Nýtt og ferðaglatt ár handan morgundagsins

Blessuð öll

Mér finnst brýnt að minna greiðendur inn á ferðir á eftirfarandi: látið kennitölu ykkar fylgja þegar þið borgið inn á ferðir.

Í gærkvöldi uppgötvaði ég að einhver Sýrlandsfari hafði greitt vel og samviskusamlega en vantaði kennitölu og þar með hef ég ekki græna glóru um hver þessi skilvísi greiðandi er. Mun gera gangskör að því að upplýsa málið en þetta er óþarfa vesen. Aðeins síðar: þetta er komið á hreint hér með og viðkomandi hafa fengið greiðslur sínar færðar réttilega til bókar.
Annars er ekkert vit að kvarta því ferðalangar láta greiðslur nú streyma inn á reikninginn 1151 15 550908 og þriðjungur Ómanfara hefur gert upp ferðina og mætti segja mér að einhverjir bættust við í dag. Það er þakksamlega þegið því ég hef þegar greitt ferðina að fullu til allra samstarfsmanna okkar.

Nokkrir Íransfarar í september hafa ekki bara tilkynnt sig heldur hafa innt af hendi staðfestingjargjaldið svo þetta er allt á fjúkandi siglingu.

Það er óhætt að fullyrða að ferðir ársins 2006 eru velskipaðar og alskipaðar
Febr. Óman - 26
mars Íran 20
apríl Sýrland/Jórdanía 32
maí Jemen/Jórdanía 16 (get bætt við fjórum en ekki öllu fleirum)
september Íran 27 ( hafa staðfest)

Einnig er enn í deiglunni 6 daga Stuðmannaferð til Sýrlands í júní. Þar er allt klappað og klárt af hálfu Sýrlendinga og eru öll leyfi fengin til tónleikahalds og formsatriði frágengin, hótel tilbúin að taka á móti íslenskum en flugferðin héðan er ekki komin á tært. Mun ekki liggja á þeim upplýsingum þegar þær skila sér í hús.

Óhætt að segja að ferðir ársins sem nú kveður, 2005, hefur verið hið ágætasta og full ástæða til að hlakka til þess nýja.

Ekki síst er ég himinlifandi yfir þátttöku VIMA félaga og annarra góðra manna í Fatimusjóðnum. Nouria Nagi sendir mér á næstunni fimmtán nöfn yfir stúlkur sem hefja senn lestrarnámið, þ.e. ólæsasr stúlkur 15-20 ára.

Bið fleiri að gefa sig fram þeim til styrktar. Vert að geta þess að ég hef þegar sent til YERO 300 dollara sem er gjöf frá styrktarfólkinu stúlknanna. Því miður voru ekki allir styrktarmenn með en Nouria kveðst vera himinlifandi og mun ráðstafa þessum peningum með gjöfum til stúlknanna.

Þá hefur Fatimusjóður sömuleiðis sent 1500 dollara til að greiða sex mánaða laun jemenskrar kennslukonu sem mun sjá um fullorðinsfræðsluna.

Síðast en ekki síst vonast ég til að við getum sent tvisvar á ári í kvennaverkefnið í flóttamannabúðunum Sjabra og Sjatilla. Veit að ýmsir hafa vilja til að greiða smávegis í það verkefni.

Ítreka að menn tilkynni sig á árshátíðina 25.febrúar. Svo verðum við í sambandi fljótlega eftir áramótin varðandi fundi, fréttabréf og fleira gúmmulaði.

Sendi ykkur öllum fagnandi nýársóskir og þakka skemmtilegar samverustundir á því ári sem er að hverfa í minningarpokann

Hugmynd um getraun - blíðleg bréf hafa verið send

Ja, rigningin og myrkrið úti fyrir. Maður lifandi!
Vænti þess að ykkur hafi liðið undur þekkilega um jóladagana, allir hafi etið nægju sína, fengið góðar gjafir og fallegar hugsanir.

Sendi í gær imeil til allra í ferðunum okkar 2006 og bað auk þess hjálplega félaga að hafa samband við þá sem eru ekki með netfang. Þetta var til að minna á janúargreiðslu og einnig biðja Íransfara í septemberferð til að staðfesta einbeittan vilja sinn til að taka þátt í þeirri ferð sem mikil ásókn er í og gott er nú það.
Vona að allir bregði vel og snöfurlega við.

