Árgjald verður að greiða FYRIR ferðir

Stjórnarkonur í VIMA hittust í gær til þess að rabba um hvernig til hefði tekist með heimsókn Mahers Hafez og ég orðlengi ekki um það en færi öllum þakkir fyrir einstaklega góðan og rausnarlegan hug meðan á henni stóð, í orði og ekki síður í verki.

Einnig var ástæða til að ræða innheimtu félagsgjalda. Til að uppfyllt séu öll skilyrði samgönguráðuneytis er nauðsynlegt að allir hafi greitt árgjöld VIMA áður en þeir fara í ferðirnar. Því hvet ég þá sem skulda árgjöld - og nú verður senn farið að innheimta fyrir komandi tímabil - að gera skil.

Reikningsnúmerið er 1151 26 2443 og kt. VIMA er 441004-2220 og árgjaldið er 2.000 krónur sem fyrr. Þeir sem eru ekki með á hreinu hvort þeir hafa greitt árgjald geta haft samband við gjaldkera VIMA, Guðlaugu Pétursdóttur, gudlaug.petursdottir@or.is
og hún flettir því upp snarlega og lætur ykkur vita.

Þetta er áríðandi að menn hafi á hreinu til að allt sé nú í stakasta.

Við spjölluðum líka um hina fyrirhuguðu heimsókn Palestínumannsins Husseins Sjehadeh sem kemur um miðjan mánuðinn í boði Borgarbókasafnsins og heldur fyrirlestur um Óman í húsakynnum safnsins í Tryggvagötu á menningarnótt. Ljósmyndir hans frá Óman verða á veggjum og safnið hyggst setja upp smásýningu með gripum og munum frá Arabalöndum. Ég veit að margir luma á ýmsu skemmtilegu og hvet þá til að hafa samband við JK ef þeir vilja lána eitthvað á sýninguna. Takk fyrir það.

Einnig var væntanlegt vetrarstarf til umræðu og verður kynnt betur síðar.

En munið félagsgjöldin. Verður ekki nógsamlega lögð áhersla á að :ÞAÐ ER AÐKALLANDI AÐ HAFA Í LAGI.

Raðað í Íransferðirnar - sendið athugasemdir ef þið viljið breyta

Var að raða lauslega niður í Íransferðirnar haustið 2006. Kannski finnst mönnum nægur tími og ekki liggja lífið á. Sannleikurinn er sá að það er þægilegra að hafa þetta nokkurn veginn á hreinu með góðum fyrirvara.

Svo ég bið fólk að láta mig vita ef það vill færa sig á milli. Nokkrir hafa gert það en frá öðrum hef ég ekki heyrt. Hef nú sent Íransförum þessi drög.

Einnig sendi ég þetta til fjögurra sem hafa ekki ákveðið sig en eru volgir vel.

Vil benda á að menn geta skráð sig á biðlista. Staðfestingargjald í báðar ferðirnar til Írans þarf að greiða um áramót. Athugið það.

Fyrirlestur um Óman á menningarnótt og fleira arabí

Ég minntist á fyrr í sumar að hingað væri væntanlegur palestínskur Dani sem ætlaði að halda fyrirlestur um Óman.

Nú tilkynnist það hér með að þessi ágæti náungi, Hussein Sjehadeh flytur fyrirlestur um Óman í Borgarbókasafninu við Tryggvagötu kl. 14 e.h. á laugardegi,( 20.ágúst) menningarnætur. Hann ætlar að tala um Óman einkum og sér í lagi. Þema safnsins er íslenskt-arabískt-danskt og verður lesið upp úr aðskiljanlegum bókum síðari hluta dagsins, á þessum þremur tungumálum.

Einnig verður sýning í safninu með flíkum og munum frá löndum araba.

Hussein Sjehadeh er fæddur í Palestínu en flutti ungur maður til Danmerkur. Held ég fari rétt með að það hafi verið í kringum Sex daga stríðið 1967. Hann hefur unnið sem sjálfstæður blaðamaður í Danmörku allar götur síðan.
Ég hitti Sjehadeh í Óman 1987 en hann hefur tekið ástfóstri við landið og þjóðina og fer þangað a.m.k einu sinni á ári. Einnig ferðast hann vítt og breitt um lönd Araba og skrifar um þetta í dönsk blöð. Hann er sömuleiðis mjög góður ljósmyndari og verður með sýningu á ljósmyndum frá Óman í Borgarbókasafninu.

Sjehadeh hefur tvívegis komið til Íslands áður, í fyrsta skiptið á vegum Blaðamannafélagsins og hélt fyrirlestur í Norræna húsinu og seinna á vegum félagsvísindadeildar H.Í og talaði þá þar og víðar.

Hvet sem flesta VIMU félaga til að leggja leið sína í Borgarbókasafnið kl. 14 á menningarnæturdaginn og hlusta á Sjehadeh.

Tilbúin handrit

Grein eftir Jón Orm Halldórsson í Fréttablaðinu


Fyrsti maðurinn sem sem tók sér það fyrir hendur að eyða kvöldi í að upplýsa mig um sannleikann um Miðausturlönd var á þeim tíma ungur þingmaður á ísraelska þinginu, maður að nafni Ehud Olmert. Ég var Ehud þakklátur fyrir að vekja áhuga minn á þessum heimshluta en áhuginn á að halda sambandi við þennan duglega mann minnkaði fljótt. Eftir fáein samtöl fór það sem hann sagði að minna á eintal innan úr köldum, dökkum og stundum skelfilegum heimi. En ég bý í gömlu gyðingahverfi í Berlín og man eftir því á hverjum degi hvers vegna menn eru enn feimnir við að gagnrýna þá ofsafengnu þjóðernishyggju, það skelfilega kynþáttahatur, þann frumstæða yfirgang og þá botnlausu hræsni sem einkennir ráðandi öfl í Ísrael.
Eftir að Ehud vakti áhuga minn á Miðausturlöndum las ég það sem ég fann um þau. Þó kom margt á óvart þegar ég kom þar fyrst. Ein minning er um kvöldverð með stöndugum arabískum fjármálamönnum. Þeir voru allir kristinnar trúar en sögðu mér að virðingarverðasta stjórnmálahreyfing Miðausturlanda væri Hizbollah. Lítils háttar ferðalög um svæðið eyddu undrun minni. Hizbollah og Ehud Olmert eiga sama guðföður, Ariel Sharon. Hreyfingin var stofnuð til að berjast gegn óhemju blóðugri innrás Ísraels í Líbanon. Framganga Sharons þar varð til þess að hæstiréttur Ísraels sagði hann bera persónulega ábyrgð á fjöldamorðum á þúsundum Palestínumanna. Sharon var refsað fyrir mannskæðustu hryðjuverk Miðausturlanda með tímabundinni brottvikningu úr ríkisstjórn Ísraels. Hann sneri aftur til að skipuleggja nýjar landtökubyggðir í Palestínu. Svo varð hann nánasti bandamaður Bandaríkjanna í stríðinu gegn hryðjuverkum. Sharon þekkti hryðjuverk betur af eigin raun en flestir aðrir. Fjöldamorðin á konum, börnum og gamalmennum í Shatila og Sabra voru ekki hans fyrsta afrek á því sviði. Bush forseti lýsti því í viðtali hver forréttindi það hefðu verið fyrir sig að fá útskýringu á sögu Miðausturlanda frá Sharon. Þetta var líklega ekki of langt eða of flókið fyrir forseta Bandaríkjanna.
Ehud Olmert er einn tiltölulega fárra manna sem hefur orðið forsætisráðherra í Ísrael án þess að eiga að baki feril sem hryðjuverkamaður eða sem skipuleggjandi þjóðernishreinsana. Hann hefur þó notið margvíslegra tengsla við gamla hryðjuverkamenn allt frá unga aldri. Annar fyrrum forsætisráðherra, Menachem Begin, hafði mætur á hinum unga Ehud en Begin stjórnað Irgun-samtökunum sem drápu hundruð palestínskra borgara. Eini tilgangur með þeim morðum var að hræða Palestínumenn til að flýja land og í flóttamannabúðir eins og þær sem Ehud er að sprengja í tætlur í Líbanon. Þrátt fyrir náin tengsl við hryðjuverkamenn á Ehud hins vegar við ákveðinn ímyndarvanda að glíma í Ísrael. Yfirgangsöm stefna hans sem borgarstjóri í Jerúsalem hefur kostað þúsundir fjölskyldna heimili og lífshamingju en honum er þó ekki treyst eins vel og gömlu hryðjuverkamönnunum. Einu refsiverðu glæpirnir sem hann hefur verið sakaður um í Ísrael er fjármálaspilling og mútuþægni sem hann hefur annað veifið sætt rannsóknum fyrir. Þess vegna skiptir öllu máli fyrir hann að vera ekki sakaður um linkind. Þar er að finna eina ástæðu þess að aldrei fyrr hafa eins margir saklausir borgarar verið drepnir á fyrstu mánuðum embættistíðar nýs forsætisráðherra.
Hryðjuverk eru yfirleitt aðferð hinna valdalausu. Ísrael er þar undantekning. Hryðjuverk gegn óbreyttum borgurum í þeim tilgangi að skelfa fólk og lama samfélög er beinlínis stefna ríkisins rétt eins og þau var stefna hryðjuverkasamtaka þriggja fyrrum forsætisráðherra landsins á árum áður.
Patten lávarður, síðasti landstjóri Breta í Hong Kong og fyrrum forystumaður breska íhaldsflokksins, sagði um daginn að skilyrðislaus stuðningur Bandaríkjanna við Ísrael hefði búið til handritið að kreppunni sem nú ríkir í Miðausturlöndum. Eins og með Írak var þetta allt fyrirsjáanlegt. Það var auðvitað ekki fyrirsjáanlegt nákvæmlega hvaða börn yrðu drepin eða gerð munaðarlaus en menn gátu vitað að morðin héldu áfram. Í því liggur ábyrgð heimsins, rétt eins og í Írak.
Það eru auðvitað Bandaríkin en ekki við sem ráðum þessu. Þau leggjast gegn vopnahléi svo morðin halda áfram. En við ættum að fylgjast með. Við kusum menn sem kusu að fórna okkar merkustu hefð til að styðja stefnu Bandaríkjanna í Miðausturlöndum.

