MAHER HEFUR FENGIÐ ÁRITUN - en Danir liggja í því

Jæja, það fór aldrei svo:
Maher Hafez hefur fengið áritun svo nú er að hafa hraðar hendur að koma honum til Íslands 6.júlí eins og áformað hefur verið.

Þetta er þó allt hið kuðlasta mál því danska sendiráðið í Damaskus sem á að sjá um að senda öll gögn til Útlendingastofnunar hefur ekki staðið sig sem skyldi.

Umsóknin barst ekki til Útlendingastofnunar hér fyrr en á mánudag og vantaði þá aðskiljanleg gögn málinu til staðfestingar.

Það má segja að ýtni mín og einstakur velvilji forstöðumanns og starfsmanna Útlendingastofnunar hafi ráðið úrslitum og var ákveðið að veita undanþágu svo Maher fær áritunina án þess að öll gögn hafi borist eins og reglur kveða á um.
Mér finnst frændurnir dönsku hafa staðið sig með afbrigðum slælega í þessu "stórmáli" því nú eru senn tveir mánuðir síðan þeir fengu fyrstu bréfin frá mér um málið.

En gleymum því. Maher fær áritun og forstjórinn Omyyad, Abdelkarim, er nú á hlaupum að kaupa miða handa honum með MALEV til Kaupmannahafnar 6. júlí og ég millifæri úr sjóðnum til hans fyrir miðanum sem verður náttúrlega dýrari af því fyrirvarinn er svona stuttur. Engar áhyggjur af því.
Kaupmannahöfn-Reykjavík-Kaupmannahöfn verður svo kippt í lag snarlega.

Gott mál og gleðilegt og má þakka Hildi Dungal og starfsliði hennar fyrir einstaklega elskulega aðstoð.


ATH reikningsnúmerið er 1147 05 401402 og kt. 1402403979 ef einhverjir vilja bætast við.

ENDURBÆTT ÓMAN'AÆTLUN - lítið endilega á

Ég hef endurunnið Ómanáætlunina og við það fengist sitt af hverju: við skoðum meira og fáum þar af leiðandi meira fyrir okkar snúð. Að vísu eru kvöldverðir felldir niður en mér finnst svo margt annað fást, svo sem flestir hádegisverðir, aukaflugferð innan Ómans, skoðunarferðir, siglingar og fleira að ég er mjög sátt við ferðina í þessari mynd og vona þið verðið það líka.
Hún hefst 1.febr og lýkur 16. febr. Við fljúgum með Flugleiðum til Frankfurt og þaðan með Royal Jordanian. Á heimleið er farið til London og flogið þaðan heim.
Mér kæmi vel ef þátttakendur í Ómanferð vildu láta mig vita hið allra allra allra fyrsta hvort einhverjir vilja eins manns herbergi - vel að merkja, það gjald lækkar um 50 dollara þótt tvær nætur hafi bæst við. Og heildarverðið helst óbreytt.

Fyrirspurnir um haustferðir- spurningar og svör

Góðan daginn, vænu félagar

Þó svo að ferðaáætlanir hafi verið kynntar berast enn spurningar til mín um hvort efnt verði til ferðalaga VIMA nú í haust.
Við því er fjarska einfalt svar. Ég verð ekki með ferðir í haust. Ástæðan er sú að ég áforma að dvelja í Íran í septembermánuði. Í október er svo kennsla hjá Mími símennt í arabísku og fimm kvölda námskeið um arabískan menningarheim. Í nóvember hygg ég á könnunarleiðangur til Ómans í viku eða tíu daga til að fara yfir febrúaráætlunina og kíkja á þau hótel sem við notum. Sum þeirra þekki ég en önnur ekki.

Vegna fyrirspurna um Sýrland/Jórdaníu í apríl bendi ég á að hún hentar einkar vel kennslufólki þar sem menn þurfa ekki að taka sér marga aukafrídaga. Þetta mættu VIMA félagar láta ganga áfram til þeirra sem eru áhugasamir og hafa ekki netfang.

Að gefnu tilefni: Maher hefur ENN ekki fengið vegabréfsáritunina. Síðustu fréttir eru þær að líkast til gangi það þó í gegn á morgun, mánudag. Ekki má það öllu seinna vera en þá verður loks hægt að hnýta síðustu endana.