Var að senda lokagreiðsluna til ferðaskrifstofunnar í Óman svo nú erum við skuldlaus þar á bæ.

Eins og samþykkt var á síðasta almenna fundi VIMA kemur fyrsta fréttabréfið okkar út fyrstu vikuna í janúar og verður sent til allra skráðra félaga.
Þó ekki sé rétt að upplýsa nákvæmlega um efni þess skal hér með greint frá því að ákveðið hefur verið að hafa í því smágetraun um þau lönd sem við höfum flandrað um. Verðlaun verða ferð fyrir einn ( ráðum ekki við meira í bili) til eins/tveggja þessara landa. Er í bígerð að hafa svona getraun í þeim tveimur blöðum sem við gefum út á ári.
Ég vonast eindregið eftir góðri þátttöku og hvet alla til að taka þátt í gamni þessu. Í leiðinni er rétt að það komi skýrt fram að öllum er heimil þátttaka og ekki bundið við félaga í VIMA.
Þetta finnst mér brilljant hugmynd eins og orðasmiðurinn góði, Vala Matt mundi komast að orði.

Ekki sakar að minna á að bráðum dregur að því að menn fari að hugsa um almennan fund í Kornhlöðunni 14.janúar kl. 14. Og gleymið ekki að tilkynna ykkur á árshátíð í febrúar. Allt þarf sinn tíma.

Skötudagurinn runninn upp - og svo koma jólin

Þá hef ég trítlað um Grandaveg, Meistaravelli og Víðimelsbotnlangann og dreift Morgunblaðinu í Þorláksmessublíðunni. Hitti ekki nokkurn mann enda snemma á ferli.
Mikið væri gaman ef jólaveðrið héldist eins og það var í morgun.

Hef fengið lista yfir hótel Ómanhópsins og þau fylgja með í umslaginu þegar Ómanhópurinn hittist hjá Söru Sigurðardóttur sem hefur boðið fram húsnæði sitt fyrir janúarfundinn. Nánar um það síðar.

Ég sendi pottþétt út glaðlegan póst rétt fyrir áramótin til að minna á janúargreiðsluna og veit líka að marga þarf ekki að minna á. Nú hafa til dæmis nokkrir Ómanfarar þegar innt hana af hendi. Á hinn bóginn þurfa fjórir að borga eins manns herbergis gjaldið og áttu raunar að gera það um síðustu mánaðamót. Ekki draga það.

Íranliðið í mars og Sýrlands/Jórdaníuhópurinn í apríl drífa sig vonandi að borga sitt um mánaðamótin og mér þykir afleitt að þurfa að ítreka einn ganginn enn að ekki hafa allir Sýrlandsfarar enn greitt desembergreiðslu án þess að láta frá sér heyra. Þar eru þó ekki margar sálir á ferð.

Það er mjög bagalegt að Íranfarar hafa ekki allir lokið greiðslu fyrir vegabréfsáritunina. Þrír eiga það ógert.

Auðvitað veit ég að jólamánuðurinn er mörgum dýr og allt það en þessar greiðslur hafa legið ljósar fyrir frá því menn skráðu sig í ferðirnar og verða því að láta mig vita ef eitthvað klikkar.

Þá er Jemen/Jórdaníuhópurinn í maí að komast á skrið og verður haft samband við hann innan tíðar.
Eins kvölds námskeið um Jemen/Jórdaníu verður hjá Mími símenntun 19.janúar n.k.

Sé ekki betur en Íransferðin í september sé fullskipuð eins og ég hef raunar minnst á.
Sá hópur skal greiða staðfestingjargjald sitt 20 þúsund kr. 1-5 janúar n.k. á reikninginn 1151 15 550908 kt. 1402403979. Þeir sem forfallast af einhverjum ástæðum fá staðfestingjargjaldið endurgreitt til 1.maí.
Gjörið svo vel að muna eftir þessu.
Tveggja kvölda námskeið um Íran verður hjá Mími í mars - eftir fyrri ferðina.