Viðbrögð alþjóðasamfélagsins reiðarslag

Viðtal Hilmu Gunnarsdóttur blaðamanns við Guðrúnu Margréti Guðmunsdóttur mannfræðing í Blaðinu.


Um þessar mundir er ástandið tvísýnt í Mið-Austurlöndum. Síðustu daga hefur Ísraelsher látið sprengjum rigna yfir Líbanon. Fjölmargir hafa látið lífið og Líbanir flýja heimili sín og allar þær hörmungar sem stríðið hefur skapað. Fjölmiðlar flytja okkur fréttir sem oftar en ekki eru einfölduð sýn á flóknum veruleika og oft er erfitt fyrir okkur Vesturlandabúa að henda reiður á hinu raunverulega ástandi.


Guðrún Margrét Guðmundsdóttir þekkir þennan heimhluta betur en flestir
Íslendingar en hún bjó í 10 ár við Persaflóa og var gift líbönskum manni. Blaðamaður Blaðsins hitti Guðrúnu á notalegu kaffihúsi í miðborg Reykjavíkur og spurði hana um búsetu á framandi slóðum, tvíhyggju fordómanna og hvaða máli það skiptir hver hefur valdið á sinni hendi.


"Kynni mín af Mið Austurlöndum hófust árið 1985. Faðir minn fékk þá vinnu hjá þýska fyrirtækinu SIEMENS og öll fjölskyldan flutti út til Qadar. Mánuði síðar hélt ég upp á 16 ára afmælið mitt. Ég var með heimþrá í tvo daga en tók svo gleði mína á ný. Ég eignaðist nýja vini og undi glöð við mitt í þessu framandi landi. Það má segja að ég hafi lifað ákveðnu gervilífi að því leyti að ég var ekki beinlínis hluti af samfélagi landsins. Ég gekk í breskan skóla, átti vini sem flestir voru af vestrænu bergi brotnir og tilheyrði ákveðnum menningarkima. Sjö mánuðum eftir að kom til Qadar hitti ég fyrrverandi manninn minn. Ég var þá aðeins 16 ára gömul en hann 25 ára."
Stuttu eftir að Guðrún hitti unnusta sinn var faðir hennar færður til í starfi og fjölskyldan fluttist öll til Dubai. Guðrún gekk þar í alþjóðlegan skóla líkt og í Qadar en hún var stöðugt með hugann við hina nýfundnu ást og þegar hún var 18 ára gömul fluttist hún aftur til Qadar til þess að vera með unnustanum og vinna á hóteli. Þau bjuggu saman í Qadar allt til ársins 1992.
"Eldri dóttir okkar fæddist árið 1990, sex mánuðum áður en Persaflóastríðið skall á. Á þeim tíma fékk ég nasaþefinn af því hvernig það er að búa á stríðshrjáðu svæði, upplifði orrustuflugvélar fljúga fyrir utan gluggan og fann á eigin skinni þá hræðilegu óvissu sem slíkt ástand skapar innra með manni. Ég fór heim til Íslands um tíma til þess að komast burt frá þessu en fór aftur út þegar stríðinu lauk. Árið 1992 fæddist yngri dóttir mín og við fjölskyldan fluttumst til Yemen þar sem við bjuggum í tvö ár. Þar þurftum við líka að flýja stríðsástand þar sem Suður og Norður hlutinn áttu í borgarastríði. Við fórum til Kúveit þar sem eiginmaður minn fékk vinnu en þá var ég búin að fá mig fullsadda af stríði og óöryggi auk þess sem hjónabandið var að hruni komið. Ég ákvað því árið 1995 að skilja og flytja heim til Íslands með dætur mínar tvær."


Orðræðan einsleit


Guðrún hefur rýnt mikið í fréttaflutning vestrænna fjölmiðla af innrás
Ísraela og þá orðræðu sem ríkjandi er þegar fjallað er um þessi mál. Hún segir það ljóst að Ísraelar hafi tögl og haldir í umræðunni og hafa völdin til að skilgreina ástæður og nauðsyn árásarinnar á mjög einfaldan og næstum því barnalegan hátt.
"Þeir nýta sér þær neikvæðu staðalmyndir sem búnar hafa verið til, einkum í kjölfar 11. september og segja hluti eins og ,,Hizballah eru málaliðar undir verndarvæng öxulveldis hins illa sem nær allt frá Damascus til Teheran".
Þetta hefðu varla talist skiljanleg röksemdarfærsla fyrir árásum fyrir þann atburð.Ísraelar segjast vera að ráðst gegn Hezbollah og séu þess vegna tilneyddir til þess að ráðst inn í Líbanon. Það er líkast því að ef þegar IRA ástundaði sín hryðjuverk að þá hefði breski herinn tekið sig til og byrjað að sprengja Dublin.
Það alvarlega í öllu þessu máli hlýtur að vera að nú hefur skapast orðræða sem sem réttlætir þar að skemma, særa og drepa. Þessi málflutningur er allur byggður á fordómum og staðalmyndum. Sú staðreynd að við skulum samþykkja árásir á saklausa borgara er ótrúleg. Ég tel að ástæðurnar megi rekja til þess að í fjölmiðlum er búið að búa til mjög sterka óvinahugmynd um múslima og araba. Ef þessi innrás hefði átt sér stað fyrir 11. september 2001 þá hefði staðan verið allt önnur og Vesturlandabúar ekki haft neinn skilning á þessu. Staðan er orðin mjög alvarleg þegar staðalmyndir eru orðnar svo sterkar að hægt sé í skjóli þeirra að komast upp með hræðilega hluti án þess að þurfa að skýra sitt mál."
Ljóst er að Vesturlandabúar hafa fremur einsleita mynd af íbúum
Mið-Austurlanda og jafnvel múslímum almennt og segir Guðrún að þeir virðist vera orðnir hinir einu sönnu ,,hinir" í okkar augum, þ.e. þeir séu allt það sem ,,við" Vesturlandabúar erum ekki. Þessu sé stillt upp í við og hinir tvíhyggju og það útskýri það m.a. hvers vegna hægt sé að setja Hamas, Hezbollah, Íranir og Sýrlendingar, araba og jafnvel alla múslíma undir sama hatt.
"Á þennan hóp er svo settur merkmiði sem á stendur "óskynsemi og ofbeldi". Þessar hugmyndir eru gríðarlega sterkar og þær eru undirbyggðar af vestrænum ráðamönnum og fjölmörgum fræðimönnum. Þetta sýnist mér vera ástæðan fyrir því að við fordæmum ekki unnvörpum morð á saklausum borgurum. Ísraelsher tala um að þeir séu í raun að vinna í þágu alþjóðasamfélagsins og vísa í samþykkt 15.59 því til stuðnings. Sú samþykkt var gerð þegar Ísraelar yfirgáfu S-Líbanon og fól í sér að ríkisstjórninni væri skylt að afvopna skæruliða og hryðjuverkasamtök. Ísraelar líta á það sem svo að Líbanon hafi ekki sinnt þessu og því verði að ráðst inn í landið. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að ég held að menn séu löngu búnir að glata tölunni yfir þæralþjóðasamþykktir sem Ísraelar hafa brotið í bága við."


