Listi yfir stúlkurnar okkar í Jemen

Það er haustblíðan í dag. Trúlega aðeins volgara í Íran og ágætt að kynna sér hvernig hitastig er þar á þessum árstíma vegna hópanna tveggja að ári.

Hér á eftir er listi yfir 27 - segi og skrifa 27- jemenskar stúlkur sem munu njóta stuðnings íslenskra í vetur og væntanlega lengur.

1. Sara Mohammed Saleh Hussein 8 ára og er í fjórða bekk - Erla V Adolfsdóttir
2 Uesra Mohammed Saleh Hussein 7 ára og er í öðrum bekk - Dóra Þórhallsd/Magnús B. Einarsson
3. Hyefa Salmane Hassan 9 ára, í 4. bekk - Ingunn Mai Friðleifsd
4. Anise Nagi Ali 11 ára og í 5.bekk- Valgerður Kristjónsdóttir
5. Gedah Mohammed Ali, 13 ára í 7. bekk -Þóra Jónasdóttir
6. Safa Nagi Ali Yusef 13 ára í 5.bekk - Sigríður Halldórsdóttir
7. Takeyah Ahamed Almatree, 7 ára og er í 1.bekk - Dominique Pledel Jónsson
8. Fatten Bo Belah, 13 ára og í 3.bekk - Guðrún Halla Guðmundsdóttir
9. Leebia Mohammed Alhamery, 12 ára og er í 5.bekk - Guðlaug Pétursdóttir
10.Afrah Yehyeh Alhagory 12 ára og er í 3.bekk - Guðlaug Pétursdóttir
11. Suzan Alhamley 12 ára og er í 7.bekk - Fatimusjóður
12. Amal Kandach 7 ára og er í 3.bekk- Margrét Guðmundsdóttir
13. Zaynab Kandach, 8 ára og er í 3.bekk - Fatimusjóður
14. Nassim Aljoneed, 10 ára og er í 4 bekk - Jóhanna Kristjónsdóttir
15. Shemah Alijoneed, 8 ára og er í 3 bekk - Fatimusjóður
16. Yesmin Jamil Alsalwee, 12 ára og í 5. bekk - Guðrún Margrét Guðmundsdóttir
17. Hind Bo Belah, 8 ára og er í 2.bekk - Guðrún Ólafsdóttir
18. Hayat Almatree, 10 ára og í 5 bekk - Inga Hersteinsdóttir
19. Hanak Almatree, 17 ára og í 2. bekk í framhaldsskóla - Ragnheiður Gyða og Oddrún Jónsdætur og Guðrún Valgerður Þórarinsd.
20. Hanan Almatree, 12 ára og í 6. bekk - Jóna Einarsdóttir
21. Sara Mohammed Al Rymee, 9 ara og er i 4.bekk - Sigríður G. Einarsdóttir
22. Rasha Abdo Hizam, 9 ara og er i 5.bekk - Hulda Waddel og Örn Valsson
23. Khload Mohammed Ali, 8 ara og er i 2.bekk - Stella Stefánsdóttir
24. Bosara Ali Ahmed, 8 ara og er i 3.bekk - Margrét Pálsdóttir
25. Tahanee Abdallah Husseen, 7 ara og er i 1.bekk - Zontaklúbburinn Sunna
26. Saadah Abdallah Ali, 8 ara og er i 1.bekk - Zontaklúbburinn Sunna
27 Dekra Hatem Mhdee, 11 ara og er i 6.bekk - Fatímusjóður

Þetta er mér eins og ævintýri hve vel hefur gengið. Ef einhverjir vilja bætast við enn þá geta þeir gengið inn dæmið í sem styrktarforeldrar þeirra stúlkna sem nú fá beint úr Fatímusjóði og sjóðurinn mun þá nota meiri peninga til að styðja við tvær eða þrjár sem eru komnar í framhaldsskóla og helst eina í háskólanám.
Hér með er öllum óskað til hamingju og þakkað virktavel. Ég hef sent greiðslu fyrir allar stúlkurnar og þær njóta nú öryggis og skólavistar í ár. Það er gleðiefni í meira lagi.
Eg vaenti thess ad menn athugi ad thessar stulkur hefdu ekki komist i skola ef ekki hefdi hjalpsemi islenskra komid til. Tha geta thaer sem voru byrjadar haldid afram og thaer sem eru ad fara i 1.bekk voru a bidlista.

Nú er ég svo í stússi og veseni að hnýta síðustu hnúta fyrir ferðina mína til Írans og Armeníu í fyrramálið. Auðvelt er að komast á netkaffi í Íran og að öllum líkindum í Armeníu líka svo ég vonast til að skrifa inn á síðuna reglulega.
Ég mun ekki hafa nein tök á að láta vita af því eins og ég geri nú svo þið verðið að fara inn á síðuna sem oftast og kanna hvort þar kynnu nokkur vel valin orð að hafa hrotið úr minni tölvu. Svo má gjarnan skrifa skilaboð hér fyrir neðan/nú senda imeil á venjulegan hátt.
Sæl að sinni.