Og svo er sniðugt að segja frá því að ýmsir hafa vaðið fyrir neðan sig og eru byrjaðir að skrá sig í ferðirnar 2007. Það á nú vel við svona skipulagða listaveru eins og mig.

Að þessu jólalega þusi loknu þetta:

Í gærkvöldi fékk ég skemmtilega heimsókn Bjarkar Þorgrímsdóttur, stúlkunnar sem vann í Armenínu í níu mánuði og er nýkomin heim. Það var gaman að hitta hana aftur. Stúlka sem plumar sig og hefur staðið sig eins og hetja í útiverunni þó svo hún veiktist úti og stríddi við lasleika í tvo mánuði, gafst hún ekki upp og hélt sínu striki. Gott hjá henni.

Til Sýrlands/Líbanonhóps haustið 2004: Jólakveðja til ykkar frá Guðbergi Jónssyni í Danmörku sem þætti gaman að heyra í ykkur.

Hef fengið fullt af skemmtilegum myndum úr ferðum ársins frá VIMA félögum með jólakortunum. Bestu þakkir fyrir þær allar svo og aðrar kveðjur.

Af einkahögum:
Salan hjá Elísabetu gengur eins og í sögu. Hún stendur aðallega vaktina í Melabúðinni og í Nóatúni við Hringbraut.

Bróðir minn, fornbóksalinn Bragi Kristjónsson, fæst við fleira en sölu á bókum. Hann hefur boðað komu sína hingað á Drafnarstíg með heimatilbúið rauðkál sem hann er mikill snillingur að gera.

Undir hádegið býst ég til að fara í klippingu og annað hársnurfs og mun svo snúa mér að forréttagerðinni sem ég legg á borð með mér hjá Illuga og fjölskyldu á aðfangadagskvöld.
Skötudagurinn mikli er runninn upp og ég skunda í Kópavoginn í kvöld og ríf hana í mig af fögnuði.

Síðast en ekki síst er þetta afar sentimentall dagur og ég lyfti glasi fyrir því í kvöld að Þorláksmessa er trúlofunardagurinn minn. Þá var maður sextán ára. Og lét ekki einu sinni foreldrana vita hvað til stæði. Þetta þætti mér ekki góð latína nú.

Og svo koma jólin. Gleðilega hátíð.

Jólin koma og ég strauja og geri lista

Það mætti halda að annríkið fyrir jólahátíðina hafi verið mikið því ég hef ekki skrifað stakt orð í eina fimm daga og er það ekki til eftirbreytni.

Svör við árshátíðarskráningu hafa nokkur borist og þegar menn hafa notið jólasteikanna og sörukakanna mun straumurinn vonandi aukast enn. Við verðum að hafa ákveðinn fjölda til að af verði og menn mættu gjarnan taka sér tíma frá jólaundirbúningi og senda línu þar um.

Vil þakka septemberförum til Írans hvað þeir hafa svarað greiðlega, sú ferð er því sem sagt setin og ekki hægt að kvarta undan aðsókn í ferðir okkar hugþekku félaga á komandi ári.

Ég vil eindregið benda marsferðalöngum til Írans að ljúka við að greiða fyrir vegabréfsáritun og það sem fyrst.
Mér til hinnar mestu armæðu hafa ekki allir Sýrlands/Jórdaníufarar borgað desembergreiðsluna og það er satt að segja ekki nógu gott. Allt mitt fólk á að vita að við verðum að leggja mikið upp úr því að menn standi í skilum. Ef einhver vandræði eru ættu menn að minnsta kosti að láta mig vita.
Ítrekað skal hér vegna viðbótarfyrirspurna að ég bæti alls ekki fleirum í þá ferð.

Ómanfarar hittast í janúar og horfa á tvö myndbönd sem mér voru send og munu í leiðinni fá sín ferðagögn. Nokkrir þar þurfa að vippa sér í að ganga frá greiðslu vegna eins manns herbergja.
Strax um áramót verða svo Jemen/Jórdaníufarar að hefja greiðslu í maíferðina og þar get ég bætt við fjórum til sex.