Á fundinum s.l. þriðjudag lét Einar Þorsteinsson mig hafa fjöldann allan af diskum með myndum úr Jemen/Jórdaníuför í maí. Ekki þarf að fjölyrða um að þær eru í einu orði sagt frábærar og mun ég biðja tæknistjórann okkar að setja eins margar og hægt er inn á síðuna. Maður fær hreinlega vatn í munninn og vill helst stökkva af stað aftur þegar rennt er yfir myndirnar.
Í leiðinni minni ég á ferðasögu Erlu Magnúsdóttur úr þeirri ferð sem er hér á síðunni til hægri.

Þakka svo fyrir góðar undirtektir við Fatimusjóð og Perlum og steinum. Hafið samband út af því og öðru og skrifið gjarnan í ábendinga og tillögudálkinn. Það skilar sér allt.

Ítreka í lokin að óákveðnir Íransfarar ættu að hafa samband fyrr en seinna.

Tvær Íransferðir 2006 - tek nokkra á biðlista í Óman

Nýju áfangastaðirnir tveir, Íran og Óman hafa sannarlega gert lukku hjá VIMA félögum.


Eftir öllum sólarmerkjum að dæma verða tvær ferðir til Írans á árinu 2006, önnur - og þar með fyrsta hópferð íslenskra sem ég veit um- upp úr miðjum ágúst og hin viku af september. Ef einhverjir fleiri eru að íhuga Íran þurfa þeir greinilega að ákveða sig fyrr en síðar. Nú eru 36 ákveðnir og 5 að bræða þetta með sér.

Ómanferðin - sem er einnig fyrsta hópferð Íslendinga til Óman- er fullskipuð nema forföll verði en get tekið 2-4 á biðlista.

Þetta eru hressilegri undirtektir en ég bjóst við. Sýrland/Jórdanía og Jemen/Jórdanía eru á góðu róli en ég hvet sérstaklega til að menn tilkynni sig í Sýrlandsferðina fljótlega vegna þess við erum þar um páska sem er annatími - svo fremi sem hægt er raunar að tala um annatíma í ferðaþjónustu í þessum löndum. Nú eru 24 bókaðir í Sýrlandsferð og má bæta sex við. Þarf að hafa það á hreinu áður en mjög langt um líður.

Bendi Ómanförum enn og aftur á að þeir þurfa að greiða staðfestingargjald 1.september til að vera öruggir.

Varðandi Íran: nokkrir hafa látið mig vita í hvora ferð þeir vilja fara. Ef ekki tekst að raða því niður svona nokkurn veginn til helminga þurfum við að draga um það. Ágúst er góður mánuður veðurfarslega í Íran og taldi hann heppilegri en júní enda Jemen/Jórdanía í maí.

Mun svo boða Ómanfara til fundar ekki seinna en um 20.ágúst. Er að láta yfirfara áætlunina. Ég minntist á að bæta við 2 dögum og ef það breytir ekki verði að neinu marki finnst mér það heillaráð.

Troðfyllir á ferðafundi í dag

Það var sérlega gaman að efna til fundarins í dag því yfir 70 manns streymdu á fundinn um ferðirnar 2006 og þó voru æði margir sem ekki gátu komið og höfðu boðað forföll. Dreift var sæmilega ítarlegum áætlunum - sem einnig má glugga í hér á síðunni til hægri.
Sumir skráðu sig í tvær ferðir, oftast Óman og Íran. Nokkrir gefa svar síðar og má það ekki vera öllu seinna en í september og í síðasta lagi október. Flestir óákveðnu svara innan tíðar.
Svo gæddu menn sér á rúsínum, döðlum og fíkjum og sötruðu te eða kaffi, skoðuðu myndir og diska og var þetta hið mesta fjör.
Nú hefur 91 skráð sig í ferðirnar og enn mega menn bætast við og hafið óhikað samband. Mér sýnist þó liggja í augum uppi að VIMA félagar vilja vera snemma á ferðinni.
Eygló Ingvadóttir sem er orðheppin manneskja og hefur þegar farið í Sýrlands/Líbanonferð og hyggur á Jemen/Jórdaníuferðina ásamt viðeigandi fylgdarliði sagði að ferðum til Miðausturlanda mætti líkja við veiru. Hún væri ólæknandi og blossaði upp af slíkum krafti að ógerlegt væri annað en taka mark á henni.