Meðvirkni alþjóðasamfélagsins


Guðrún segir ljóst hver hefur skilgreiningarvaldið og að alþjóðasamfélagið tipli á tánum í kringum ráðamenn í Ísrael. "Í mínum huga sé ég fyrir mér ráðamenn í Ísrael í hlutverki ofstopafulls heimilisföður sem við gerum okkar besta til að styggja ekki. Ef við reitum hann til reiði er fjandinn laus og við verðum fyrir meira ofbeldi og sársauka. Tony Blair sagði t.d. að það væri nauðsynlegt að senda inn friðargæslusveit inn í Líbanon til þess að koma í veg fyrir að Hezbollah ráðist gegn Ísraelum til þess að þeir þurfi ekki að grípa til meira ofbeldis. Það er ekkert tillit tekið til saklausra borgara. Þetta er einskonar meðvirkni alþjóðasamfélagsins."
Að mati Guðrúnar opinberar innrás Ísraelsher í Líbanon hinar fordómafullu hugmyndir um araba sem ríkjandi eru á Vesturlöndum. "Við verðum að reyna að skilja það hatur sem sumir arabar bera til Vesturlanda. Margt sem Vesturlönd hafa gert á þessu svæði opinberar aðeins ákveðna eiginhagsmunabaráttur og það er að mörgu leyti skiljanlegt hversvegna öfgahópar spretta upp. Misrétti, kúgun og fátækt ala af sér mannvonsku og öfgar."


Blæja og háir hælar


Guðrún hefur verið framarlega í flokki hér á Íslandi þegar kemur að
jafnréttisbaráttu og hún skilgreinir sig sem feminista.
"Meðan ég bjó í Mið Austurlöndum var ég ekki feministi og ekki meðvituð á neinn hátt. Þegar ég gifti mig gekk ég þó inn í mjög hefðbundin
kynjahlutverk algjörlega gagnrýnislaust. Það segir kannski meira en mörg orð um stöðu kynjanna á Íslandi."
Blæja sú sem margar konur í Mið Austurlöndum hefur orðið mörgum hugleikinn og er hún jafnvel talinn vera tákn um þá kúgun sem konur í þessum heimshluta sæta. Guðrún segir myndina þó ekki vera svo einfalda. "Ég sé engan mun á blæju þeirri sem konur í Mið-Austurlöndum bera og þeirri kröfu um kynþokka sem vestrænar konur þurfa að standa undir. Hvorttveggja er þetta tákn um að við séum bundnar af feðraveldinu þó birtingarmyndin sé ólík. Það er ekki tákn um vald að ganga um á háum hælum eða hylja sig með blæju. Hinsvegar getur verið að sumar konur reyni að beita þessum tækjum til valda því ekkert annað er tiltækt. Auðvitað má ekki gleyma því að hér á Íslandi ríkir lagalagt jafnrétti kynjanna, öfugt við það sem tíðkast í flestum löndum Mið-Austurlanda."

Líbanon

Ljóð eftir Elísabetu Jökulsdóttur

Manstu þegar við sátum í sólskininu
á veitingastaðnum við sjóinn í Líbanon,
og borðuðum krabba, sverðfiska og sardínur,
og það var hlegið svo mikið,
og skálað svo mikið
og talað svo mikið.

Eða í Biblos þarsem Fönikíumenn
höfðu hreiðrað um sig
og ég settist inní einn reitinn
og hitti þar konu úr fortíðinni
og spurði hana um hvað lífið hefði snúist
fyrir fimm þúsund árum
og hún sagði: Við erum að bíða eftir betri tíð.

Og þarna fann ég hjartastein í gömlu leikhúsi,
hvítan hjartastein og annað hjarta inní honum,
og nú er hann í hjartasteinasafninu mínu
en hjarta mitt grætur fyrir Líbanon.

Við gengum um göturnar
og allir svo kátir að sjá okkur,
fórum í flóttamannabúðirnar
og gátum ekki tekið með okkur sársaukann
svo hann elti okkur,
skoðuðum fjöldagröfina
sem ég hélt að væri bara í fréttunum,
heimstískuna á torgum,
stimamjúka þjóna og fagrar byggingar,
sumar með kúlnagötum,
og uppí hæðirnar
að Maríustyttunni
sem gnæfði yfir Beirut.

Og þarna hitti ég á götuhorni
amerískan hermann sem hafði farið úr hernum
til að giftast Arabastúlkunni sinni
og afgreiða í búðinni hennar,
en aðallega tilað brosa og laða að kúnnana,
við þræddum fjallvegi
þar sem kúrðu lítil þorp
og fólkið talaði biblíumál,
ég drakk heilagt vatn í klaustri,
það kom auðvitað dúfa
og úlfaldar í eyðimörkinni,
enn mátti finna rómverska guði
önnum kafna í sínum rústum,
og allstaðar komu börnin þjótandi
einsog eldibrandar með slæður og klúta,
og brosin sín frá hjarta til hjarta.

Nú rignir yfir þau sprengjunum
og flísarnar skerast inní hjartað,
ég hef komið til Líbanon
þessvegna grætur hjarta mitt,

og þú þekkir mig.

ÓMANferðin er komin með biðlista

Það tók ekki langan tíma að fylla þetta sæti sem var laust í Ómanferðina og þrír eru á biðlista. Nefndu þeir og nokkrir sem hringdu hvort kæmi til greina önnur ferð 2006 og það má athuga það. Þá væri nóvember nýbyrjaður 2006 heppilegastur, vegna veðurfars og ramadan er þá um garð genginn, en mér finnst ekki heppilegt að vera með hóp á föstumánuði.
Svo það er allt í stakasta að hafa samband og láta í ljós áhuga á nóvember og síðan sjáum við bara til.

Losnaði sæti í ferðina til ÓMANS - bregðið við skjótt

Var að losna eitt pláss í Ómanferðina - gæti þó útvegað tvö ef um hjón eða par væri að tefla. Þar sem ég verð að senda farþegalista til ómönsku ferðaskrifstofunnar upp úr næstu mánaðamótum er aðkallandi að heyra frá áhugasömum sem allra fyrst.

Þetta er fyrsta ferð johannatravel til Ómans og verður dagana 30.jan.-14.febr.2006.