Sumar á Sýrlandi? - Send greiðsla til Jemen

Fékk fregnir af því í dag að sýrlensku ráðuneytin sem hlut eiga að máli hafa veitt leyfi til Stuðmanna en þeir báðu mig um að sjá um og skipuleggja hljómleikaferð til Sýrlands næsta vor.
Nú er það sem sagt klappað og klárt og eftir að Stuðmenn hafa lokið Feneyjarferð sem stendur fyrir dyrum, snúa þeir sér vísast að því að kynna ferðina. Ætlunin er að þetta verði vikureisa og ég er búin að draga upp plan og senda út til að fá áætlaðan kostnað. Meiningin er að Stuðmenn haldi tvo hljómleika í Damaskus, annan við Al Azem höllina í gömlu borg og hinn í Óperuhúsinu við Omijadtorg.

Það verður nógu fróðlegt að vita hvernig undirektir þessi Stuðmannaferð fær hjá aðdáendum þeirra. Má búast við að hún verði í dýrari kantinum en það mun væntanlega skýrast á næstu vikum og mánuðum enda ferðin ekki fyrirhuguð fyrr en í byrjun júní.

Í morgun sendi ég greiðslu til YERO fyrir fimm stúlkur sem hafa fengið sína fóstuforeldra sem vilja styrkja þær í skóla. Þar með eru 20 stúlkur að hefja skólagöngu í Jemen sem ella hefðu ekki haft tækifæri.
Einnig er verið að leggja drög að því að veita tveimur stúlkum styrk til háskólanáms og síðan er unnið að því að koma stúlkunni Fatimu í Þúla sem er í rauninni upphafsmanneskja alls þessa - þ.e. að þessi hugmynd kviknaði- í framhaldsskóla. Þetta eins og annað stuð mun hafa sinn gang.

Enn vantar fjóra stuðningsforeldra, athugið að hér er um að tefla fjárhæðina 14 þúsund krónur. Eftir þær snöfurlegu undirtektir sem hafa verið við þessu, þykist ég vita að þið bregðið við og sendið mér nöfn. Hafið bak við eyrað að greiðslunni má skipta í þrennt eða jafnvel borga mánaðarlega rétt rúmar þúsund krónur. Látið frá ykkur heyra fyrir miðvikudagskvöld, allra blíðlegast.

Í dag fékk ég sent vegabréfið mitt, stimplað og fínt með íranskri áritun, frá Noregi. Því helst mín áætlun og er hið mesta tilhlökkunarefni. Fer á fimmtudagsmorgun árla nokkuð. Verð rífar 3 vikur í Íran og fer allvíða um landið. Síðan ætla ég að reka inn nefið í Armeníu og vera þar í viku.
Býst við að senda pistla heim og vona að menn verði ötulir að kíkja í heimsókn á síðuna á meðan. Set vísast inn á síðuna svona einu sinni áður en ég flýg til Írans, einkum og sér í lagi ef foreldrarnir finnast fyrir jemensku stúlkurnar fjórar.

'OMANFARAR komu saman á fund - Jemenstúlkur orðnar tuttugu



Ef mér tekst ekki að klúðra þessu á að birtast mynd af flestum þeirra sem ætla í VIMA-ferð til Ómans í febrúar á næsta ári. Við hittumst í vikunni og fórum yfir áætlunina, skröfuðum og skeggræddum og hlustuðum svo á Hussein Sjehadeh segja smávegis frá Óman sem hann kann góð skil á. Svo var drukkið kaffi og te og menn gæddu sér á döðlum og sýrlenskum smákökum.
Hann talaði um að senda til mín Ómanspólur svo væntanlega hittist hópurinn aftur í janúarbyrjun, snarlar saman og horfir á myndir frá Óman
Mohammed Túnisi er annar frá vinstri, hann kom sem gestur á fundinn.
Á myndina vantar Margréti Guðmundsd, Guðrúnu Margot og Birnu Sigrúnu sem þurftu að fara áður en myndatakan skall á, Hertu sem forfallaðist vegna skyndilegrar uppákomu og Helgu Þórarins sem var að vinna. Sömuleiðis vantar Erlu Vilborgu sem var í skólanum sínum.
Nú hef ég ekki myndina fyrir framan mig - kann það altso ekki- en á menni eru
Magnús Kristjánsson, Gísli B. Björnsson, Lena Margrét Rist, Brynjólfur Kjartansson, Þorgils Baldursson, Inga Jónsdóttir, Margrét Pálsdóttir, Herdís Kristjánsdóttir, Inga Hersteinsdóttir, Sara Sigurðardóttir, Birna Karlsdóttir, Guðmundur Pétursson, Halla Guðmundsdóttir, Þóra Jónasdóttir, Guðlaug Pétursdóttir, Gunnþór Kristjánsson, Inga Ingimundardóttir, Dagbjört Snæbjörnsdóttir og JK.

