ÁR'IÐANDI TILKYNNING TIL LJ'UFLINGA

Eins og fram hefur komið verður fundur með væntanlegum Sýrlands og Líbanonsförum innan tíðar. Mun segja frá fundardegi og fundarstað fljótlega. Fylgist með hér á síðunni.

Enn eru þrjú pláss laus og mætti raunar hafa þau fjögur ef út í það væri farið. Vegna hækkandi olíuverðs og einnig sakir þess að Miðausturlandamenn átta sig á því ekki síður en við að evran er að verða sterkari og traustari gjaldmiðill en dollar, strögla ég við að halda verðinu óbreyttu. Það gæti brugðið til beggja vona ef ekki næst full þátttaka.

Kátu Líbanons og Sýrlandsfarar. Beitið áróðurstækni ykkar óspart og sannfærið góða og skemmtilega vini ykkar um að þeir ættu að skella sér.

Viku síðar eða svo verður Jemen Jórdaníufundur. Þar vantar einnig þátttakendur og liðsinni VIMA félaga er vel þegið.

Þá er vert að taka fram að við breytum um hótel í Damaskus. Sumum hefur þótt Plaza heldur þreytt og þjónusta ekki nógu góð. Því hef ég fengið Jasminferðaskrifstofuna til að flytja okkur um set. Staðurinn er ekki síðri. Skoðaði þetta hótel í apríl sl. og leist vel á.

Fyrstu niðurstöður birtar á morgun.........!!

Það er um að gera að hafa þetta eins og æsandi kosningaúrslit.
Hvað sögðu menn um hótelin? Hvaða skoðunarferð er vinsælust?
Hvaða einkunn fékk Maher og hvernig líkaði fólki við Nissrín.
Svo fremi sem einir 5-7 sendi útfyllta spurningalista í dag hafa nógu margir svarað til að fyrstu tölur gætu birst á morgun. Svo drífið í þessu.
Septemberhópurinn hefur tekið vel við sér en báðir hópar ættu að vippa sér í málið af enn meira krafti.
Reikna með því að ýmsir séu í sumarleyfum. En samt. Sá að Guðrún Alda hafði svarað en listinn hafði misfarist. Sendu hann aftur, kæra mín. Og fleiri. Ég bíð og vonast til að fleiri láti í sér heyra og þakka þeim sem þegar hafa gert það.
Vel á minnst Guðmundur Kr. skrifar ábendingu v/"ferðaskrifstofuáráttunnar". Kíkið á það.

Halló halló !!!!!!!!

Það berast svör. Mikil ósköp og kæra þökk. Einkum og sér í lagi er síðasti hópur, þ.e. frá í apríl ötull. En septemberhópurinn mætti vera röskari. Ekki spurning. Aðeins einn úr þeim hópi, Brynja Arthursdóttir hefur svarað. Hún á þökk skilda. En drífið endilega í málunum.
Jafnskjótt og þriðjungur hefur svarað get ég farið að átta mig á heildarmynd og mun þá segja frá helstu niðurstöðum hér á síðunni.

Svo ÁFRAM KRAKKAR

SVÖR FARIN AÐ BERAST VIÐ SPURNINGALISTANUM

Gleðilegt að segja frá því að nokkrir VIMAfélagar hafa þegar fyllt út og skilað spurningalistanum til mín.
Það var Þuríður Árnadóttir sem kom fyrst í mark. Sýndi hún með því að þetta þarf ekki að taka langan tíma í þessu tímakreppta þjóðfélagi okkar. Svo bættust nokkrar við og nú bíð ég með öndina í hálsinum eftir að fleiri ljúki við listann.
Hvet ykkur til að svara. Veit að ýmsir eru ekki með aðgang að tölvum heima en vonast til að eitthvað skili sér í dag og svo hrúgist inn á morgun.

SENDUR SPURNINGALISTI TIL FÉLAGA

Eygló Ingvadóttir kom á dögunum með þá snjöllu hugmynd - sem hennar er von og vísa - að senda út spurningalista til félaga sem hafa farið í ferðirnar til að athuga hvað þeim hefði hugnast, hvað síður og umfram allt hvort eitthvað mætti bæta. Nú snaraði ég saman slíkum lista og dreifði á emaili til þátttakenda í síðustu tveimur ferðum. Þar sem allmargir úr ferð númer eitt hafa ekki imeil og það á við um nokkra í ferðunum sl. september og nú í apríl mun ég senda lista í pósti til þeirra eftir helgi.

Það skiptir miklu máli að fólk verði duglegt að svara þessu. Með því fæst hugmynd um hvað má betur fara, hverju ætti etv að sleppa og hvað leggja meiri áherslu á.

Svo verið endilega spræk í að svara listunum. Veðrið í dag er til þess. Það er sjálfsagt að kjósa og þá má ekki heldur vanrækja að horfa á fótboltann á eftir en SVARIÐ LISTASPURNINGUNUM OG SENDIÐ EINS FLJÓTT OG UNNT ER.

HVAÐ SEGJA VIMA-FÉLAGAR?