All nokkrir Ómanfarar hyggja líka á september í Íran og skulu greiða staðfestingargjaldið þann 1.-5 jan. Það er 20 þúsund og greiðist á ferðareikninginn 1151 15 550 908 og kt. 1402403979. Ef einhverjir þurfa frest hafi þeir samband. Ef fólk forfallast í þá ferð mun staðfestingargreiðslan verða endurgreidd til 1.maí.

Minni líka alla ferðafélaga á að standa í skilum með félagsgjaldið. Þið sjáið það hér á síðunni undir hentug reikningsnúmer.

En hvað er annars leiðinlegt svona rétt fyrir jólin að skrifa bara um peninga.
Mér til óblandinnar ánægju er ég nú að undirbúa árið 2007 og get glatt áhugasama að ég nú ekki tali um mína traustu áskrifendur að ein ný ferð - auk þeirra sem fyrir eru- verður á boðstólum. Það leyndarmál verður upplýst í fréttabréfi VIMA sem ritnefnd vinnur nú að og ætlunin er að koma því út um helgina 7-9 jan. Fylgist með því.

Að öðru leyti, gardínur hafa verið þvegnar og seríur settar upp og ég er meira að segja búin að bóna eldhúsgólfið svo það skín eins og spegill. Held ég láti þetta duga og snúi mér nú að jólagjöfum handa niðjatalinu.

Minni létt í leiðinni á bók Elísabetar Jökuldsdóttur, Síðan þessi kona varð trúuð hefur hún verið til vandræða í þessu húsi. Elísabet er eins og menn vita kraftmikil sölukona en einnig má hafa samband við hana á Ellastina@hotmail.com. Góðar undirtekir við bók Kristjóns- elsta ömmudrengsins Frægasti maður í heimi - er mér einnig hið mesta ánægjuefni. Hafið þær í huga fyrir ykkar jólaböggla.

Gjörið svo vel og látið síðuna ganga til skemmtilegra kunningja. Skyldum við ná 20 þúsund gestum fyrir jól? Það er undir ykkur komið.
Að svo mæltu gott í bili og nú fer ég og gæði mér á indælis smákökum, heimabökuðum af Jóa Fel. Get mælt með þeim.
Einnig hef ég þau stóráform á prjónunum að strauja nokkra heimasaumaða jóladúka - gerðir af móður minni sálugu Elísabetu Ísleifsdóttur, þeirri gagnmerku hannyrðakonu.
Svo þið sjáið að annríkið er mikið hér á Drafnarstíg. Myndarskapur minn ríður ekki við einteyming.

Látið nú frá ykkur heyra, elskurnar allar

ALLIR Á ÁRSHÁTÍÐ - tilkynnið þátttöku

Skemmtinefndin hefur unnið ötullega síðustu viku og hefur nú ákveðið dagsetningu fyrir hina fyrstu árshátíð VIMA. Hún verður þann 25.febr. og meiningin er að magadansflokkur félagsins ( aðeins ýkjur og þó ) sýni þar listir sínar. Félagið á kássu af hæfileikafólki innan vébanda sinna svo ekki verða vandræði með önnur skemmtiatriði.

Byrjað á 3ja rétta máltíð og síðan má slá upp hoppi og híi. Áætlað verð um 4.500-5000 kr. á mann. Það er ekki endanlegt.

Skemmtinefndin hefur beðið mig að biðja ykkur að tilkynna þátttöku því það verður að festa húsið þar sem þetta er á annatíma árshátíða og mannfagnaða.


Þið getið tilkynnt ykkur til mín, kannski er það einfaldast.
Það hefur sýnt sig að VIMA-fólk vill gjarnan hittast og því er ég sannfærð um að menn hljóta að fjölmenna. Bendi á að þeir sem hyggjast fara í ferðir á árinu 2006 eru ekki síður velkomnir gestir.
Hafið því samband og það snarlega

Jemenfarar hittast í byrjun janúar- af málum stúlknanna og áfram smákökur

Góðan daginn og til hamingju, afmælisbörn

Vegna fyrirspurna er best að taka fram að úr þessu er varla tími til að halda fund með væntanlegum Jemen/Jórdaníuförum fyrr en í janúar. Tilkynni nánar um það síðar en hafið það í huga.