Varðandi Jemenstúlkurnar okkar:
Alls tuttugu jemenskar stúlkur - segi og skrifa tuttugu stúlkur- hafa nú fengið styrktarforeldri svo þær geta drifið sig í skóla nú á næstu dögum. Mér finnst þetta gleðilegra en þurfi að orðlengja mikið um það. Ég hef þegar sent ársgreiðslu fyrir fimmtán stúlkur til YARO og sendi fyrir hinar nú eftir helgina. Nokkrir hafa fært í tal að það gæti verið gaman að efna til "foreldraferðar" til Jemens eftir 2-3 ár og gæti það verið sniðug hugmynd og vísast við látum verða af því.

Fæ fimm ný nöfn á mánudag og því geta fleiri skráð sig. Nokkrir hafa ákveðið að vera með án þess að styrkja einhverja ákveðna stúlku - það má hafa hvorn háttinn á. Sú upphæð fer þá væntanlega í að veita stuðning til stúlkna í framhaldsnámi. VIMA-stjórn ætlar að hittast á mánudag og ræða um það.

En ég hvet ykkur sem sagt enn til dáða og að þið hafið samband við mig. Einnig verður á næstunni send 500 dollara upphæð til kvennaverkefnisins í Sjabra/sjatilaflóttamannabúðanna í Líbanon.

Þar sem ég fer í burtu fimmtudag og kem heim um mánaðamótin september/október væri gott ef menn létu heyra í sér ef einhverjir vilja aðstoða þessar fimm nýju stúlkur sem ég fæ nöfn á n.k. mánudag.

Vegna fyrirspurna þar að lútandi: Fundur með Sýrlands/Jórdaníuförum verður um miðjan október. Hef fengið þrjú sæti í viðbót svo ég tek því bætt við í hana.

Ítreka svo og endurtek þakkir mínar fyrir öðlingslegar undirtektir.

Fögnuður hjá fimmtán jemenskum stúlkum - fleiri nöfn eru komin til mín

Það verður ekki á VIMA-félaga logið, þeir eru snarir í snúningum. Stúlkurnar fimmtán eru búnar að eignast "foreldri/foreldra" og ég hef þegar sent upplýsingarnar út til þeirra YAROkvenna. Þær urðu yfir sig kátar og þó frídagur sé í Jemen í dag (þeirra sunnudagur) eru þær nú þjótandi út og suður að tilkynna stúlkunum að þær fái að vera í skóla í vetur og sögðust búast við að það vekti óblandna gleði.

Þar sem fleiri hafa látið í ljósi áhuga hef ég beðið um fleiri nöfn og á von á að fá fimm nöfn nú á eftir og raunar er ekki hörgull á þeim og hægt að bæta við lengi enn. Svo ég vona að einhverjir góðviljaðir bætist við enn.

Í imeili sem ég fékk frá Catherine Hanafi í gær sagði hún: "Mér finnst stórkostlegt hvað Íslendingar eru að gera. Þetta hefur hleypt okkur kappi í kinn og við sjáum fram á að margar stúlkur sem ella hefðu ekki getað byrjað í skóla eða haldið áfram fá nú tækifæri."

Benda má á að þær stöllur segja að fólk skuldbindi sig ekki til þessa stuðnings nema ár í senn og síðan má auðvitað vona og vænta þess að fólk vilji halda áfram að eiga sínar fósturstúlkur.
Ein styrktarkonan sagði að hún vildi styrkja sína "dóttur" næstu fimm ár og fínt að hafa það á hreinu en skuldbindingin er ekki nema fyrir eitt ár strangt tiltekið.

Takk mikið vel og elsku látið mig heyra í okkur. Nóg af fúsum námsstúlkum bíður.

Fimmtán stúlkur bíða okkar--- hafið nú samband

Góðan daginn öll
Ekki laust við haustbragð af golunni þegar ég var að bera út í morgun.

Beint að efninu: þær forsvarsmenn YARO samtakanna í Jemen, Catherine Hanafi og Nouria Nagi hafa sent mér lista yfir nöfn 15 stúlkna á aldrinum 7-13 ára sem eru á biðlista að komast í skóla.
Auk þess bíða 250 aðrar en YARO stefnir að því að útvega þeim öllum stuðningsmenn á næstu tveimur árum.

Eins og ég sagði fyrr kostar það 200 dollara á 'ARI að styrkja stúlku til náms í Jemen. Það eru um 14 þúsund krónur.

Fyrir þá upphæð greiðir YARO skólabúning, skólatösku, skólavörur, mat meðan er verið í skólanum og veitt er aðstoð í bækistöðvum samtakanna við heimanám. Á þessum lista eru nokkrar stúlkur 12-13 ára sem eru í 1.bekk, þe. hafa ekki haft efni á að byrja í skóla fyrr en YARO kom þeim til aðstoðar.