Verið svo þekkileg að láta þessar upplýsingar hlaupa sem víðast.

RÆÐISMANNAFLÓÐ

Streyma nú til okkar ræðismenn á áfangastöðum okkar: við höfum ræðismann í Damaskus. Hann hefur aldrei komið til Íslands og enginn í ráðuneytinu hitt hann. Mun þó hafa boðað komu sína á ræðismannaráðstefnu sem verður hér næsta vor.

Mér fannst vitaskuld gráupplagt að skrifa honum nokkrar línur og nú verður fróðlegt að vita hvort hann verður jafn skjótur til svara og sá jemenski sem er auðheyrilega mjög áhugasamur og hefur ofan í kaupið afráðið að heimsækja Ísland í næsta mánuði með sinni frú.

Eftir því sem ég fregnaði í utanríkisráðuneytinu mun þessum Sýrlendingi hafa verið sagt frá ferðum johannatravel en það fórst líklega fyrir að gefa honum nánari upplýsingar enda hef ég ekki heyrt hósta né stunu. Nú er bráðspennandi að vita hvort hann verður snar í snúningum.

Ljósmyndir Einars komnar inn- skoðið þessi listaverk

Einar Þorsteinsson sem var í Jemen og Jórdaníuferðinni í maí s.l. lét mig hafa diska með myndum sem hann tók í ferðinni. Tæknistjórinn okkar Elísabet Ronaldsdóttir hefur nú sett hluta myndanna inn á linkinn Myndir Einars Þorsteinssonar.

Elísabet stakk upp á að hafa myndirnar undir sérstökum tengli enda eru þær margar hreinustu listaverk og verðskulda að menn skoði þær.

Hvet ykkur til að gefa ykkur tíma og virða fyrir ykkur myndirnar.
Bendi í leiðinni á frásögn Erlu Magnúsdóttir Ferðasaga frá Jemen sem er ákaflega athyglisverð aflestrar.
Skoðið myndirnar og sögu Erlu og skrifið endilega nokkur orð og segið álit ykkar.

Fékk fyrirspurn um Jemen vegna þess að aldrei þessu vant hefur það komist í fréttir síðustu daga vegna ókyrrðar. Létu menn í ljósi óánægju með hækkun á olíuverði og kom til óeirða. Ég sendi kunningjum í Sanaa fyrirspurn um þetta. Þeir segja að öldur hafi nú lægt og allt sé með friði og spekt og lífið gangi sinn vanagang.

Bendi væntanlegum Sýrlands/Jórdaníuförum á að senn fer að verða nauðsynlegt að tilkynna sig, þ.e. nýir þátttakendur. Það sama gildir um maíferð til Jemen og Jórdaníu.

Ræðismaður í Jemen

Fékk af því fregnir frá Stefaníu Khalifeh, ræðismanni okkar í Amman í Jórdaníu, að nú hefði verið skipaður ræðismaður í Jemen. Það þótti mér til hins mesta sóma og getur alltaf komið sér vel.
Hann heitir Alawi Kirby og býr í Sanaa. Ég hafði samband við hann í morgun og hann brá við skjótt og svaraði um hæl og einkar kátur að heyra að Íslendingar kæmu til Jemens.
Hann býst við að verða á Íslandi nokkra daga í ágúst og væri þá ráð að hitta hann og athuga hvort þetta er ekki sannari Jemeni en nafnið bendir til.
Allavega er ég alltaf dálítið veik fyrir fólki sem svarar strax og það gerði hann og fékk prik.

Maher floginn

Þá er gesturinn okkar Maher Hafez floginn og þegar ég skrifa þetta er hann líklega hálfnaður til Kaupmannahafnar. Þar er stutt bið og síðan snarar hann sér til Búdapest og áfram til Damaskus. Þetta er nákvæmlega sama leið og við notum í ferðunum.

Eins og fram kom buðu Hulda og Örn honum á hestbak og var það 2ja og hálfs tíma reiðtúr upp frá Laxnesi. Hann var ákaflega ánægður og lofaði hrossið mjög en hafði láðst að spyrja hvað það héti.
Í gærkvöldi komu þeir saman sem hafa farið með Maher í ferðirnar vítt og breitt um landið. Einnig nokkrir sem hafa ekki vegna fjarvista af landinu getað verið með. Þetta var vænt og elskulegt og margir gáfu honum myndir úr ferðinni og einhverjir færðu honum Íslandsbækur og fleira.
Elísabet færði honum eftirfarandi ljóð

THE MAHER-POEM
How can it be,
a man so gentle
and polite
is like a melting pot.

Is it because
he is so gentle
polite and is stepping
his toe on Reykjanesstá,

calling the ocean
with his mobilephone.

Ég keyrði svo glaðan og ánægðan Maher út á Keflavíkurflugvöll laust fyrir hádegi. Hann bað fyrir kveðjur til allra VIMA félaga og fjölskyldna þeirra og líka þeirra sem hann hitti ekki.

Held að við getum verið stolt af okkur og allt hafi tekist fagnandi.

Ferð til norðlenskra sveita og Maher á alþingi

Í gær, mánudag, leiddi Mörður VIMA-félagi og þingmaður Maher um alþingishúsið og sagði honum frá sögu húss og þings og hafði Maher mikið gaman að. Síðan fengu þeir sér smörrebröd á Jómfrúnni ásamt Ragnheiði Gyðu og Linda skáld og eiginkona Marðar bættist í hópinn og heilsaði upp á Maher.

Seinni hluta dags í gær var okkar maður svo á rölti um miðbæinn og var sennilega ljómandi dús við það. Í morgun, þriðjudag ætluðu Hulda og Örn síðan að bjóða honum upp í Laxnes í Mosfellsdal og þar stóð til að hann færi á hestbak.

Um sl. helgina fór Maher með nýjum hópi norður í land og pistill um þá ferð kemur hér:

Ferð Mahers Hafez til Norðurlands í fylgd heiðurshjónanna Ingu og Gunnþórs, Þórdísar Þorgeirsdóttur, Jóns Sigurvaldasonar og Sigurbjargar sem þennan pistil ritar.

Upphaflega áttum við að fara með Maher í Suðursveitina en vegna þess hvernig veðurspáin var fyrir helgina ákváðum við að taka stefnuna á Norðurland í staðinn. Ákveðið var að taka daginn snemma og því var lagt á stað úr Vesturbænum klukkan níu.
Þoka og rigning var alla leiðina að Geysi en þar stoppuðum við áður en haldið var á Kjöl. Þó að létti til eftir því sem norðar dró misstum við af fjallasýninni í vesturátt en Hofsjökull og austurfjöllin sáust nokkuð vel. Stoppað var á leiðinni að Beinhól eftir að hafði verið sögð sagan af Reynisstaðabræðrum.
Þar var tekið upp nesti og Jón gaf Maher að borða hrútskjamma og rófustöppu. Inga og Gunnþór gáfu okkur að smakka þurrkaðan silung úr Þistilfirðinum sem hvorug okkar Þórdísar hafði smakkað áður. Öll vorum við sammála um að það væri hreint salgæti og borðuðum við hann eins og snakk það sem eftir var af ferðinni.

Eftir matinn bauð Inga Maher að keyra fjallajeppann sinn, nýjan Mitsubishi af flottustu gerð á íslenskan mælikvarða, og þarf vart að taka það fram að slíkan bíl hafði Maher aldrei keyrt áður. Inga hafði eftir stutt stopp á Hveravöllum fært sig fyrir í bílinn til Þórdísar en Jón kom yfir til okkar Mahers.

Bíleigendurnir horfðu því á eftir okkur þeysa af stað og er ég ekki í nokkrum vafa um að það var nánast óraunveruleg upplifun fyrir Maher. Enda vorum við ekki komin niður í Blöndudal þegar hann fór að reyna að sannfæra mig um að ég yrði að eignast svona bíl.