Sá að veruleg aðsókn var inn á Hugarflug í gær að fylgjast með málinu. Ýmsir tjáðu sig um málið og auk þess komu fínar ábendingar frá Guðrúnu Guðjónsdóttur og Þuríði Árnadóttur sem má lesa á eftir tilkynningunni.

Einnig skrifar Kristín Mantyla:
Mér kemur dálítið undarlega fyrir sjónir þessi skoðun ráðuneytisins að félagsskapur okkar hljóti að vera ferðaskrifstofa af því að við ferðumst saman.
Svo vill til að ég hef í áratug eða svo verið í öðrum samskonar "menningarfélagsskap", það er að segja því sem upphaflega hét Pálnatókavinafélagið en er nú orðið miklu fjölmennara en svo að það nafn eigi við alla meðlimi. Við höfum árum saman ferðast um Austur og Vestur Evrópu í ferðum, skipulögðum af Jóni Bö og félögum hans tveimur, nákvæmlega á sama hátt og VIMA með þér. Miðar keyptir af Flugleiðum en okkar menn ákveðið ferðatilhögun og verið leiðsögumenn. Ekki hef ég heyrt neinn halda því fram að Jón Böðvarsson reki ferðaskrifstofu.

Helga Garðarsdóttir skrifaði:
Þrátt fyrir einsleita umfjöllun velflestra íslenskra frétta- og blaðamanna um Miðausturlönd í mörg ár að þar væri allt á heljarþröm og að Vesturlandabúar hafi ekkert þangað að sækja, náði viðhorf og þekking Jóhönnu Kristjónsdóttur, blaðamanns, eyrum nokkurra Íslendinga og vakti áhuga þeirra á að heimsækja löndum.
Jóhanna er fararstjóri í ferðum VIMA. Ferðaskrifstofan er hins vegar sýrlenska ferðaskrifstofan Jasmin, veffang:http//www.jasmintour.com. Hvet ég "áhugafólk" um heimasíðu Johannatravel til að líta inn á síðu Jasmin.

Fyrir íslensk stjórnvöld og áhugafólk um heimasíðu VIMA kann að vera gaman að vita að þeir Íslendingar sem hafa farið til Miðausturlanda með Johannatravel hafa kynnt þjóð sína svo vel að heimamenn kalla "Iceland, welcome" á eftir þeim Íslendingum sem auðkenna sig með barmmerki þar sem þeir spranga um götur og torg, hvort heldur er einir síns liðs eða í hópi.
Vissulega gætu félagar VIMA komið til móts við þarfir ókunnugarar manneskju sem fram til þessa hefur fylgst glöggt með síðu félagsins, með því að ferðast í hæsta lagi saman tveir og tveir. En má ekki líka snúa þessu við og biðja umrædda manneskju um að leyfa okkur að njóta þess að ferðast saman í afar skemmtilegum hópi með skapgóðum og fróðum fararstjóra, í umsjón sýrlenskrar ferðaskrifstofu sem hugsar eins vel um viðskiptavini sína og hugsast getur og vandar vel valið á leiðsögumönnum?

Ari Trausti Guðmundsson skrifaði:
Ekki veit ég hver eða hverjir eru að amast við þínum ferðum með ferðalanga til austurs en ég get ekki séð hvaða vandamál samgönguráðuneytið ætti að sjá í þeim reisum.
Rétt eins og saumaklúbbar eða vináttufélag hefur óformlegt eða formlegt félag áhugafólks um Austurlönd nær eða samfélög araba rétt til að skipuleggja ferðir sinna félaga og allra sem slást vilja í hóp án þess að hafa til þess ferðaskrifstofuleyfi- svo fremi sem aðrir til þess bærir aðilar sjá um ferðir til og frá Íslandi og erlendar ferðaskrifstofur halda utan um gistingu og/eða skoðunarferðir síns hóps í sínum heimalöndum. Greiðslur fara beint til flugfélags og beint til samstarfsferðaskrifstofu ytra, þannig gengur slíkt fyrir sig.
Um þetta eru ótal dæmi: Litlir ferðaklúbbar fara í gönguferðir um Alpana, saumaklúbbar ferðast sem hópar til Rómar eða Helsinki, vináttufélög til Kúbu eða Kína og Ferðafélag Íslands hefur efnt til gönguferða í Noregi og Grænlandi svo fáein þeirra séu nefnd.
Með fundi fulltrúa ráðuneytisins hlýtur að vera hægt að eyða misskilningi og rekja ferli við hverja ferð svo ekkert fari milli mála.


Ástæða er til að þakka kærlega þessum fimm sem þegar hafa tjáð sig. Mun senda samgönguráðuneyti bréf eftir helgina og benda þeim á þær staðreyndir sem réttilega koma fram í ofanrituðum bréfum. Gaman væri þó ef fleiri bættust við.