Ég bið þá sem eru að hugsa sitt ráð að hafa samband fljótlega og nýir eru velkomnir.

Þá voru allnokkrir sem greiddu félagsgjöld og ég hvet þá sem ekki voru með peninga handbæra að kíkja á línkinn Hentug reikningsnúmer þar sem þið getið séð hvar á að leggja inn 2 þús. kr. félagsgjald.

Loks skal nefnt að myndakvöld Jemen/Jórdaníuhópsins í maí s.l. verður á næstunni og ég hef samband við alla í þeirri ferð og vona að allir í þeim góða og skemmtilega hóp geti komið.

Takk fyrir sérstaklega góða stund, þröngt máttu sáttir sitja og tóku því allir með gríni og jafnaðargeði.

Munið að greiða félagsgjöldin í VIMA á fundinum í dag

Góða kvöldið öll
Fyrst skal frá því greint að allnokkrir hafa snöfurlega greitt inn á Fatímureikninginn eftir að fregnir komu af því að nú er útlit fyrir að þau mál fari að skýrast. Það vekur mér hina mestu kæti og takk fyrir það.

Þá hefur Vera Illugadóttir, aðstoðartækniststjóri, johannatravel vitanlega leyst málið með Ómandiskinn svo nú geta menn horft á myndir þaðan á fundinum á morgun.

Einnig er ég með prýðilegan Íransdisk og slatta af diskum frá Jemen, Jórdaníu og Sýrlandi og einn úr Egyptalandsferðinni. Þá er tilbúinn búnki af áætlunum um allar ferðirnar og vonandi finna sem flestir eitthvað við sitt hæfi.

Gjaldkeri VIMA, Guðlaug Pétursdóttir og væntanlegur Ómansfari, mun mæta á svæðið og veifa rukkunarhefti því nú væri ráð að greiða félagsgjöldin. Þau eru nú ekki há, 2000 kr. og nokkir hafa raunar innt þessa greiðslu af hendi án þess að vera rukkaðir. Það skal á það bent að félagsmenn í VIMA hafa forgang í ferðirnar.

Um miðjan ágúst er væntanlegur hingað til lands í heimsókn palestínskur blaðamaður sem hefur verið búsettur í Danmörku síðustu áratugina. Hann hefur sérhæft sig í Óman og mun halda myndasýningu þaðan og flytja fyrirlestur m.a. um Óman og verður sagt frá því betur þegar nær dregur og ástæða til að hvetja VIMA félaga til að fylgjast með því, hvort sem þeir hugleiða Ómanferð núna eður ei.

Svo minni ég menn á að koma stundvíslega kl. 17,30 á fundinn á morgun, þriðjudag 21.júní.
Sofið blítt og rótt.

Góðar fréttir af sjóðsmálum ! Verið nú með!

Í morgun fékk ég upplýsingar frá Jemen um peningamál varðandi það að styrkja Fatímu í Þúla í Jemen til náms. Jemensk kona, sem einna fyrst lauk læknanámi þar í landi hefur fallist á að verða fjárhaldsmaður hennar. Nú er verið að kanna með menntaskólanám hennar en einnig er augljóst af undirtektum að við getum tekið fleiri stúlkur og lagt fram peninga til að þær komist í háskóla. Íslenska konan Tanya Alameer sem hefur verið að athuga þetta fyrir mig segist hafa þó nokkrar stúlkur í huga sem hún telji tvímælalaust að ættu að komast í nám líka.
Hún segist geta útvegað þeim örugga og trausta fjárhaldsmenn sem mundu sjá um þá hlið svo peningarnir nýttust til fulls.

Mér fannst skemmtilegt að þessar upplýsingar skyldu berast til mín 19. júní!

Ég hef skrifað íslenskri konu, sérfróðri, og beðið hana að gera drög að skipulagsskrá og vonast til að hún geti annað hvort gert það sjálf eða ráðlagt mér í því efni. Það er ekkert vit í öðru en hafa þetta pottþétt svo allt komi að gagni. Einnig sagði ég henni frá verkefninu í flóttamannabúðunum Palestínumanna í Sjabra og Sjatila í Líbanon. Þar hafa nokkrir íslenskir hópar lagt hönd á plóg og með þessu mætti gera þá hjálp meiri og markvissari.