Blöndudalurinn heillaði Maher og stoppuðum við til að taka myndir af folöldum og dást af fegurð dalsins. Síðan var haldið í Skagafjörðinn þar sem áð var í Varmahlíð og þar í ferðamannaverslun var okkur boðið upp á kaffi meðan við versluðum. Skagfirðingar kunna líkt og Sýrlendingar að slappa af.

Á Akureyri var gist á Gulu Villunni í Brekkugötunni og þaðan löbbuðum við á Bautann þar sem Maher fékk að smakka svartfugl. Eftir matinn var lagt upp í skoðunarferð um bæinn og fannst Maher Akureyri vera fallegasti bærin sem hann hefði komið í á Íslandi.
Hann var óþreytandi að taka myndir, heillaðist af húsunum og gróðrinum. Þegar við gengum framhjá Sigurhæðum sagði hann okkur að í Sýrlandi væru börn látin syngja þjóðsönginn á hverjum degi í skólanum. Það er vonandi að engum detti í hug að gera slíkt hér á landi.

Hið heimsfræga næturlíf Íslendinga fór ekki framhjá Maher og átti hann erfitt með svefn vegna drykkjuláta sem vörðu alveg fram undir klukkan sex um morguninn.

Á sunnudagsmorguninn var stefnan tekin á Mývatnssveit með viðkomu við gömlu brúna á Fnjóská og þar á eftir skoðuðum við Goðafoss. Það birti til í Mývatnssveit fyrst var stoppað við upptök Laxár, síðan farið í göngferð um Kálfatjarnarströnd, þar næst var Víti skoðað og að lokum fórum við upp að útsýnisskífu við Námafjall. Þar var svo hvasst að lá við að við fykjum um koll en útsýnið var frábært.
Þórdís stakk uppá að við fengjum okkur hverabrauð með taðreyktum silung og kjötsúpu í Gamla bænum í Reykjahlíð. Eftir matinn var lagt á stað suður og keyrði Maher jeppann úr Mývatnssveit að Brú í Hrútafirði. Við borðuðum kvöldmat á Gauksmýri í Miðfirði. Maher fékk sér sjávarréttasúpu með heilum humarbitum sem honum þótti góð en við hin létum lambakjötið duga. Á eftir var húnvetnskt kaffi með rababarapæi.
Í Húnavatnssýslum var hávaðarok en þurrt að mestu og hiti um 5 stig þannig að í norðurferðinni fékk Maher smásýnishorn af íslensku sumarveðri. Það voru svo þreyttir en sælir ferðalangar sem kvöddust við Hörpugötuna um miðnætti.

Úr einni afmælisveislu í aðra á laugardag

Ekki var setið lengi auðum höndum eftir að gestur okkar Maher Hafez, kom úr sinni velheppnuðu ferð um Borgarfjörð og Snæfellsnes með Guðrúnu S., Jóni og Ingibjörgu, Þórunni og Guðmundi. Sjá frásögn hér fyrir neðan.
Honum var boðið í tvær afmælisveislur VIMAfélaga á laugardagskvöldið. JK og Maher hófu veislukvöld hjá Þóru J. og þar hitti hann nokkra góða félaga. Afmælisbarnið bauð í lambahrygg, ákaflega ljúffengan og ís á eftir. Þarna fékk Maher tækifæri til að ræða matarvenjur Íslendinga og finnst við borða of mikið feitmeti - þó hann hafi raunar fallið kylliflatur fyrir íslensku smjöri þessa Íslandsdaga og ýmsu öðru sem flokkast ekki beinlínis undir hollustu af ýmsum. Elísabet J. var til andsvara og hélt uppi vörnum fyrir feitmeti.
Þetta var ánægjuleg stund í hvívetna.

Um tíuleytið keyrðu JK og Maher svo inn á Rauðalæk en þar hélt Hulda Waddel upp á fimmtusafmæli sitt og voru Hulda og Örn kát að hitta loks Maher en þau hafa verið í Portúgal síðustu tvær vikurnar. Óskar og Nína voru meðal boðsgesta og þau hafa heldur ekki getað verið með í Maher-gleðskapnum fyrr en þarna.

Í afmælisveislunum sagði Maher frá ævintýrum síðustu daga og sýndi "símamyndir" af veiðiskap og er þegar orðinn býsna laginn að lýsa þeim stóra sem hann missti eins og Guðrún S. minnist á í sínum pistli.

Ég skildi Maher eftir í afmælisveislu Huldu en þar voru meðal gesta Ragnheiður Gyða og Oddrún og þau fóru svo saman heim til Hörpugötu.

Nú í morgun, laugardag, veit ég ekki betur en Maher sé farinn norður í land, um Kjöl í fylgd með Gunnþóri og Ingu, Sigurbjörgu, Jóni Sigvaldasyni og Þórdísi.

Hann hefur þegar haft á orði að hann langi til að koma aftur seinna. Og gott ef hann vill ekki bara setjast hér að!

Ævintýraferð Mahers um Snæfellsnes og Borgarfjörð - plús veiðiafrek hans

Eins og fram kom í pistlinum um veisluna fór Maher Hafez þaðan með Akranesfjölskyldunni okkar og Guðrún S. hefur nú sent mér þessa líflegu frásögn um ævintýri hans næstu tvo dagana á eftir.

Á miðvikudagsmorgni 13. júlí, eftir morgunverð hjá Ingu og Jóni, var haldið af stað í Borgarfjörðinn. Veður var lágskýjað en úrkomulaust svo ekki sást mikið til fjalla í Hvalfirðinum, en Maher er ákaflega hamngjusamur með þess konar veður svo allt var í góðu lagi hans vegna. Eftir akstur um Ferstikluháls og Dragháls yfir í Skorradal fundum við sólina við enda vatnsins, þá held ég að Maher hafi áttað sig á því hver hún var þessi fjallasýn sem við söknuðum svo mjög.

Þar sem við stoppuðum á veginum var hrossahópur á beit innan girðingar. Nokkur þeirra komu strax að taka á móti okkur. Þar fékk okkar maður afar áhugavert myndefni fyrir símann sinn, auk þess sem mátti klappa þeim í bak og fyrir. Hann er alveg dolfallinn fyrir hrossunum okkar og fjallakindunum sem ganga villtar allt sumarið. Og ekki varð hann síður uppnuminn þegar við sögðum honum frá því að hross eru líka rekin á afrétt, þar sem þau ganga villt allt sumarið. Ég held að núna eigi hann sér draum um að koma til Íslands í september til að komast í íslenskar fjár- og stóðréttir, upplifa þessi villtu dýr koma til mannabyggða.

Áfram var haldið um Hestháls yfir í Bæjarveit, þar var stoppað við nýja veitingastaðinn í Fossatúni. Þar var að vísu lokað, Maher til mikillar undrunar, en útsýnið af pallinum þar, bæði til fjalla og yfir Grímsána, var engu að síður frábært.

Næst var haldið að Deildartunguhver og Maher fræddur um hann og hverning vatnið rennur alla leið út á Akranes. Síðan var haldi í Reykholt, þar sem við gengum um staðinn og skoðuðum Snorralaug og fleira. Svo voru það Hraunfossar, Húsafell og áfram upp að Kalmanstungu. Þar sem nú var orðið léttskýjað sást afar vel til fjalla og inn á jökul. Niður afleggjarann að Kalmanstungu var verið að reka hrossahóp, sennilega 30 - 40 hross, svo nú var stoppað í vegkantinum og Maher fór út og stillti sér upp fyrir aftan bílinn með (video)símann sinn og myndaði hrossin koma hlaupandi eftir veginum framhjá bílnum. Ég held að þetta atvik hafi algjörlega toppað allt annað sem Maher upplifði þennan dag, sem hann þó að öðru leyti var ákaflega ánægður með.