Ýmsir þeirra sem vilja aðstoða mig við þetta segjast hafa áhuga á að styrkja eina sérstaka stúlku og fá nafn og aldur og helst mynd af henni. Það er allt til mikils sóma og ekkert flókið við það.

Það sem ég hef hug á er að útvega styrktarmenn handa þessum fimmtán stúlkum og auk þess fæ ég svo fleiri nöfn þegar þær eru gengnar út. Þá mun Fatimusjóður greiða fyrir þær eftir því hvað stjórn VIMA ákveður.

Einnig er nú unnið að því að koma því í kring að Fatima í Thula komist í framhaldsnám en hún hætti í skóla eftir skyldunámið.
Hugsanlegt er líka að við getum styrkt aðra til framhalds og háskólanáms.

Allnokkrir VIMA félagar hafa þegar greitt 10 þús. krónur og því spyr ég þá hvort þeir vilji fá sína sérstúlku??? Það þýðir að þeir borga 4 þús. til viðbótar, annað hvort nú eða seinna í vetur. Þurfa bara að láta mig vita.

Gjörið svo vel og hafið samband við mig hið allra allra allra fyrsta ef þið viljið á einn eða annan hátt leggja þessu lið. Ég fer til útlanda seinni partinn í næstu viku og verð í burtu septembermánuð ef guð lofar. Mér þætti gott ef við gætum sent þeim nöfn styrktarmanna sem vilja hafa þann hátt á sem ég lýsti áður en ég fer.

Vonast til að hitta ræðismann Íslands í Jemen á morgun eða hinn, en hann er nýkominn til landsins og mun biðja hann að tala við YARO-konur eftir að hann kemur heim. Ég reikna sömuleiðis með því að skreppa til Jemens í fáeina daga í nóvember og þær stöllur hafa boðið mér að koma í heimsókn í bækistöðvar þeirra og hitta þá þau börn sem þegar eru orðnir styrkþegar.

Ég ætla svo að taka fram að FATIMUstjóður mun einnig senda árlega upphæð til kvennaverkefnisins í Sjabra/Sjatilaflóttamannabúðunum í Líbanon eins og við höfum gert þrívegis áður.

Mælist eindregið til að menn hafi samband. Þó svo reglugerð sjóðsins sé ekki tilbúin finnst mér rétt að þeir einstaklingar sem vilja taka sínar "fósturstúlkur" sem fyrst geti gert það.

Bara senda mér imeil eða hringja. Látið það ekki dragast. Þær/þeir sem hafa þegar ákveðið sig þurfa ekki að ítreka það og ég læt þá fá nöfn.

Glaðir Ómanfarar hittust í gær ---fréttir af Jemenmálum

Í gær, mánudag, var fundur með hópnum sem fer í fyrstu ferðina til Ómans 30.janúar n.k. Við renndum yfir áætlunina sem hefur tekið smávægilegum breytingum - örugglega til hins betra- ég deildi út blaði með upplýsingum um Óman sem ég tíndi saman og Hussein Sjehadeh talaði um Óman en þar er hann manna kunnugastur. Svo var vitaskuld te, kaffi, rúsínur og döðlur á boðstólum og lítilsháttar af gómsætur sýrlenskum smákökum.

Það var góð stemning og Sjehadeh hefur boðist til að senda mér vídeómyndir um konur í Óman og fleiri spólur og því stefnum við að því að hittast aftur síðar í vetur, kannski áður en aðventan gengur í garð og horfa á það saman.

Þessi 27 manna hópur er að því leyti sérstakur að 24 hafa farið áður í VIMA-ferðir. Sumir eru nú að fara fjórða skipti og margir í 2. eða það hið 3. og hlýtur það bara að segja eitt að fleiri en ég verða hrifnir af ferðum til þessa heimshluta þegar þeir komast í kynni við hann.

Annað: Jemenstúlknamálið er komið í fullan gang. Samtökin í Jemen sem ég hafði hendur í hári á eftir nokkurt vesen sýna vilja okkar til að styrkja stúlkur til skólagöngu, mjög mikinn áhuga og veita upplýsingar í gríð og erg. Ef einstaklingar vilja taka að sér að styrkja stúlku til náms frá 6 ára aldri kostar það 200 dollara á ári. Það er svo grátlega lítið að ég trúi ekki öðru en margir taki við sér.
Um þessar mundir er verið að semja sérstaka reglugerð um Fatimusjóðinn og þegar hún liggur fyrir ætlum við að gera skurk í þessu, kynna málið og leita til fyrirtækja. En stuðningurinn byggist þó fyrst og fremst á framlagi einstaklinga og vonandi sem flestra félagsmanna í VIMA. Bið ykkur að hafa samband eða leggja beint inn á reikninginn, þið sjáið númerið hér á síðunni eins og ég hef áður bent á. 200 dollarar á ári=13 þúsund krónur! Vitiði ég trúi ekki að okkur muni um það.

