfélagi er kvaddur í dag í Háteigskirkju en verður jarðsettur í Strandakirkju í Selvogi á morgun.

Pétur var ljúfur maður sem var gott að kynnast og vera með á ferðalögum. Forvitinn, fróður og glettinn. Drengskaparmaður. Þannig kom hann mér fyrir sjónir og þannig minnast þeir hans áreiðanlega sem kynntust honum meira en ég.

Mér þykir ákaflega vænt um að hann og Sveinn, ásamt með Guðmundi föður Péturs voru í fyrstu Íransferðinni í mars s.l. Þeir Sveinn höfðu ákveðið að koma í Sýrlandsferð fyrir tveimur árum en vegna veikinda varð hann að fresta því. Þá ferð fóru þeir svo með mér í apríl s.l. Ég held þeir hafi verið glaðir yfir því og nú við leiðarlok er ég það líka.

Ég er sannfærð um að ferðafélagar Péturs og Sveins og aðrir VIMAfélagar sem kynntust honum taka undir samúðarkveðjur til mannsins hans, foreldra og systkina. Og til allra þeirra mörgu sem þótti vænt um hann.