Síðan var ekið niður Hvítársíðu og að Reykholti þar sem við borðuðum síðbúinn hádegisverð. Eftir það fórum við niður Stafholtstungur og Vesturlandsveg um Borgarnes og út á Skaga. Um kvöldið var síðan farið inn að Glym á Hvalfjarðarströnd að borða. Eftir matinn var haldið inn að Hvalstöð, þar sem Maher var fræddur um veru hersins þar og hvalveiðar. Við gengum um planið þar sem hvalurinn var dreginn upp og skorinn og Jón, sem gamall hvalskurðarmaður, lýsti fyrir okkur hvernig var unnið á planinu.

Að morgni fimmtudags var haldið snemma af stað til Stykkishólms, þar sem við áttum bókað í eyjasiglingu um Breiðafjörðinn klukkan 11. Þar var siglt milli eyja og skerja og skoðaðir allskonar klettar og fuglalíf, auk þess sem skipstjórinn sagði sögur af ýmsum atburðum sem þarna hafa átt sér stað. Toppurinn á þessum túr var þó, þegar dreginn var fullur poki af alls konar skeljum, kröbbum, ígulkerjum o.fl. og farþegum boðið að smakka.
Þarna smakkaði Maher í fyrsta sinn ýmsar tegundir af skelfiski beint úr sjónum. Áður en hann smakkaði sagðist hann hafa verið viss um að þetta væri vont og var jafnvel að hugsa um að biðja um salt á fiskinn. Honum fannst skelfiskurinn hins vegar afar góður og var ófeiminn við að biðja um meira og meira og meira.......

Við Breiðafjörðinn var frekar kalt og þoka svo ekkert sást hvorki til sjávar eða fjalla. Við fórum því beina leið aftur yfir á sunnanvert Snæfellsnesið, þar sem var ágætlega hlýtt og léttskýjað. Áfram var haldið, með stoppum, að Arnarstapa. Þar gengum við klettabrúnina, skoðuðum fuglana gargandi í klettunum, brimið og höfnina, þar sem kallarnir voru að landa afla og þrífa bátana. Næsta ferð á Snæfellsjökul var kl. 5, en þar sem sú ferð tekur 2 tíma, dagurinn orðinn langur og eftir að var að keyra rúmlega tvo tíma til baka á Skaga, ákváðum við að sleppa þeirri ferð og stoppa heldur lengur í frábæru umhverfi á Arnarstapa.

Heim komum við síðan klukkan langt gengin í átta. Þar beið dýrindis kvöldverður hjá Ingu og Jóni. Og ekki var dagurinn búinn!!!
Um klukkan 10 var haldið til hafnar. Guðmundur og Þórunn eiga lítinn skemmtibát, svo næst fórum við á sjóstöng. Þar veiddi Maher sinn fyrsta fisk og hann veiddi þá marga, bæði þorsk og ýsu, en grun höfum við um að sá stóri hafi sloppið.
Við sögðum Maher frá þeim sið fiskimanna að gorta af veiðinni og að segja sögur um hvernig þeir misstu þann stóra eftir karlmannlega baráttu. Svo þegar til Sýrlands kemur getur hann lýst þeim stóra sem hann missti og veit að "sá stóri" fer stækkandi eftir því sem lengra líður og hann segir söguna oftar. Fyrir okkur var það alveg frábær upplifun að sjá veiðiáhugann grípa Maher og hann renna aftur og aftur til að fá fleiri og stærri fiska.
Að landi var komið vel eftir miðnætti og það var þreyttur, en alsæll Maher sem fór að sofa þetta kvöld.

Á föstudagsmorgun var sofið út fram undir hádegi, þá var léttur hádegisverður hjá Ingu og Jóni. Nú var komið að því að skila Maher. Við fórum lengri leiðina, um Hvalfjörð, stoppuðum inní Botnsdal og víðar á leiðinni.
Við Laxá stoppuðum við þar sem tveir menn voru við veiðar. Þeir voru auðsjáanlega ekki að fá neinn fisk, svo Maher sagði að rétt væri að hann færi og kenndi þeim hvernig ætti að veiða, vanur maðurinn. Síðdegis var Maher síðan færður í öruggar hendur Ragnheiðar Gyðu og Oddrúnar.

ÓMANDagsetningar eru pottþéttar

Góðan daginn.
Hvorki meira né minna en sól. Það liggur við maður líði í ómegin af undrun.

Bendi ykkur á pistil Margrétar Hermanns Auðardóttur um ferð Mahers í Þjórsárdal og Landmannalaugar hér fyrir neðan.

Maher er nú á flakki um Borgarfjörð. Kannski kominn út á Snæfellsnes. Akurnesingarnir sjá örugglega um hann með sóma.

Vil ekki láta hjá líða að greina frá því að LOKSINS eru komnar fastar og pottþéttar dagsetningar á Ómanferðina. Hefst 30.jan. og lýkur 14.febr.

Ætla að hafa fund um ferðina í kringum 20.ágúst og menn þurfa að borga staðfestingargjald þá eða ekki síðar en 1.sept.
Eins og stendur eru nokkrir enn óákveðnir og þeir þurfa að gera upp hug sinn fyrir fundinn eða í síðasti lagi á fundinum. Muna það.
Get tekið nokkur fleiri nöfn ef einhverjir detta út. En það verður að vera fljótlega því Ómanferðina þarf í fyrsta lagi að borga fyrr en hinar og í öðru lagi þarf ég að senda vegabréfsupplýsingar og nafnalista ekki síðar en 15.desember. Gjöra svo vel og hafa samband hið allra fyrsta.
Allmargir eru ákveðnir og ég veit um þá. Mun svo hafa samband við þátttakendur með skikkanlegum fyrirvara.

Ferð með Maher í Þjórsárdal og Landmannalaugar

Sunnudagsmorguninn 10. júlí héldu Margrét og Þóra J. austur fyrir Fjall í suðaustan úrhelli til Jónu og Jóns Helga í Hveragerði, gestgjöfum Mahers þá stundina. Þar var okkur boðið í kaffi og kræsingar meðan beðið var eftir restinni af ferðahópnum, þeim Álfhildi, Diddu og Erlu

Síðan var ekið til Selfoss að sækja villtan lax á kvöldgrillið og þaðan haldið áfram áleiðis í Þjórsárdal með stuttu stoppi í Árnesi, en þá höfðu himnagyðjurnar heldur betur látið rofa til með tilheyrandi fjalla- og jöklasýn. Því næst var stoppað við þjóðveldisbæinn svonefnda – þ.e. endurbyggðan Stangarbæ og heimakirkju – áður en haldið var að rústunum á Stöng.

Næsta stopp var á fögrum stað innst í Spönginni innan við Stöng og því næst var haldið í ferðamiðstöðina í auðninni í Hrauneyjum – sem við gáfum nafnið Café Bagdad – og þaðan var síðan brunað eftir þvottabrettuðum malarvegi og yfir ár inn í Landnmannalaugar.

Í Ferðafélagsskálanum á staðnum var Maher og haremi úthlutað langrúmi undir súð, sem minnti einna helst á setin í Stangarbænum eða baðstofufyfirkomulag til sveita forðum. Þegar svo var komið ferðasögu, höfðu himnagyðjurnar skrúfað frá vatnskrananum í efra – og það kallaði því á ómælda aðlögunarhæfni að hafa til laxinn með meðlæti og halda lífi í útigrillinu í himnasturtunni utan dyra ..... en þeirri baráttu fylgdist fjölþjóðlegt lið ferðamanna með af óskiptum áhuga. Og um síðir var sest að herlegri kvöldmáltið í eldhússkála. Áður en lagst var til hvílu létum við líða úr okkur í Landmannalaugunum, og langrúmið ku hafa verið fullskipað þegar eina stund vantaði í óttu.