Rétt í framhaldi af þessu er nauðsynlegt að ferðalangar átti sig á því að ALLIR sem fara í ferðirnar verða að skrá sig í VIMA. Það er skilyrði fyrir þátttöku og setur engann á hausinn að neinu ráði þar sem árgjaldið er 2.000 kr. Það var líflegt starf í VIMA sl vetur og verður vonandi svo á komandi vetri. Ef menn hafa enga sérstaka löngun til að vera áfram í félaginu, geta þeir bara borgað árgjald fyrir ferðina og síðan sagt sig úr félaginu. Sem betur fer hafa fáir gert það og líta svo á að það sé bæði gott og skemmtilegt að hitta það forvitna og góða fólk sem hefur safnast í þetta félag. En þetta er tekið fram að gefnu tilefni.

Það er gleðilegt frá því að segja að Sýrlands/Jórdaníuferðin er fullskipuð en með ákveðnum sveigjanleika má þó bæta við nokkrum til viðbótar. Jemen/Jórdanía fer svo vonandi á skrið innan tíðar. Miklar olíuverðshækkanir upp á síðastið hafa orðið til þess að flest öll flugfélög hafa hækkað verðið á farmiðum. Eftir öllum sólarmerkjum að dæma mun þó lukkast að halda VIMA ferðum nokkurn veginn á því verði sem upp hefur verið gefið. Insjallah

Vilja menn aðra ferð til Ómans?

Góða kvöldið, góðir hálsar

Fyrirlestur Husseins Sjehadeh í Borgarbókasafninu í dag, laugardag, var sérlega vel sóttur. Nokkrar umræður á eftir og að erindinu loknu gengu áhugasamir á fund Sjehadeh og spurðu hann spjörunum úr. Menn höfðu einnig gaman að því að skoða Ómanmyndir hans sem eru þarna til sýnis svo og gripi og muni frá aðskiljanlegum Arabalöndum sem komið hefur fyrir í glerskápum, ansi hreint smekklega.

Eftir fundinn komu nokkrir að máli við mig og lýstu áhuga á Ómanferð. Eins og ég hef sagt er ferðin í jan-febr 2006 fullskipuð og verður ekki bætt við nema einhverjir gangi úr skaftinu fyrirvaralítið. Því hefur mér dottið í hug að leita álits hjá ykkur: er áhugi á annrri ferð?
Sú mundi þá hefjast um 16.febr. eða svo og vera væntanlega með sama sniði og sú fyrri. Nokkrir hafa þegar skráð sig á biðlista.

Til að af verði er nauðsynlegt að 16 manns ákveði sig og það snarlega. Bið ykkur að íhuga þetta og hafa samband svo ég geti kannað hvort möguleikar eru á þessu. Óhugsandi að bæta núverandi biðlistafólki við nema efnt verði til annarrar ferðar.

Þess vegna er nauðsynlegt að láta heyra frá sér. Ég er nokkurn veginn sannfærð um að Óman er mönnum ekki síðra ævintýri en aðrar ferðir á þessar slóðir.
Ef ég heyri ekki frá ykkur fyrir föstudag þá afskrifa ég dæmið að þessu sinni.


Enn fjölgar í Íranferðirnar í september 2006 og þar get ég tekið fólk á biðlista til áramóta.

Loks er svo velþegið og harla meira en það að nokkrir Jemen/Jórdaníufarar í maí á næsta ári bætist við. Við förum ekki í þá ferð færri en 18.

Áður en ég halla mér á koddann eftir menningardag og Morgunblaðsútburð get ég ekki látið hjá líða að þakka þeim sem hafa ekki beðið boðanna síðan fregnir bárust frá Jemen um að þar væri komin hreyfing á hlutina og hafa greitt inn á Fatimusjóð.

Glæsilegar undirtektir í Jemen

Ég get ekki stillt mig um að segja ykkur að það streyma inn bréfin frá Jemen eftir þessa litlu klausu sem ég skrifaði í Yemen Times um að við hefðum áhuga á að styrkja stúlkur í nám. Flest eru frá útlenskum konum sem vinna við ýms konar hjálparstörf í landinu, m.a. við heilsugæslu og menntun.
Fékk adressu hjá konu sem sér um að fylgja málinu eftir og tekur á móti greiðslum og sendir upplýsingar um þær stúlkur sem styrks njóta. Upphæðin á ári er svo ótrúlega lág að ég fæ ekki betur séð en við getum hjálpað alla vega einum tíu stúlkum, en þá yrði að skuldbinda sig næstu 5-6 ár því margar þeirra hafa ekki lokið menntaskóla.
Einnig gæti verið snjallt að styrkja stúlkur strax frá því skólaskylda hefst - skólaskylda sem þessi samtök mundi þá ábyrgjast að væri framfylgt og reglulegar fréttir mundu fást af stúlkunum og framgangi þeirra.
Vildi bara segja ykkur þetta, ekki síst þeim sem hafa lagt pening í þetta þarfa og góða mál og vonandi bætast nú enn fleiri í hópinn.
Þetta skýrist svo enn betur á næstunni en ég er lukkuleg með þessa hressilegu byrjun því ég var orðin dauf í dálkinn yfir því hvað allt silaðist áfram.
Munið reikninginn hér til hliðar Hentug reikningsnúmer. Hvort sem það eru 500 kr eða 5000 kr eða allt þar á milli kemur að ótrúlegu gagni. Vonast til að þið látið í ykkur heyra.