Ég hef tekið eftir því að nokkrir hafa lagt reglulega í sjóðinn og þakkir eiga allir fyrir það. Birti aftur reikningsnúmerið 1151 15 551130 og kt. 1402403979 ef þið viljið leggja þessu lið. Þegar formleg sjóðstofnun er komin í kring segi ég svo frá því hér.

Þegar henni er lokið, skipulagsskrá liggur fyrir ætla ég svo að kynna þetta opinberlega og leita eftir stuðningi frá fyrirtækjum líka. Það væri ofboðslega gaman ef við gætum haft þetta myndarlegt. Ein stúlka í Jemen sem kemst í nám er stórkostlegt, þar sem konur hafa ekki fengið tækifæri. Tvær stúlkur væri enn betra. Að ekki væri nú talað um þrjár eða fjórar. Það væri mikill og merkilegur áfangi og við mættum vera ánægð með að leggja lóð á vogarskál. Ég er viss um að þeir sem hafa farið í Jemenferðirnar styrkja þetta. En vonandi langtum fleiri líka.

Ég er svo kát í dag yfir því að þetta virðist nú að komast á rekspöl. Mér þætti afar vænt um ef þið vilduð láta þetta ganga til fleiri, t.d. ættingja og vina sem vildu vera með. Ef margir leggja þó ekki væri nema fimm hundruð til þúsund krónur á mánuði í verkefnið erum við á grænni grein. Íhugið það og kærar þakkir til þeirra sem þegar eru með.

Minni svo á fundinn á þriðjudaginn kl. 17,30 í gamla stýrimannaskólanum við Öldugötu(fyrir enda Stýrimannastígs)
Nú lítur minn listi svona út:
Áhugsamir um Íran 39 ( ef svo fer sem horfir gætu orðið 2 Íransferðir)
Óman 24 (tek ekki fleiri en 25)
Sýrland 22 (miðað er við 30-32)
Jemen 14 (miðað er við 21)
Áhugsamir um ýmsar ferðir 16.
Það eru ekki allir sem komast á fundinn en eftir svörum að dæma mjög margir svo ég er hin vonbesta.
Vona að nægilega margar áætlanir verði tilbúnar. Hef diska frá Íran, Sýrlandi og Jemen og Vera Illugadóttir, ömmustelpa er að athuga hvaða tölvu Ómandiskurinn passar í.
Munið að koma stundvíslega.

Ætla að hafa með nokkur aukaeintök af Perlum og steinum ef einhverjir fleiri vilja kaupa. Kostar 500 kr og rennur allt í Fatímusjóðinn.







Ferðasaga frá Jemen/Jórdaníu. Lítið á hana

Í gær sendi þátttakandi í Jemen/Jórdaníuferð í maí sl. mér ferðasöguna. Hún sagðist hafa skrifað hana til að þurfa ekki einlægt að endurtaka allt. En kannski var hún líka að þessu- eins og hún leiðir getum að sjálf - til að glöggva sig á ferðinni og á sjálfri sér í ferðinni og allt það.
Mér fannst alla vega sagan skemmtileg og bað Erlu leyfis að setja hana á síðuna. Hún féllst góðfúslega á það. Alltaf er skemmtilegt að fá nýtt sjónarhorn og hún tekur líka eftir ýmsu sem ég geri ekki sérstaklega. Rétt eins og er í ferðalögum þar sem atburðir, stemning og staðir höfða til okkar á mjög mismunandi vegu.
Kíkið á hérna til hægri. Ferðasaga frá Jemen/Jórdaníu eftir Erlu Magnúsdóttur.

Nokkrir á listanum mínum hafa ekki staðfest sig á fundinn. En þeir eru ekki margir og ég bið þá að gera það. Ef allt fer að líkum verður ansi margt fólk og ég vona að menn komi stundvíslega. Það er nauðsynlegt.

Bendi svo áhugasömum um Óman að áætlunin er komin á línkinn sinn. Tek fram að það gæti komið til mála að lengja þá ferð um 2-3 daga og ég áskil mér rétt til að gera smávægilegar breytingar á því plani. En hún verður í öllum meginatriðum á þessa leið.

Og nú fer ég sem sagt í Suðursveitina.

Góðar undirtektir við nýja útlitinu. Hér á eftir kemur svo frétt!