Mánudaginn 11. júlí: Eftir sameiginlegan morgunverð í seinna fallinu var haldið í göngu upp á hraunið ofan við Ferðafélagsskálann og til baka um Grænagil.
Um nónleytið héldum við aftur til byggða eftir Landmannaleið sem reyndist óvenju mjúk undir dekkjum og greiðfær eftir því.
Stoppuðum austan við Búrfell við fagra Fossahóla og þaðan héldum við síðan að Hellum í Landsveit til að sýna Maher stæsta manngerða helli landsins, Stórahelli, þar sem m.a. má sjá rist búmerki bænda á hellisveggjum og jafnvel einstaka rúnaristur. Svo lengi sem menn muna voru manngerðir hellarnir í Rangárvallasýslu nýttir af bændum sem fjárhús, hlöður, búr o.s.frv. allt fram á liðna öld, en ekki er vitað hversu gamlir elstu hellarnir kunni að vera.
Á hellisveggjum Stórahellis á Hellum er einnig að finna bogadregnar syllur og jafnarma krossa í bogalöguðu lofti innan við upphaflegt hellisop (sem fyllt hefur verið upp í með grjóthleðslu) en slíkar minjar er að finna í ófáum manngerðum hellum í Rangárvallasýslu, sem bent gætu til kristinna trúariðkana í hellunum forðum.
Það fannst Maher ekki síður líklegt því sambærilega neðanjarðarhella væri að finna frá elstu klaustrum í Sýrlandi, en aftur á móti hefur áhugann skort hjá okkur enn sem komið er að verða við tillögum fornleifafræðinga að beita aðferðum fornleifafræðinnar til að varpa ljósi á upphaflega notkun og aldur manngerðu hellanna okkar.

Úr Landsveitinni var haldið til VIMA félaganna Jóhönnu og Brahims á Selfossi sem var endastöð Mahers þann daginn. En þar fræddu þeir Maher og Brahim sem er frá Marokkó okkur yfir kaffibolla um klassíska arabísku, sem þeir félagar beittu fyrir sig eins og ekkert væri.
Margt fleira var spjallað þar til við stöllur kvöddum þau hjón og Maher og héldum vestur fyrir Fjall í okkar heimaborg.

Gleði og ánægja í Maherveislunni í gærkvöldi

Ánægja og gleði var ríkjandi í veislunni sem VIMA félagar efndu til Maher Hafez til heiðurs í gærkvöldi, þriðjudag 12.júlí í Rafveituheimilinu við Elliðaár. Um sextíu manns komu þar saman og urðu fagnaðarfundir þegar Maher heilsaði gömlum ferðafélögum. Hann virtist muna eftir öllum, kættist mjög þegar hann hitti Bjarnheiði og sá hvað hún var hress og spræk og sagði raunar að hann hefði alltaf talið að þrek sem hún sýndi þegar hún fótbrotnaði í Sýrlandsferðinni
og lét það ekki hefta sig væri einstakt og á fárra færi. Um leið og Maher sá Einar bar hann hönd upp að eyra, enda Einar þekktur fyrir eftirminnilega eyrnalipurð. Og mætti svo lengi telja.

Veislunefndin hafði mætt síðdegis, sett upp borð, skreytt með blómum og kertum og á skjá voru sýndar myndir úr aðskiljanlegum Sýrlands/Líbanons/Jórdaníuferðum.

Maher sagði við mig að hann væri dolfallinn og hrærður yfir því að allt þetta fólk - og raunar fleiri en gátu komið til fagnaðarins - hefðu tekið sig saman um að bjóða sér til Íslands og vildu svo ofan í kaupið heiðra sig með þessari veislu.

JK bauð gesti velkomna og sagði fólki lítillega frá því sem Maher hefði séð fyrstu vikuna á Íslandi og þakkaði öllum kærlega fyrir að hafa lagt málinu lið.
Svo var hrópað kröftuglegt ferfalt húrra fyrir Maher.

Að því búnu skar Lalli kokkur ljúffengt lambakjöt ofan í viðstadda og allir tóku hressilega til matar síns. Í eftirrétt voru rjómapönnukökur og kaffi.

Maher þakkaði síðan með góðri ræðu og ítrekaði ánægju sína með Íslandsveruna. Hann sagði að fyrir komuna hefði honum aldrei dottið í hug að til Íslands gæti verið eftirsóknarvert að fara í frí en nú hefði hann skipt um skoðun og það hressilega. Hann talaði um birtuna á nóttunni og fagra náttúru sem hefði heillað hann og hann hefði ekki trúað því að óreyndu að slíka fegurð væri að finna.

Aðrir sem töluðu voru Jón Helgi úr Hveragerði og Elísabet Jökulsdóttir og mæltist báðum snöfurlega og skáldlega að vanda.

Menn sátu síðan yfir kræsingum og skrafi og áttu góða stund og glöddust einnig yfir þessu tækifæri til að hittast.

Í veislulok tók Akranesfjölskyldan Maher síðan með sér í Borgarfjörðinn og stendur til að þau fari með hann á Snæfellsnes og út í eyjar og ef til vill fleira.

Veisludaginn hafði Maher farið ásamt marokkoskum VIMA félaga og konu hans, í Skálholt og síðar rennt við á Stokkseyri og Eyrarbakka. Hjá þeim gisti hann nóttina áður.

Bíð nú eftir að ferðahópurinn sem fór með gesti okkar í Þjórsárdal og Landmannalaugar skili inn smáferðaskýrslu.

Að gefnu tilefni: Ómanfarar verða boðaðir til fundar síðla ágústmánaðar. Nokkrir skráðu sig áhugasama í veislunni og bið ykkur að láta vita ef þið hafið hug á að sækja þennan fund.

Myndakvöld Jemen/Jórdaníuhópsins hefur dregist af ýmsum ástæðum en verður tilkynnt áður en langt um líður. Verið svo góð að fylgjast með því.

Munið veisluna í kvöld kl. 18

Minni ykkur vinsamlegast á veisluna í kvöld kl 18. Bið þá örfáu sem hafa ekki gert upp, 1500 kr. fyrir matinn að leggja inn á reikninginn minn fyrir hádegi.

Einnig bendi ég á að íslenskt vatn er á boðstólum en mönnum er meira en velkomið að taka með sér eitthvað sterkara ef þið viljið.

Sjáumst í kvöld.

Gullni þríhyrningurinn á laugardag

Maher
og Vima-félagar; Þóra J., Herta, Birna, Jón Helgi, Guðlaug Pé og Júlíus Kolbeins fóru hinn klassiska hring sem ferðamenn fara, Gullfoss, Geysir og Þingvellir s.l. laugardag.

Komið í Hveragerði kl. 10 á laugardagsmorgni til Jóns Helga og Jónu í morgunkaffi ala Jóna, nýbakað bananabrauð og ilmandi kaffi.Jón Helgi var á sightseeing-skónum og fékk til liðs við okkur Júlíús vin sinn sem bílstjóra.

Fyrst farið að Gullfossi og dvalið góða stund í sýnishornaveðri. Gullfoss heillaði Maher, myndaði mikið með símanum og hefði glaður viljað hafa upptökutæki til að eiga kraft fossins á bandi.Regnbogann vantaði alveg en hinn stillti Maher var frá sér numinn og lét veðursýnishornin ekki á sig fá. En þessi dagur bauð upp á afskaplega margbreytilegt íslenskt sumarveður. Við nöldruðum en Maher var sæll.
Aröbum finnst rigningin góð og fossar heilla þá upp úr stígvélunum.

Næst kom Geysis-svæðið.Hverasafnið skoðað og höfðum við íslendingarnir ekki séð það áður og vorum öll mjög hrifin, fallegt og fagmennskulegt safn. Gaman að sjá þar bandaríska skólakrakka með glósubækurnar.Strokkur gaus nokkrum sinnum okkur til heiðurs og er við höfðum fengið nægju okkar af hverum og hveralykt var stungið sér inn á Hótel Geysi í súpu og salat.