Miðvikudagshugleiðingar um eyðublöð og félagafjöld ofl.

Góðan daginn
Það hefur dregist úr hömlu að skrifa nokkur vísdómsorð á síðuna en nú ætla ég að bæta úr því eftir bestu getu.

Í fyrsta lagi langar mig að ítreka að menn borgi félagsgjöldin sín og þá ekki síður að hvetja menn til að útvega fleiri félaga í VIMA. Við þurfum á því að halda og drjúgur áhugi er á þessum félagsskap svo ég hvet hvern og einn að koma með amk einn nýjan félaga og það hið skjótasta.

Í öðru lagi er vert að minna á fyrirlestur Husseins Sjehadeh í Borgarbókasafninu við Tryggvagötu á menningarnótt, n.k. laugardag kl. 15 e.h. Þar talar hann um misskilning milli menningarheima og til sýnis eru myndir sem hann hefur tekið í Óman. Sömuleiðis hefur safnið útvegað nokkra muni og gripi frá Arabalöndum og hefur til sýnis og lesið verður úr barnabókum á íslensku, dönsku og arabísku daginn langan. Þarna líður um sali hin undursamlega ómanska mirrulykt en Óman er frægt fyrir mirru. Sagt að til Dhofar í suðurhluta Ómans hafi drottningin af Saba leitað til að kaupa mirru að færa Salómon kóngi í Jerúsalem.
Sjehadeh hefur sérstakan áhuga á að hitta Ómanfarana okkar svo ég vona þeir fjölmenni.

Ég hef staðið í þessu einstaka eyðublaðaveseni síðustu daga vegna fyrirhugaðrar ferðar minnar til Írans nú í september. Mér skilst að síðan ég fór til Íran í febrúar s.l hafi verið skipt um áritunarumsóknareyðublöð og láðist aðeins að láta mig vita. Þess vegna er umsóknin mín ekki gild og mun ég nú senn hefjast handa á nýjan leik og hef fengið nýtt umsóknarblað í hendur til að skemmta mér við að fylla út. Ferðaskrifstofustýran í Teheran, frú Shahpar hefur fullvissað mig um að þetta muni allt takast að lokum en líklega fer ég nokkrum dögum seinna en áformað var fyrir vikið. Það er sumsé ekki sama eyðublað og eyðublað.

Ein helsta ástæða þess að ég hvet til að félagar þyrpist í VIMA er að nú hef ég fengið augastað á nýjum áfangastað; hinn harðsnúni kjarni félagsmanna hefur látið í ljós áhuga á að við bætum við fleiri löndum og því hef ég eftir nokkra íhugun dottið niður á lönd tvö í jaðri Miðausturlanda, þ.e. Armeníu og Azerbajan. Samningar eru þegar hafnir við ferðaskrifstofumenn á þessum stöðum og vonandi kemst ég til Armeníu í rannsóknarleiðangur nú í septemberlok. Vona að þetta mælist vel fyrir en of snemmt að tala um dagsetningar enn sem komið er. Mér þætti þó gaman að heyra í ykkur og hvaða skoðun þið hafið á þessum löndum.

Það hefur gengið brösuglega að koma Jemenverkefninu mínu af stað, þ.e að styrkja ungar stúlkur til náms. Einkum vegna þess að ekki hefur náðst almennilegt samband við fólk sem gæti haldið utan um þetta af ábyrgð.
Ég skrifaði nýlega grein í Yemen Times og hef fengið miklar og góðar undirtektir. Mun nú vinna úr þeim bréfum og hafa samband við þetta fólk og bind einnig vonir við ræðismann Jemens sem virðist áhugasamur um að koma málinu á rekspöl. Læt ykkur fylgjast með og þakka ástsamlega að þó nokkrir leggja fasta upphæð inn á reikninginn minn vegna þessarar hugmyndar minnar sem mun náttúrlega verða að veruleika fyrr en síðar. Hugsast getur að ég þurfi að skjótast til Jemen í nóvember til að hnýta síðustu hnútana og svo gæti þetta allt farið á fullan skrið.

Sem sagt: sendið mér eða gjaldkera Guðlaugu Pétursd. gudlaug.petursdottir@or.is
nýja félaga.
Mætið á fyrirlestur Sjehadeh í Borgarbókasafni á laugardag.
Tjáið ykkur um Armeníu og Azerbajan sem nýja áfangastaði Vima.
Munið fund Ómanfara í gamla Stýrimannaskólanum við Öldugötu mánudag 22. ágúst kl. 17,30.
Skráið ykkur hið skjótasta í vorferðirnar, Sýrland er að fyllast og senn er aðkallandi að menn tryggi sér pláss í Jemen/Jórdaníu í maí.