Það er líka rétt að benda á að sú ferð hækkar ekki frekar en aðrar, amk er útlit fyrir að við getum haldið þessu á því verði sem kynnt er.

Hef fengið svör frá flestöllum sem ég sendi fyrirspurn um þátttöku í Íran í september 2006. Sú ferð er því orðin full en má ugglaust taka nokkra á biðlista.
Tveir eða þrír hafa ekki látið í sér heyra. Það er bagalegt.

Hef látið Nouriu Nagi hjá YERO í Sanaa fá nöfn þeirra sem hafa bæst við og ætla að styrkja ólæsar, jemenskar stúlkur 15-20 ára í fullorðinsfræðslu og hefst það eftir áramót. Upphæðin er hin sama þ.e. 200 dollarar fyrir tvö fjögurra mánaða námskeið.

Ég hef í hyggju að láta sjóðinn greiða sem svarar einum árslaunum jemenskrar kennslukonu sem YERO hefur augastað á til að aðstoða börnin við heimanámið. Til þess er brýn ástæða.

Í Jemen er algengt að 50 börn séu í hverjum bekk og getur farið upp í 70. Vel væri velþegið að fá aðstoð ykkar við það. Reikningsnúmerið er hér til hliðar en ítreka það hér 1151 15 551130 og kt. 1402403979.
Verið svo góð að senda mér póst um hvort þið viljið taka þátt í að styrkja í fullorðinsfræðslu eða taka þátt í að greiða til kennara. Við getum ekki bætt við fleiri ársstúlkum fyrr en með vorinu.

Nokkur brögð hafa verið að því að menn leggi ekki inn á réttan reikning. Þetta er allt hér á síðunni undir linknum
Hentug reikningsnúmer og ætti ekki að vefjast fyrir mönnum.

Mér skilst að okkar ágæta ritnefnd hafi komið saman í gær og bið fólk að senda til mín eða Guðlaugar gudlaug.petursdottir@or.is breytingar á heimilisföngum svo við getum komið fréttabréfi skilvíslega til sem flestra þegar þar að kemur.


Væri nú rétt að ljúka við fjórtándu smákökutegundina.

Mannfræðikönnun um stjörnumerki

Samkvæmt nýjustu rannsókn minni sem er afskaplega óvísindaleg en vandlega unnin eru krabbar nú með vinninginn í ferðum VIMA. Þeir hafa umtalsverða forystu. Þrjú merki eru mest áberandi auk þeirra: hrútar, tvíburar og fiskarnir og er það óbreytt. Þessi fjögur merki eru langferðaglöðust.

Fjórum sinnum fleiri krabbar fóru í VIMA ferðir en meyjar. Mættu jómfrýr því hugsa sinn gang eftir þessu að dæma.!
Ég reikna inn allar ferðir sem við höfum þeyst í, svo og næstu þrjár ferðir 2006, þe. Óman, Íran, Sýrland/Jórdaníu.

Listinn lítur nú svona út

1. krabbar (voru í 2.-3 sæti)
2. hrútar (áður nr.2-3)
3. tvíburar- en þeir voru efstir á þessum lista í síðustu könnun sem var í aprílbyrjun
4. fiskar (óbreytt frá því í apríl)
5. bogmenn(voru í 5.-6 sæti)
6. naut( hafa færst upp um eitt sæti)
7.-8. ljón og steingeitur - steingeitin hefur hækkað en ljónið hefur dottið úr 5.-6 sæti
9. vatnsberar - hafa hækkað um eitt sæti
10. Vogir - fallið úr 8-9 sæti
11. Sporðdreki (upp um eitt sæti)
12. Jómfrúr ( niður um eitt sæti)

Til þess að gefa ykkur hugmynd um aðferðafræði mína skal tekið fram að þeir VIMA félagar sem hafa farið í fleiri en eina ferð eru aðeins taldir einu sinni.

Sýrlandsferð er fullskipuð - skráið ykkur snarlega í Jemen

Dagsetningar á Jemen/Jórdaníuferð í vor eru nokkurn veginn öruggar, 7.-25.maí. Verið svo góð að skrá ykkur fljótlega. Greiðslur í þá ferð skulu hefjast 1.janúar n.k.