Það verður ekki annað sagt en góðar og miklar undirtektir hafi verið við breyttu og endurnýjuðu útliti á Hugarflugi. Takk kærlega fyrir allar kveðjur og þakkir líka til þeirra sem panta Perlur og steina í óða önn. Hef þegar sent nokkrar í pósti en allmargir ætla að taka þær með sér af fundinum næsta þriðjudag. Það fara að verða síðustu forvöð að tilkynna sig á fundinn.

Ég var spurð í gær hvort tekist hefði að safna nægilega til að standa straum af boði okkar til Maher Hafez og svarið er játandi. Þar munar mestu að síðasti hópur greiddi allur eins og hann lagði sig og er til sannrar fyrirmyndar. Einnig lögðu ein væn VIMAhjón sem þegar höfðu greitt 10 þúsund kr. til viðbótar á reikninginn svo mér sýnist allt vera í sóma hvað þetta snertir.

Nú frá því er að segja að ég hef fengið athyglisverða fyrirspurn frá þekktum músíkmönnum íslenskum um tónleikaferð til Sýrlands næsta vor. Hef byrjað stúss við það og haft samband við ýmsa kunningja sem gætu veitt liðsinni. Ekki að vita hvort úr verður en gaman að athuga það.

Hvet ykkur sem ekki hafi tilkynnt komu á fund að gera það í dag og í síðasta lagi á morgun. Hafið sömuleiðis Perlur og steina bak við eyrað.

Skaust áðan með myndir sem ég tók í Íran í febrúar s.l. í Hans Petersen og verða diskar tilbúnir á fundinum á þriðjudag. Engar listamyndir en gefa þó hugmynd. Einnig hefur ferðaskrifstofan okkar í Teheran sent mér forláta kynningardisk.


Er að bræða með mér að skreppa í Suðursveitina á morgun og vera í nokkra daga og fyrir þann tíma þarf allt að vera klappað og klárt.

Nýtt útlit - húrrahróp fyrir tæknistjóranum

Það fer ekki framhjá neinum að það er komið nýtt og mikið fallegt útlit á síðuna. Þetta dúllaði tæknistjórinn og ömmubarnsmóðir mín, Elísabet Ronaldsdóttir, sér við í gærkvöldi og á heiður skilið fyrir. Vona að menn séu ánægðir með þetta. Þakka Dominique kærlega fyrir myndina af okkur félögunum, úlfaldanum og mér, sem ég leyfði mér að setja inn sem eins konar lógó síðunnar. Sómir sér virkilega vel.

Það er augljóst að margir vilja mæta á fundinn og hafa tilkynnt sig. Er glöð yfir því að allir virðast vilja koma í ferð með VIMA -johannatravel á næsta ári.

Þá er ég mjög kát yfir því að undirtektir við Perlum og steinum hafa verið ötular. Ýmsir sem hafa pantað hana geta kippt henni með sér á fundinum. Sendi til annarra. Takk fyrir það.

Vakin hefur verið athygli mín á að Ómanferð er auð. Það er vegna þess ég tók út fyrri áætlun og set nýju inn, vonandi seinna í dag.

PERLUR OG STEINAR í FATÍMUSJÓÐ

Mín kæru.
Ég á ein fimmtíu eintök af Perlum og steinum - árunum með Jökli í þeirri endurútgáfu sem ég gaf út fyrir nokkrum árum.
Ef VIMA félagar vilja eignast bókina fá þeir hana á 500 kr plús burðargjald.
Ég ætla að láta þessa peninga renna í Fatimusjóðinn.
Mér þætti vænt um þið hefðuð samband skjótt og þið getið lagt upphæðina 500 plús inn á sama reikning 1151 15 551130 kt. 1402403979.

Vonast til að heyra frá áhugasömum.

Vel að merkja: var að fá svar frá Útlendingastofnun. Þeir ætla að hafa samband við Danska sendiráðið í Damaskus sem sér um áritun fyrir Maher og spyrjast snarlega fyrir. Gott hjá þeim.

Maher, Fatíma og fleira gúmmulaði

Góðan daginn og blessaðan
Hillir loks undir að það sé hægt að hefja skipulega vinnu við Fatímustyrkjamálin, því ég hef fengið konu í Jemen ( hún er hálf íslensk náttúrlega og búsett í Jemen) til að gera nákvæma áætlun um kostnað við það að styrkja Fatímu og etv. tvær stúlkur aðrar til náms. Þegar hún hefur látið mig vita um þetta sem ég býst við að verði áður en langt um líður verður svo búin til ítarleg reglugerð um sjóðinn og farið að leita eftir framlögum í hann á markvissan hátt.