Látið absalútt í ykkur heyra mínir ágætu félagar. Verð dálítið á þeytingi á næstunni og ekki alltaf nærri síma eða tölvu svo næstu tvær vikur skyldu notaðar til að ákveða ferðir.
Látið einnig síðuna ganga til skemmtilegra fjölskyldumeðlima og vina

Sæl að sinni.

Jemen/Jórdaníufarar hittust á Litlu Brekku

Kátína ríkti hjá hópnum sem fór í maí s.l til Jemen og Jórdaníu en hann hittist í Litlu Brekku í gærkvöldi, fimmtudagskvöld. Glöddust menn yfir endurfundum og nokkrir höfðu á orði að einkum og sér í lagi Jemen hefði skilið eftir svo djúp áhrif að þá langaði til að fara þangað aftur eftir tvö þrjú ár.

Elín Guðmannsd kom með disk og Inga Hersteinsd var með myndvarpa og disk og var þessu varpað upp á tjald og síðan óuðum við og æuðum að horfa á þessar makalausu myndir úr ferðinni. Margir voru með albúm troðin af myndum og höfðu allir ánægju af að rifja upp ferðina á þennan hátt.

Við fengum gómsætis salat að borða og sumir flottuðu sig á súkkulaðiköku á eftir. JK gaf öllum viðstöddum hópmyndina sem var tekin fyrir brottför frá Sanaa og margir skiptust á myndum. Einar hafði áður látið mig hafa eintök af öllum sínum diskum og slatti þeirra mynda er komin inn á tenglinn myndir Einars hér á síðunni. Elín lét mig líka hafa eintak af sínum diski og Inga hafði góð orð um að gefa johannatravel eintak af sínum myndum og þegar tæknistjórinn okkar, Elísabet Ronaldsdóttir verður komin yfir erfiðasta hjallann í flutningsmálum sínum, bið ég hana að skutla nokkrum inn á síðuna.

Svo var setið að skrafi og skafli og undu menn sér vel og margir ætla að mæta á fyrirlestur Hussein Sjehadeh kl 15 á laugardag menningarnætur í Borgarbókasafninu í Tryggvagötu.

Menn kvöddust svo með blíðu og hlakka sömuleiðis til vetrarstarfs og októberfundar sem verður sagt nánar frá seinna.

Mér láðist því miður að athuga hverjir úr hópnum skulda félagsgjöld en bið þá sem ekki hafa gert upp að vippa 2.000 kr. inn á Vima reikninginn. Sjá Hentug reikningsnúmer. BIÐ YKKUR LENGSTRA ORÐA AÐ DRAGA ÞAÐ EKKI. Það á raunar einnig við um aðra félaga þó það sé gott að geta sagt frá því að margir hafa gert skil.

Heimboð í Damaskus

Sýrlenski ræðismaðurinn sem kom fram í dagsljósið í gær er fullur harms yfir því að dráttur varð á því að hann svaraði. Hann hringdi frá Sýrlandi í gær og tilkynnti mér að hann vildi allt fyrir okkur gera og mundi efna til boðs fyrir næsta VIMA hóp sem kemur til Damaskus um páskana.
Ég sá ekki ástæðu til annars en þiggja þetta vinalega boð með þökkum.

Hann virðist hafa alls konar hugmyndir um hvernig megi auka áhuga Sýrlendinga á Íslandi líka. Við höfum ákveðið að hittast og ræða þau mál og fleiri þegar ég verð í Damaskus- ef guð lofar- í nóvember n.k Fróðlegt að heyra hvað hann er að pæla.

Þá sakar ekki að nefna í framhjáhlaupi að ég bíð nú í ofvæni eftir að fá áritun til Írans en þar hyggst ég verja septembermánuði næst komandi. Ætla að fara vandlega yfir áætlunina fyrir árið 2006 og skoða þau hótel ofl. sem ég þekki ekki. Einnig væri ráð að hitta fólk að máli og fræðast um sitt af hverju, ekki síst hef ég auðvitað áhuga á málefnum kvenna eins og fyrri daginn.

Margir hafa spurt mig hvenær Arabíukonur komi út í kilju og nú hefur Mál og menning tjáð mér að það verði seinni hluta september. Einhverjar bækur eru þó enn til í nokkrum búðum.

Ræðismaður kom í leitirnar og Ómanfundurinn 22.ág

Ræðismaðurinn okkar í Damaskus er loks kominn í leitirnar og ritari hans svaraði imeili mínu nú fyrir helgina. Það eru liðnar góðar tvær vikur síðan ég skrifaði og ritarinn sagði að tölvan hefði verið í bileríi og ræðismaðurinn í útlöndum. En hann vildi allt fyrir Íslendinga gera. Þá vitum við það.