Síðan var skundað á Þingvöll. Þar var hin ægifagra Peningagjá fyrsta stopp og krónan góða látin detta og óskir þuldar.Nestispakkinn opnaður, kaffi og súkkulaðikex maulað. Við það hresstist liðið og var gengið um Almanngjá og að Drekkingarhyl.
Alltaf jafn gaman að koma á Þingvöll, fegurðin og sagan sem við kunnum misvel hefur áhrif á okkur íslendingana sem vorum enn að býsnast út í veðrið en Maher okkar var sæll og yfir sig hrifinn.(Reyndar feginn að vera laus við rústirnar)

Haldið til Hveragerðis þar sem Jóna beið okkar með dýrindis laxapottrétt og rabbabaraköku sem við gerðum góð skil. Jóhanna K og Elísabet Jökulsd. brunuðu austur til að vera með okkur í þessari veislu. Urðu síðan fjörugar umræður um Þingvelli og þinghald áður fyrr.

Maher var mjög ánægður með fyrstu dagana. Hann tók sérstaklega fram að hann teldi að Guðrún Halla, sem hann var í ferð með á föstudeginum um Reykjanesið ásamt Fríðu Björnsd. hlyti að vera snjallasti bílstjóri á Íslandi og þó víðar væri leitað. Hún hefði farið um malarvegi eins og hún æki á hraðbrautum.

Við kvöddum Maher sem gisti hjá Jóni og Jónu. Aðrir Vima-félagar tóku við honum á sunnudag. Þá lá leiðin í Þjórsárdal og síðan í Landmannalaugar.

Við skemmtum okkur afskaplega vel, og heyrðum ekki annað á Maher en hann væri hæstánægður með daginn.

Viljum við sérstaklega þakka Jónu og Jóni Helga fyrir frábæra móttökur

Ferð um Reykjanesið með Höllu Guðmundsd og Fríðu Björnsd

Föstudag 8.júlí
fór Maher Hafez með þeim Guðrúnu Höllu Guðmundsdóttur og Fríðu Björnsdóttur í dagsferð á Reykjanesið. Halla sendi mér þennan skemmtilega pistil áðan og finnst tilvalið að þið kíkið á hann.

"Ferðalag okkar Fríðu með Maher um Reykjanesið gekk vel.
Veðrið hefði mátt vera betra, hvasst og grenjandi rigning með
köflum. Það minnti gestinn á sýrlenskan vetur, bara kaldara.

Við byrjuðum á að skoða mjög fróðlega sýningu í orkuverinu í
Svartsengi. Gengum um myndlýsta gjá í kjallara þar sem gefin
var afar glögg mynd af jarðfræðinni og aðferðum gufuvinnslunnar.
M.a.s. gátum við framkallað jarðskjálfta með því að ýta á hnapp, þ.e.
við fengum hávaðann sem var ærinn. Ég held að Maher hefði tekið
næstu flugvél heim hefðum við getað “búið til” hreyfinguna líka.

Þá brunuðum við út á Garðskaga.
Í Sandgerði skoðuðum við sjávardýrasafn. Þar skrifaði hann pistil á sínu
móðurmáli í gestabókina. Fyrsta arabískan í þeirri bók. Einnig snæddum
við þar á “Vitanum” afar góðan steiktan þorsk, og hvítkálssúpu á undan.
Vorum öll að bragða slíka súpu í fyrsta sinn. Hún var góð.

Þá lá leið okkar um Keflavík og að Reykjanesvita. Þar stóð okkar maður á bjargbrún í hvassviðrinu og myndaði brimið með símanum sínum!

Næsti bær var Grindavík og meira brim. Áfram, áfram um hlykkjóttan malarveginn til Krísuvíkur. Þar sáum við Grænavatn og skoðuðum hverasvæðið við Seltún. Óteljandi hringtorg mættu okkur í nýjast hverfinu í Hafnarfirði. Þar var eini staðurinn sem mér tókst að villast. Á endanum komumst við í miðbæinn þar og fengum okkur kaffi.
Sæl og svolítið lúin komum við svo í Hörpugötuna og kvöddumst með virktum."

Þessa stundina er Maher í ferð með sex VIMAfélögum til Þingvalla, Gullfoss og Geysis. Síðan bjóða Jón Helgi og Jóna í Hveragerði þeim í kvöldverð heima hjá sér í Hveragerði.

Maher í sjöunda himni á Íslandi

Maher Hafez, gestur VIMA-félaga, er kominn til landsins og er himinlifandi eftir fyrstu kynni. Hann fór í Þjóðminjasafnið í morgun þar sem Þóra Kristjánsdóttir leiddi hann um salarkynni og sagði honum sögu ýmissa merkra gripa. Svo var löng gönguferð í miðbænum og honum þótti ekki verra þótt veðrið væri þungbúið. Þetta væri fínt gönguveður og ágætt að losna við 36 stiga Damaskushita.
Einnig hafði hann samband við nokkra íslenska vini sem hann langaði að heyra í.
Á næstu dögum verða svo ljúfir og liðlegir félagar á flandri með Maher á hina ýmsu staði og vonandi að það gangi allt prýðilega.
Það verður svo greinilega mjög góð þátttaka í kvöldverðarboðinu þar sem meirihluti þeirra sem stuðlaði að því að hann kæmi til Íslands, munu mæta og borða lambalæri og pönnukökur.
Hef enn ekki fengið svar frá nokkrum og minni á að frestur til að tilkynna sig í boðið er um hádegi föstudags, 8.júlí því við verðum að gera kokkinum viðvart.
Við höfum farið yfir dagskrána sem hefur verið sett upp og ástæða er til að vera glaður yfir því hvað margir leggja hönd á plóg til að þetta verði áfram okkar góða sýrlenska vini og hjálparhellu í Sýrlandsferðunum, hið mesta ævintýri.

'Otrúleg framkoma starfsmanna danska sendiráðsins

Jú, núna rétt áðan var danska sendiráðið í Damaskus að stimpla áritunina í vegabréf gestsins okkar, Maher Hafez. Það er engu líkara en Danir hafi verið ákveðnir í að sýna veldi sitt með því að draga allt fram á síðustu stundu. Jafnvel þó yfirmenn Útlendingastofnunar og fleiri áhrifamenn væru búnir að hafa samband og biðja þá að flýta málinu - enda eru nú tveir mánuðir rífir síðan ég sendi fyrsta bréfið.
En loksins er íslensk áritun komin og mikið er mér létt.

Vil svo benda þeim á sem ætla að taka þátt í kvöldverðinum með Maher og ekki hafa haft samband að láta mig vita SNARLEGA því við þurfum að tilkynna fjölda. Slatti af hjónafólki sem lagði í sjóðinn á t.d. eftir að tilkynna sig.

Þakka fyrir bréf frá þeim sem bjóða fram nærveru og aðstoð á meðan á veru hans stendur.

Þá er að hnýta síðustu lausu Maherendana

Nú hefur verið haft samband, annað hvort með tölvupósti eða hringingum við velflesta sem tóku þátt í að styrkja komu gestsins okkar, Maher Hafez. Þó gengur nokkuð brösuglega að koma skilaboðum áleiðis og er eðlilegt því sumarleyfistíminn er vitanlega í hámarki.

Mig langar að ítreka við þá sem hafa ekki svarað að gera það og þakksamlega er þegin aðstoð þeirra sem ef til vill geta komið boðum áleiðis til þeirra sem eru út og suður.

Maher kemur síðdegis á miðvikudag og áætlun um hvað hann aðhefst liggur meira eða minna fyrir og má þó sannarlega alltaf bæta einhverju við og m.a. vantar nokkra "sjálfboðaliða" í stuttar ferðir eða lengri.

Við höfum svo ákveðið kvöldverðarboðið og hefur gengið vel að fá svör en vildi gjarnan heyra frá fleirum. Margir lögðu málinu lið og um að gera að fá sem flesta í gleðskapinn og því bið ég ykkur að svara imeili hið skjótasta og tilkynna þátttöku eða láta vita ef þið getið ekki komið.