Það er samt lofsvert og skal þakkað virktavel að nokkrir leggja inn á reikninginn mánaðarlega upphæð frá 500-2500 kr. Reikningsnúmer er 1151 15 551130 og kt. 1402403979.

Varðandi Maher hinn elskulega og væntanlega gest VIMA er það að frétta að vegabréfsáritun hans hefur ekki verið afgreidd enn ! Ótrúlega mikil skriffinnska. Hann reiknar þó með að fá svar og við skulum vona það verði jákvætt þegar hann skundar í sendiráðið mánudaginn 20.júní. Hef sömuleiðis sent nokkrum hérna innanlands afrit af bréfum um málið í þeirri von að það flýti fyrir. Um leið og dagsetningar eru klárar á komu Mahers getum við svo drifið í að hafa samband við þá sem hafa lýst vilja til að fara með Maher á hina ýmsu staði eða hafa boðið fram gistingu hér og hvar.

Fékk spurningu um það í morgun hvort ferðafundurinn þriðjudaginn 21.júní væri fyrir allar ferðirnar og það skal ítrekað að svo er. Það er orðinn vænn hópur sem hefur tilkynnt sig á fundinn og ég vona að þeir sem eiga eftir að gera það drífi í að láta mig vita. Upp á tebirgðir en einnig til að ég hafi nú nóg af áætlunum og plönum.
Augljóst er að Íransferðin er orðin full ef allir sem hafa tilkynnt sig ákveða að fara í ferðina. En auðvitað er sjálfsagt að taka niður fleiri nöfn og það skyldi enda með tveimur Íransferðum!
Það væri skemmtilegt. Þið getið lesið áætlunina hérna til hliðar á Íranlínk.
Sama máli gegnir um hinar ferðirnar. Þær eru allar hér og dagsetningar hafa verið birtar og mun ekki skeika að ráði.

Ómanáætlun í skýrri mynd er þó ekki komin. Síðustu svör frá ÓMAN voru þó að ég fengi hana á morgun. Ástæðan er sú að ég ætla að lengja ferðina um 1-2 daga og reikna inn í fleiri máltíðir og bæta við smálegu. En þið fylgist með og þetta verður aukinheldur allt klappað og klárt fyrir
fundinn.

Hef bætt inn fáeinum orðum á línkinn um hótel í ferðunum. Bara svona smáupplýsingar.


ÍTREKA SVO ENN AÐ ÞEIR SEM VILJA KOMA Á FUNDINN OG HAFA EKKI LÁTIÐ VITA GERI ÞAÐ NÆSTU TVO TIL ÞRJÁ DAGA.
Ég er með alla á listum sem þegar hafa tilkynnt sig. Ath. það.

ÍRANSÁÆTLUN TILBÚIN - kíkið líka á bætta og breytta Egyptalandsferð, svo og Sýrland/Jórdanía

Vek allra blíðlegast athygli á að ég var að setja nokkurn veginn fullburða áætlun um ferð til Írans inn á línkinn og hvet ykkur til að lesa það. Mér heyrist vera mikil ásókn í þá ferð og nauðsynlegt að menn láti vita sem fyrst og ekki síðar en á ferðafundinum í gamla Stýrimannaskólanum 21.júní(hefst kl. 17,30). Margir eru þegar ákveðnir og gott hvað Íran fær hressilegar undirtektir enda hægt að lofa spennandi ferð.

Þá hef ég lengt og endurbætt Egyptalandsferðina eins og sjá má á þeim hlekk.

Sýrlands/Jórdaníuferðin er líka komin í þeim búningi sem hún verður. Menn virðast fagna því að sú ferð ber upp á páska svo menn geta nýtt sér frídaga.

Jemen/Jórdanía verður í þeirri mynd sem hún var farin nú og mætir inn á sinn línk í kvöld. Sú ferð er augsýnilega að festa sig í sessi og furðar sig enginn á því sem hefur farið í hana.

Einhver smátöf er á að ég geti sett Ómanáætlun í lokamynd inn. Það verður þó fyrr en síðar.
Kíkið á þessar áætlanir, gæskurnar mínar og látið óspart í ykkur heyra.