Ræðismaðurinn sem skipaður var í Jemen kemur í heimsókn á næstunni og stoppar í viku á Íslandi. Vænti þess að ég geti hitt hann að máli. Það er ágætt að eiga hann að.
Vel að merkja, nú væri ráð að menn færu að tilkynna sig í Jemen/Jórdaníuferðina sem hefst 5. eða 7.maí n.k.

Sýrlandsferðin um páskana er að verða nokkuð vel skipuð en ég get bætt við fimm í viðbót og ættuð þið að koma þessu áleiðis hið fyrsta.

Fundur með Ómanferðalöngum verður í gamla Stýrimannaskólanum við Öldugötu 22.ágúst kl.17,30. Flestir hafa tilkynnt sig á fundinn. Þar legg ég fram endanlega ferðaáætlun, við fáum okkur kaffi og tesopa og hjölum um ferðina. Óskað er eftir að menn greiði staðfestingargjaldið á fundinum.

Jemen/Jórdaníufarar úr ferðinni í maí ætla að hittast 11.ágúst. Þau Baldvin og Helena verða þá á landinu og munu taka þátt í gleðskapnum.

Námskeiðin hjá Mími ákveðin

Mímir símenntun hefur beðið mig að halda námskeiðið menningarheimur araba eins og s.l. 3 ár og hefur verið ákveðið að fyrsti tími verði 6.október og sá síðasti er 3.nóv. Þetta eru fimm kvölda námskeið, á fimmtudögum frá kl. 20-22. Mikil aðsókn hefur verið að þessum námskeiðum og oft orðið fjörugar umræður.
Í fyrsta tímanum er talað um islam, inntak trúarinnar og kennisetningar, Múhammeð spámann og boðun hans.
Í öðrum er komið að því eldfima efni staða konunnar í arabalöndum - sem margir hafa einstaklega yfirborðskenndar hugmyndir um.
Í þriðja tíma er rætt um sögu svæðisins sem við skilgreinum sem arabaheiminn- einkum og sér í lagi tuttugustu aldar söguna. Fjallað um tilurð síonismans sem hefur haft margháttuð áhrif á framvindu í arabaheiminum.
Í fjórða tíma er haldið áfram að tala um stofnun Ísraelsríkis og sambúð gyðinga og araba og ekki síst afskipti hins svokallaða alþjóðasamfélags á þau samskipti. Í fjórða tímanum er einnig rædd menningarmál og menntunarstaða ofl. Í hléi er boðið upp á að bragða á arabískum mat.
Í síðasta tímanum er fjallað um stríðið 1991, aðdraganda þess og þær afleiðingar sem það hafði á sambúð/samskipti og þess háttar.

Það gefst varla tækifæri til að beina sjónum að Íraksstríðinu 2003 og því sem síðan hefur gerst og afstöðu arabískra til Vesturlanda. Hugsanlegt er að ég verði með sérstakt eins kvölda námskeið hjá Mími um það viðfangsefni.

Arabíska 1. og 2. byrjar 5.okt. og verður kennt á mánudögum og miðvikudögum.

Verið svo blíð og ljúf að láta þessar upplýsingar ganga því ég veit að margir hafa áhuga á að vita um þessi námskeið. Allar upplýsingar og skráning þegar þar að kemur er hjá Mími.

Íslandsferð Mahers er komin á sérstakan línk

Blessaðan daginn

Þá hefur Elísabet Ronaldsdóttir sett pistlana úr Íslandsferð Mahers inn á sérstakan línk ef þið viljið kíkja á þá í samfellu. Sjá hér til hægri.

Góð viðbrögð hafa verið við greiðsluáskorun en má árétta enn. Þeir sem fara í ferðir VIMA verða að greiða félagsgjald áður en ferðir eru farnar. Vinsamlegast athugið að þetta er mjög svo brýnt til að ég geti lagt fram öll gögn rétt og samviskusamlega fyrir samgönguráðuneytið enda vil ég hafa hina bestu samvinnu við það.
Athugið einnig að þeir sem voru þátttakendur í ferðum á þessu ári og hafa ekki gert upp félagsgjald eru beðnir að gera það. Þið sjáið reikningsnúmer hér að neðan og einnig vísa ég á línkinn Hentug reikningsnúmer.

Allnokkrir Íransfarar hafa þegar svarað og látið vita að þeir amenuðu niðurröðun ellegar gert við það athugasemdir og hefur gengið greiðlega að verða við þeim sem vilja breyta.

Bendi svo Ómanferðalöngum á að fundurinn verður 22.ág mánudag kl. 17,30. Nánar um það þegar nær dregur. Vona að allir geti mætt á svæðið.

Sú ferð er fullskipuð eins og fram hefur komið. Menn eru beðnir að greiða staðfestingargjaldið á fundinum þeim.