Ég verð harla mikið í burtu frá og með síðari hluta janúar og því nauðsynlegt að heyra frá áhugasömum fljótlega. Fyrri Jemenfarar hafa vonandi ötulan áróður í frammi því ekki auglýsi ég nema hér á síðunni eins og menn vita.

Og: Sýrlands/Jórdaníuferð um páskana er fullskipuð en get skrifað fólk á biðlista ef svo ólíklega færi að einhver forfallaðist.

Námskeiðin í vetur

Vil vekja athygli á að ég verð með arabískunámskeið 1. og 2 í janúar n.k hjá Mími símenntun. Þá verður tveggja kvölda námskeið um Íran í febrúar og eins kvöld námskeið um Sýrland/Jórdaníu í apríl. Menningarheimsnámskeið hef ég ekki tök á að halda á vorönn.

Fundur með marshópi til Írans - og "foreldrar"jemensku stúlknanna fengu plögg um þær

Við vorum fundaglöð í dag, laugardag og efndum til tveggja góðra funda.

Sá fyrri var með hópnum sem heldur til Írans í mars. Meginviðfangsefnið var að fylla út umsóknir um vegabréfsáritunina sem er töluvert maus og var ágætt að gera það í sameiningu.
Allir komu með tilskildar myndir og svo var rennt lauslega yfir áætlunina, dreift pésum um hótel og rætt um fatnaðarmál og ég kom með þrjár mussur sem ég keypti í Íran í september sl. til að sýna kvenfólkinu.

Auk þess mauluðu menn sýrlenskar kökur og ómanskar döðlur og drukku kaffi eða te. Nokkrir greiddu desembergreiðslu og fimm borguðu einnig fyrir áritun. Þá upphæð má einnig leggja beint inn í íslenskum krónum á ferðareikninginn 1151 15 550908, kt. 1402403979.
Það var prýðisgóð stemning og tvö lítil barnabörn félaga voru til ánægju og sóma.

Mér heyrist allir vera fullir tilhlökkunar en segja má að það hafi verið fyrir ábendingu frá Þuríði Árnadóttur - sem er meðal ferðafélaga- að ég fór að garfa í hvort unnt væri að VIMA menn kæmust í ferð til Írans.
Ekki má gleyma að allnokkrir greiddu félagsgjöld í VIMA á fundinum.

Önnur Íransferð er svo í haust og virðist fullskipuð.

Stoltir "foreldrar" jemensku stúlknanna

Þegar Íransfarar hurfu á braut kom meirihluti þeirra sem styrkir ákveðna stúlku/stúlkur til náms í Jemen. Ég hafði áður sent þeim sem tilkynntu forföll þau plögg sem YERO konur afhentu mér í Sanaa, þe. mynd og upplýsingar um hverja stúlku.

Sagt frá heimsókninni til YERO á dögunum, eins og minnst hefur verið á hér á síðunni og allir styrktarmenn virtust glaðir að frétta af sínum stúlkum. Því miður vantaði nokkra á fundinn en ég pósta til þeirra á næstu dögum þessi plögg.

Guðlaug Pétursdóttir, gjaldkeri VIMA og styrktarmaður tveggja stúlkna bar á borð hinar herlegustu hnallþórur og var setið að te og kaffidrykkju og skrafi góða stund.

Sú hugmynd kom upp að senda stúlkunum smágjafir en Ólöf Sylvia stakk upp á við skytum saman í upphæð og kæmum henni til Nouriu Nagi, forsvarskonu YERO sem mundi vita hvað stúlkunum kæmi vel.

Þetta fékk góðan hljómgrunn og var ákveðið að hver styrktarmaður sem svo kýs borgaði 1000 kr. - þúsund krónur - inn á Fatimusjóðinn 1151 15 551130 kt.1402403979 og ég mun svo koma því áleiðis þegar ég sé hverjir vilja vera með í þessu.
Rétt að taka fram að á Íransfundinum hafði ég látið nokkra félaga sem taka þátt í þessu góða verkefni, fá sínar möppur.

Sem sagt fínn dagur með öðlingsfélögum. Takk kærlega.