Myndakvöld hjá Sýrlands-og Jórdaníuförum

Myndakvöld Sýrlands og Jórdaníuhópsins 10.-25.apríl var haldið í kvöld í Kornhlöðunni. Þar var prýðisgóð þátttaka og fagnaðarfundir urðu með fólki. Margir voru hlaðnir myndum og Magnús kom með útbúnað til að sýna tölvumyndir og varð myndaskoðun til þess að rifja upp margt í ferðinni.
Við snæddum ágætis kjúklingasalat og kaffi og menn undu sér vel. Nokkrir notuðu tækifærið og létu í ljós hug á að koma á ferðafundinn 21.júní n.k sem er sagt frá hér að neðan og nokkrir skráðu sig raunar í ferðir á næsta ári.

JK sagði frá því að þessi hópur væri að því leyti einstakur að allir hefðu reitt fram 2000 kr. á mann til að stuðla að komu Mahers og verður haft samband við alla þá sem hafa greitt í þann sjóð og efnt til margs konar uppákoma þegar hann mætir - insjallah.
Við sátum lengi að salatáti og kvöddumst svo með virktum þegar liðið var á kvöld.

Tek fram að linkurinn Hentug reikningsnúmer er kominn á síðuna. Þar eru númerin sem menn skulu greiða félagsgjöld VIMA, annar reikningur fyrir þá sem vilja styrkja Fatimusjóðinn. Einnig verður gengið frá formlegri stofnskrá að honum og reglur samdar svo allt sé nú í lagi. Loks er svo reikningur til að borga inn á ferðirnar. Muna bara að láta kennitölu ykkar fylgja með. Vona að þetta sé skýrt og skilmerkilegt.

Þá hefur tæknistjórinn okkar fengið Egyptalandsdiska í hendur og plokkar nú út búnt af myndum úr Egyptalandsferðinni og setur inn undir nýjum link Myndir úr Egyptalandsferð.

Að gefnu tilefni er rétt að nefna að myndakvöld síðasta hóps vorsins Jemen/Jórdanía verður haldið eftir nokkrar vikur og ég sendi þátttakendum tölvupóst þar að lútandi.

FUNDARDAGUR ÁKVEÐINN- 21.júní kl. 17,30

Vinsamlegu VIMA félagar.
Þá er klappað og klárt að fundur um ferðir 2006 verður í gamla Stýrimannaskólanum við Öldugötu(fyrir enda Stýrimannastígs) þriðjudaginn 21.júní kl. 17,30.
Þar mun verða skrafað og skeggrætt um ferð til
ÓMANS 1.-2febr-16-17.febr.
Egyptaland um miðjan mars
Sýrland/Jórdanía í apríl
Jemen/Jórdanía í maí
Íran í september.

Verð með áætlanir og þær harla nákvæmar og sömuleiðis er ég með diska með myndum frá öllum áfangastöðunum.

Í augnablikinu er ég með á listum mínum yfir áhugasama 22 í Óman, Sýrlands/Jórdaníuferð eru 19, Jemen/Jórdanía eru 12, Íran eru 26.
Allt þetta fólk og fleiri mættu bætast við VERÐUR að mæta eða láta vita af sér. Það er mikilvægt því ég þarf að skila farþegalista mjög snemma fyrir Óman og Sýrland er með hvað mesta trafik á þeim tíma sem ég plana þá ferð svo það þarf einnig drjúgan aðdraganda. Jemen/Jórdanía verður að komast að mestu á hreint fyrir septemberlok og Íran þarf sömuleiðis allnokkra sinnu.

Allmargir hafa látið mig vita þegar að þeir vilji sækja þennan fund en ég hef þó ekki heyrt í öllum sem hug höfðu á að fylgjast með ferðunum. Þess vegna bið ég ykkur lengstra orða að láta þetta ganga til þeirra sem þið kannist við og vitið að eru að pæla í þessum reisum johannatravel. Einnig að hafa samband við þá sem hafa ekki imeil og svo til annarra þeirra sem fara ekki reglulega inn á póstinn sinn.

Við fáum okkur te og kaffi og rúsínur og eigum þarna saman góða stund. Þeir sem hafa þegar látið mig vita þurfa ekki að staðfesta sig aftur en vonast til að heyra frá æðimörgum enn. Sjáumst sem sagt 21.júní kl. 17,30.
Það stendur svo það sem ég skrifaði í gær að fullkomin Ómans og Íransplön verða sett inn á síðuna á morgun eða miðvikudag.