Ábending til félaga VIMA

Mig langar að koma því enn og aftur á framfæri að Hugarflug-johannatravel er EKKI ferðaskrifstofa og sér ekki um sölu á farmiðum eins og ráðuneyti Samgöngumála virðist telja eftir að hafa nú í tvígang eða þrígang fengið senda síðuna frá sama "velþenkjandi" aðila og fyrr. ALLIR miðar eru fengnir hjá Flugleiðum og því er Hugarflug-JohannaTravel ekki ferðaskrifstofa.
Það getur varla verið bannað að fólk í félagsskap taki sig saman og fari í ferðalag.
Erlendis sjá útlendar ferðaskrifstofur um okkur.
Svo hvað er málið. Kannski er lítið að gera hjá viðkomandi alteknum "hugsjónamanni - eða konu". Væri gott að fá stuðningsyfirlýsingar frá ykkur. Ekki hástemmdar lýsingar í hamingju bænum. Bara að VIMA hefur rétt til að starfa eins og það hefur gert. Vima er löglegt félag með kennitölu og stefnuskrá og vill beita sér fyrir að kynna Miðausturlönd. Og fólk græðir manneskjulega á að fara í þessar ferðir. Eða ég vona það.

Ýmsar góðar hugmyndir VIMA-félaga

Greinilegt að VIMA félagar hafa áhuga á að leggja orð í belg því innistæða reyndist næg fyrir góðum hugmyndum.

Samdóma skoðun var að fólk úr ferðunum langar að halda áfram að hittast annað kastið. Við skulum endilega stefna að því og ekki láta það dragast úr hömlu. Mætti spá í samkomu af einhverju tagi þegar líður á sumarið og menn eru komnir úr sumarfríi.

Þá er augljós áhugi á að athuga ferðir til Írans. Óman nefndu allmargir. Báðar þessar ferðir mundu væntanlega vera nokkuð dýrar en hugmyndirnar eru til fyrirmyndar og verða kannaðar vandlega. JemenJórdaníu ferðin nú í vor hefur spurst vel út og nokkrir notuðu tækifærið til að skrá sig í Jemenferðina í haust.

Tyrkland var nefnt og er vissulega fýsilegt. Aftur á móti býst ég við að það yrði nokkuð snúið vegna þess að hinar hefðbundnu ferðaskrifstofur hafa skipulagt ferðir þangað - að vísu ekki ferðir eins og VIMA telur spennandi - en þær kynnu að hefja aftur sitt krúnk. Látum það bíða um stund.

Áhugi er á arabískri tónlist og matargerð, menningu og hugsunarhætti.

Þá minntumst allmargir á þá hugmynd sem kom upp í aprílferðinni til Sýrlands og Líbanons að bjóða gædinum okkar Maher Hafez til Íslands næsta sumar og ekki vafi á að flestir ef ekki allir sem hafa kynnst Maher í ferðunum mundu taka því glaðlega. Við þurfum að reikna út kostnað og fleira því tengt og á haustnóttum munum við senda út email/bréf um þetta. Ég hygg að ef þátttaka verður góð í því verði upphæð varla meira en tvö þúsund krónur á mann. En meira um það síðar.

Fræðsla um fólk og mannlíf er ofarlega í hugum ykkar. Konur í Arabalöndum og staða þeirra. Vek þá athygli á því að í haust kemur -insjalla- út bók mín um þetta efni. Konur í fjórum Arabalöndum, Sýrlandi, Jemen, Egyptalandi og Óman og vona að hún veiti þar innsýn sem menn græða á að kynna sér.

Hugmyndarúttektinni var sem sagt tekið vel og stjórn VIMA þakkar kærlega og hefur þetta allt bak við eyrað.
Allar tillögur og ábendingar eru til bóta og hvet til að þið látið heyra frá ykkur sem oftast.

TAKIÐ ÚT ÚR HUGMYNDABÖNKUNUM YKKAR!!!!!!!!!!!!!

Á morgun ætlar stjórn VIMA að hittast til skrafs og ráðagerða og íhuga vetrarstarf og þess háttar. Ýmsir hafa sýnt áhuga á að kynnast matargerð, tónlist og fleiru frá Miðausturlöndunum okkar og væri þarft og nauðsynlegt að fá hugmyndir frá ykkur, ágætu félagar.

Einnig er vert að benda stjórninni á fleiri áfangastaði sem ykkur finnst girnilegir.

Næstu daga verða settar myndir inn á heimasíðuna. Ef einhver ykkar eiga góðar myndir sem ættu erindi þar væru þær einnig velþegnar.

LÁTIÐ HEYRA FRÁ YKKUR. Í DAG.

Tilkynning um meiri andagift

Ef þið farið inn á bloggið andagift hefur bæst þar við dægilegur kveðskapur úr Jemen Jórdaníuferðinni sem VIMA-félagar efndu til þann 4. maí og stóð til 21.maí.
Kynnið ykkur hvernig þessi framandi lönd komu þingmanninum okkar,
Ástu Ragnheiði fyrir sjónir

Tilkynning um frestun á Egyptalandsferð

Af óviðráðanlegum ástæðum sýnist mér sem ég verði að fresta Egyptalandsferð um sinn. Til stóð að hún yrði í mars á næsta ári en nú lítur út fyrir að ekki sé tök á að fara hana fyrr en með haustinu. Ég hef áfram á lista hjá mér þá sem hafa látið í ljós áhuga á þessari ferð og breytist eitthvað set ég það snarlega hér á síðuna.