ÁRÍÐANDI UM ÓMAN OG ÍRAN

Það er blessuð blíðan eins og fyrri daginn.
Áríðandi að menn viti að n.k. þriðjudag, í síðasta lagi miðvikudag liggur pottþétt og frágengin Ómanáætlun fyrir, þar sem nákvæmlega er tekið fram allt sem við gerum þar og hvað er innifalið og hvað ekki. Vinsamlegast áhugasamir Ómanfarar fylgist með því. Get staðfest að við munum nota Royal Jordanian frá Frankfurt eða London til Múskat höfuðborgar Óman og til baka og ég veit að þeir sem hafa t.d. verið í Jemen/Jórdaníuferðum og flogið með RJ munu kætast yfir því.

Þá er ég að hnýta síðustu hnútana á Íranferðina í september 2006 og fullkomin áætlun mun birtast á allra næstu dögum. Fylgist vinsamlegast með því.

Ágætt ef væntanlegir þátttakendur vilja síðan prenta út þessar áætlanir ÞEGAR þær hafa verið endurbættar og hafa með sér á fundinn sem ég ætla að halda fljótlega.

Bendi á að ég verð ekki með ferð í haust þar sem ég þarf að sinna öðru verkefni í september. En hef þegar fengið fregnir af því að páskaferðin er að verða ansans ósköp vel skipuð. Mun í þeirri ferð halda mér við sams konar áætlun og var nú í apríl og Jórdanía verður inni og ég bíð með að taka Líbanon aftur. Enda virtist þetta plan vera til fyrirmyndar. Reikna einnig með að halda mér við þau hótel sem við notuðum í þeirri ferð og finnst kjörið að við gistum eina nótt í Eyðimerkurbúðunum eins og síðast. Það var svo frábært.
Vek athygli á að ferðin til Sýrlands og Jórdaníu er í apríl og páskar koma þar inn í.

Einnig mæltist sú breyting vel fyrir sem ég gerði á Jemenáætluninni nú síðast svo fyrir að ég ætla að fylgja henni í næstu ferð, maí 2006.

Margir hafa látið mig vita um að þeir vilji gjarnan koma á fundinn um ferðirnar 2006 og gott er það allt saman. Vil taka fram að fólk skuldbindur sig ekki þó það mæti til fundarins - en trúlega verð ég að vera nokkuð snemma með farþegalistann til Ómans.

Vek athygli á því að endurbætt Egyptalandsáætlun er komin. Klikkið á þann link. Okkur Ragnheiði Gyðu fannst að fenginni reynslu, nauðsynlegt að lengja ferðina um 3 daga því of lítill tími vannst til að vafra um í Kairó. Einnig bætti ég við degi í Aswan. Nokkrar aðrar breytingar og vænti ég að allar verði til bóta og aukinnar ánægju.

Þá er það af Mahermálum að frétta að hann hefur nú skilað inn í Danska sendiráðið í Damaskus öllum þeim plöggum sem íslensk stjórnvöld óska eftir og fær vonandi vegabréfsáritunina um 20.júní og ætti þá að geta komið skv. áætlun um 6.júlí.

Sem sagt mín ljúfu: fylgist vandlega með og einnig dagsetningu margnefnds fundar. Ætla að ganga frá því dæmi á morgun. Sæl í bili - ætti maður ekki að drífa sig út í garð og sýna lit á að hreinsa öggulítið. Sjáum til með það.

DAGSETNINGAR LIGGJA FYRIR Á FERÐUM 2006

Þá hefur nokkurn veginn tekist að ganga frá dagsetningum ferðanna 2006. Frávik vonandi ekki neitt sem skiptir máli.

ÓMAN 2.-17.febrúar

Sýrland/Jórdanía (eða Líbanon) 7.-22.apríl. Páskar koma inn í þessa ferð.

Jemen/Jórdanía 8.-26.maí

Íran 1.-17. september.

Menn skyldu vera svo vinsamlegir að láta þetta ganga til kunningja sem þeir vita að eru áhugasamir. Eins og ég hef sagt áður stefni ég að því að hóa fólki saman til skrafs og ráðagerða fyrir lok júnímánaðar.
Vænu félagar
Látið í ykkur heyra og það hið skjótasta.